þriðjudagur, janúar 04, 2022

Annáll 2021

 Þegar maður hugsar til baka til þessa árs er eiginlega hinn blessaði corona vírus faraldur það fyrsta sem maður man eftir. En líklega á ársins mest að verða minnst sem ársins sem pabbi kvaddi, tvö frábær brúðkaup og upphaf lágkolvetnalífstílsins.

En ef ég reyni að fara skipulega í gegnum þetta þá 

Janúar 

- þá fór ég í Rjóðrið með Möggu, Ínu og Gerði.

Febrúar

- fór með strákunum og Dagbjörtu í keilu

- Kardimommubærinn með fimm barnabörn og Viktor og Guðmundur í gistingu

- í indverskan mat og spil til Möggu og Ínu


Mars- skrifaði hellingu um hann hér því við fórum vestur, mokuðum í gróðurkassa, keyptum húsgögn á pallinn og fleira skemmtilegt

Apríl

- Páskarnir voru skemmtilegir, við fengum krakkana til okkar í tveim hollum vegna sóttvarna, svo það var keyrður tvisvar mikill ratleikur um allt hús og voru mínir strákar nokkuð einbeittir í því að leysa þrautir, en hinum fannst þetta helst til langt en fundu eggin samt.






- Hótel Hella með Möggu og Ínu


Svo kom Guðmundur og gisti og ég fór í stutta vinnuferð á Hrafnagil.

Eldgosið er auðvitað líka eftirminnilegt, við vorum með matargesti, Huldu frænku Gunnars og kærasta hennar hann Birgi sem er flugmaður og hann fór fljótlega að fá skilaboð svo við kveiktum um leið á sjónvarpinu og sáum fréttirnar. Í næstu ferðum suðreftir var gaman að sjá þetta náttúrufyrirbæri og ósjaldan rúntuðum við niður að golfvelli til að horfa yfir.


Apríl bar líka með sér sorg en Sigurlaug Ragnarsdóttir vinkona okkar og eiginkona Harðar lést 23. apríl eftir langvarandi baráttu við krabbamein. Við höfum flakkað með þeim um allan heim og landið vítt og breitt og hennar verður sárt saknað. Hér erum við 2015 í einhverjum bíltúrnum.


Maí

Þá dó ískápurinn í bílskúrnum og Gunnar hélt það nú að við gætum verið án þess, en breytti fljótt um tón þegar honum var bent á það að við þyrftum almennilegan frysti til að geyma aflan af Heiðari, svo við festum kaup á frystikistu.


Við buðum Guðmundi og Einari Inga á sinfóníutónleika að hlusta á tónlistina úr Kardimommubænum.



Matarboð hjá Gerði og Jóni sem endaði í miklu partíi, man ekki að það hafi verið neitt tilefni en gaman var það.


Við Ásta Júlía fórum á golfnámskeið í Þorlákshöfn og fengum eiginlega bara einkakennslu. Það varð reyndar ekki mikið um golf meira þar sem önnur verkefni tóku við.


Rétt fyrir uppstigningadag fengum við að vita að pabbi væri með krabbamein og þann dag kom hann til mín í mat, ég vissi ekki þá að það yrði í síðasta skiptið. Hann og Þórunn höfðu líka komið til mín í svið í lok apríl og síðan hef ég boðið henni stundum til mín.

Júní

Þetta sumarið fórum við í fjórar gönguferðir með Oddfellow, um Straumsvík, um Elliðaárdagl, um Búrfellsgjá sem er rétt uppaf Heiðmörk og svo í lok sumars um Hólavallakirkjugarð.

Í byrjun júní fórum við til Vestmannaeyja, það var sjómannadagur og mikið um að vera. Gunnar linnti heldur ekki látunum fyrr en ég hafði samband við Helgu og Arnór og við áttum með þeim skemmtilegt kvöld.  Hér er mynd af mér við mynd af Gyðu Arnórsdóttur, ömmusystur minni mömmu Arnórs, en hún lést í 26. janúar en var fædd 25. maí 1922.



Við keyrðum um og reyndum að skoða eitthvað í rigningu og þoku en Gunnar þarf greinilega að elta mig í næstu vinnuferð þangað til að sjá náttúruna almennilega.




Gleðin í júní var að fara í giftingu vina okkar. Ásta Júlía og Ágúst Magni giftu sig 19. júní í kirkju og veislan var á Miðhrauni.  Gestirnir voru eins og kálfar að vori að sleppa út og það var mikil gleði. Nýju hjónin voru alsæl og rauð í bak og fyrir. Ég söng fyrir þau í athöfninni Grow old along with me eftir John Lennon.  Sjá meiri myndir hér



Þessir stubbar áttu með okkur góða dag, fórum í sund, á Kentucky og horfðum á Hrafnhildi leika leikrit í Hellisgerði.

Júli

Um júlí má lesa í bloggfærslum, fyrst um ferðina austur á djúpavog og um útför pabba og síðast um samveru með systkinum mínum í kringum hana og tyrfingu á garðinum.



Áfram héldu systurnar gleði og sorg að tala saman, því viku eftir útför pabba giftu Magga og Ína sig við Nauthólsvík. Yndisleg athöfn undir berum himni og heljar partý á veitingastaðnum. Ég klikkaði eitthvað á myndatökunum svo ég hef stolið myndum frá öðrum af þeim  og líka af okkur Gunnari að flytja Brendu Lee lagið If I didn´t care.

Geggjaður dagur í alla staði.



Gleðin yfir lífinu hélt áfram því Viktoría Amaka sem varð 1 árs 2. júlí var skírð 24. júlí úti á palli hjá okkur af Séra Arnóri, þeim sama og jarðaði Pabba. Góður dagur með grillborgurum og sprækri dömu sem skildi ekkert hvað þessi maður var að sulla á hana vatni og sofnaði svo þreytt hjá ömmu sinni.



Við enduðum svo júlí með því að bera á pallinn og grilla með Kristínu og Ingvari.


Ágúst

Var eitthvað rólegur, enda Covid og leiðindi. Við fórum í Rjóðrið með Möggu, Gerði og co og höfðum það dásamlegt að venju.  Gunnar fór þrjá daga norðu í veiði með Tuma, Ingvari og fleiri gæjum.

September

Í byrjun september vorum við aftur í öndverðarnesinu en að þessu sinni með Iðunni og Stebba, spiluðum golf á rennblautum vellinum við Úlfljótsvatn og sungum karaóke fram á rauða nótt. Þá vissum við ekki að það yrði síðasta heimsóknin í Bjarmaland því þau hjónakornin seldu bústaðin í árslok, en fyrr á árinu höfðu þau flutt úr Hafnarfirðinum í Lund í Kópavogi og hyggjast nú á meiri ferðalög á erlenda grund.



Haustið

Þrátt fyrir covid tókst okkur samt að gera helling á haustinu:

- fara á Fjörukránna þegar Viktor átti afmæli

-heimsækja Hörpu með Svövu Tönju og hlusta á níundu sinfóníu Bethovens og á óperuna að sjá La Traviata.

- kosningavaka með Möggu og Ínu

- 9. okt Stuðmenn og Kopar með systrum mínum.

- afmælishátíð HÍ og ég stalst aðeins á pöbbarölt.

- geggjað Halloween búningaafmæli hjá Guðmundi Pálma

- annað geggjað matarboð hjá Gerði og við gistum á hótel Keflavík

Óvissusaumó hjá Möggu með sjósundi og ég fór líka í sjóinn með hóp frá HÍ svo settum við Magga það okkur að fara alltaf á fimmtudögum og náðum nokkrum góðum ferðum áður en annir urðu of miklar.


Í allri þessari upptalningu er nokkur matarboð með góðum vinum ótalin, en við hittum amk. Kristján og Rhonu, Daða og Dísu, Ástu Júlíu og Ágúst, Kolbrúnu, Berglindi og þeirra karla. Líklega gleymi ég einhverju en vonandi er það skráð í myndum en voru allt góðar stundir með mat, vín, spjall og stundum spil.

Barnabörnin

Gunnar fór með öll eldri börnin í menningar- og skemmtireisu á árinu: Með Hrafnhildi í Listasafn Íslands í janúar, með Baltasar í axarkast og nokkrum sinnum í sund. Við fórum með Gabríel á Selfoss, í Draugasafnið og að skoða strandaðan hval við Þorlákshöfn.  Litlu stubbarnir heimsóttu okkur öll oft og má sjá þau í myndasafni ársins í pottinum, tölvuleikjum, göngutúrum, rólóum og við eldhúsborðið. 

Hér má lesa og hlusta hvernig kórastarfið var árið 2021

Af krökkunum er meira og minna gott að frétta. Ingvar og Kristín hafa fest kaup á húsi og flytja með allan skarann sinn til Grindavíkur í ársbyrjun. 

Lilja er farin að vinna á tannréttingastofu, krílin í leikskóla og eru hress og kát og Daníel vinnur og vinnur hjá Aðföngum. 

Bergþóra Sól kynntist honum Birki sínum og við sáum lítið til hennar um miðbik ársins en hann bjó þá í Njarðvík. Hún kláraði B.S. gráðuna sína í hagfræði og útskrifaðist í haust og hélt fína veislu. Hún byrjaði aftur að vinna hjá Skeljungi í vor og er þar enn. Eftir að hún skilaði ritgerð fóru þau til Spánar og fluttu svo saman á Hlíðarenda svo nú erum við tvö í kotinu.

Pétur er hjá Héðni og spilar tölvuleiki í gríð og erg og stundum Dungeons and dragons. Jón og Dagbjört eru í Innri Njarðvík, hún í sinni umönnunarvinnu og hann puðar í háskólabrú Keilis og er langt kominn með hana.

Við erum heppin með þennan skara allan, þau koma og aðstoða okkur við viðhaldið og garðinn og að öðrum ólöstuðum á Ingvar extra þakkir skyldar fyrir öll sín handtök og að gefast ekki upp á verkefnum sem við værum löngu búin að leggja árar í bát eins og að festa upp viftuljós í svefnherberginu.


Annars leit árið mest svona út, ég í bláaherberginu að kenna, vinna og funda. Í vinnunni hjá Gunnari standa yfir breytingar og þau hafa töluvert mætt uppá Stórhöfða. Okkur heilsast báðum vel. Í ársbyrjun ákváðum við að fara á kolvetnasnautt fæði og höfum losað okkur við tugi kílóa. Gunnar fær bara góðar skoðanir hjá hjartalækninum. Ég fékk lyf við háþrýsting og losaði mig við sykur í blóði.

Ég ætla líka að setja það hér til minnis að þetta er árið sem ég ætlaði að losna við gleraugun. Ég fór í ótal mælingar og til tárahjúkrunarfræðings vegna slæmrar tárafilmu. Ég hitaði og nuddaði augun í mánuð til að vinna bug á því en þegar upp var staðið var ég  hvorki kandidat í leiser né augnsteinaskipti. Jú þeir gátu gert það en með 80% líkum á að ég þyrfti áfram lesgleraugum neð lélega tárafilmu og síbreytilega sjónskekkju.  Svo spurði Berglind mig hvort ég gæti ekki fengið linsur, og jú það var hægt og nú er ég búin að vera með slíkar í mánuð, annað augað með lesstyrk og hitt með frá mér styrk og gengur bara vel. Rendurnar inná augnlokunum eru fitukirtlar sem gera tárafilmuna.


 Nú þegar ég er búin að skrifa þetta allt er ég búin að skipta um skoðun, þetta var frábært ár með mörgum gleðilegum viðburðum með þeim erfiðu.  Við Gunnar þökkum alla þessa gæfu og horfum bjartsýn til komandi árs.



Engin ummæli: