föstudagur, nóvember 01, 2019

Lítill leki sem varð að stóru ævintýri

Í apríl, þann 11. daginn fyrir ferðalag var ég ein heima og heyrði vatnshljóð inni í vegg!  Þá var farið rör í gólfinu undir sturtuklefanum sem varð byrjunin á ferli sem er ekki enn lokið núna um áramótin, nokkrir listar og fifferí eftir. Þarna í apríl skrúfuðum við bara fyrir vatnið og fórum í ferðalag, svo tók við annasamt vor og við fórum ekki að huga að þessu í alvöru fyrr en undir sumar, fórum ótal ferðir í Bauhaus, byko, IKEA og allt hitt að skoða innréttingar og tæki.

Við tókum upp parketið sem hafi skemmst á ganginum og settum flísar frá útihurð og inná bað, hita í gólfið í forstofu og baðherbergi.  Það er algjör snilld.



Við settum allt nýtt í baðherbergið nema baðkarið og veggflísarnar, sturtan er opin með góðum vatnshalla.  Innréttinguna fundum við í Bauhaus og féllum bæði fyrir bogalaginu á henni.

Svo settum við skáp í forstofuna, þar var hræðilegur gólfdúkur og skápur sem tók eiginlega ekki neitt. IKEA átti grunna skápa og við settum spegla á tvær hurðir til að opna svæðið.  Það kemur bara fínt út.

Fyrst við vorum byrjuð og þurfti að brjóta hér og þar vegna vatnslagnanna settum við innréttingu í  þvottahúsið,  hækkuðum vélarnar og settum nýjan fínan vask.  Allt úr IKEA. 

Inni á gestaklósetti var sett nýtt upphengt WC og vaskur með litlum skáp, héldum veggflísunum, svo það er smá hippaandi eftir þó að heklaði spegilinn hafi vikið.


Þar að auki var skipt um allar vatnslagnir og brotið á ýmsum stöðum til þess, óvart var brotið inn í svefnherbergi svo ég málaði þann vegg líka og gluggavegginn sem hafði fengið nýjan ofn fyrir einhverjum árum og sást í þrjá liti fortíðar þar sem nýji ofninn var aðeins minni.

Þetta allt tók langan tíma og marga iðnaðarmenn sem Gunnar reddaði og sá um öll samskipti við.  Ingvar kom og hjálpaði, Pétur braut flísar og ég þreif. 

Þeir sem vilja sjá meiri myndir af broti og búðarferðum geta litið hér .