mánudagur, febrúar 12, 2024

Annáll 2023

 Þetta ár byrjaði með nýjum áskorunum, við vorum nýbúin að fá fregnir að Gunnar var með krabbamein á tungunni. Það var skorið burt 17. janúar og teknir eitlar úr hálsinum. Við tók svo langt og strangt ferli að fá sárin til að gróa og hætta að blæða.  Þessi vandræði tengdust náttúrulega því að hann þarf að vera á blóðþynnandi lyfjum vegna hjartalokunnar, og þurfti að feta þarna vandrataðan milli veg. Ég skráði ekki hvenær þessu lauk en það var trúlega ekki fyrr en í febrúarlok. En þá fór hann að braggst hratt og vel og fór fljótlega í vinnu.

Í mars fórum við á Draumaþjófinn með Guðmund Pálma og Viktor.



Í mars fór ég til Osló á NERA ráðstefnuna og strax daginn eftir skunduðum við með Hrafnhildi, Baltasar og GAbríel til Liverpool, við borðuðum mikið á skyndibitakeðjum, þeir fóru á leik í Manchester eftir að Liverpool leikurinn sem var markmið ferðarinnar var felldur niður og við Hrafnhildur fórum og sáum Disney on Ice í höllinni sem Eurovision átti svo að fara fram nokkrum vikum síðar.  Svo heimsótum við Anfield og skoðuðum miðborgina.


Um páskana í byrjun apríl fengum við þá fínu hugmynd að fá rafmagnshjólin lánuð hjá Ínu og Möggu, ekki vildi betur til en að við vorum varla lögð af stað þegar ég klúðra einhverju og keðjan fór af. Það var ekki vinnandi vegur að ná henni á aftur svo við snerum við settum hjólið á bíl, en Gunnar var ákveðinn að hjóla heim úr Laxakvíslinni. Það vildi ekki betur en svo en hann datt rétt við Cintamani og kom heim illa til reika. Seinna sáum við í hjólaappi sem ég hafði sett í símann hans, að hann hafði tekið krókaleið heim, beygt til vinstri inn Arnarhraunið, svo niður Krókahraunið og þaðan heim. Hann vissi aldrei hvað varð til þess að hann datt, en hann fór á slysó og hausinn var myndaður í bak og fyrir en ekkert fannst. Aftur á móti slasaðist hann á öxl og viðbeinið stendur enn uppúr henni og skiptar skoðanir á hvort eitthvað eigi að gera í því. 



Baltasar fermdist svo 16. apríl og haldin var fín veisla og afinn tók myndir.



Þegar sól hækkaði á lofti fengum við Daða og Dísu í mat o og líka Huldu og Birgi og gátum setið úti á palli 21. apríl.



26. apríl var svo viðburður ársins þegar ungfrú Jónsdóttir fæddist fyrir tímann og næstum því í beinni útsendingu þar sem ég var með fríðunum í saumó og pílu.  Hún dafnar rosalega vel, er síkát og brosandi.  Við gáfum henni bílstól og það var gaman að fara með Kalla að græja það.



Hún var svo skírð Perla Dís Ottesen Jónsdóttir þann 15. október. Séra Baldur skírði og veislan var á Mánagrund.

Við þrjár systur fórum í bústað fyrstu helgina í maí, alltaf jafn notalegt. 

Í maí skaust ég líka með samstarfsfólki til Kaupmannahafnar að skoða skólahúsnæði þar sem við erum á haus í þannig pælingum vegna flutninga sviðsins í Sögu.

13. maí hélt ég Eurvision partý og Pétur bakaði pizzur ofaní okkur í nýuja pizzuofninum sínum.

Í maílok fórum við svo með Oddfellow til Portó, skoðuðum mikið, borðuðum saltfisk, fórum á Fadó kvöld drukkum dásamleg vín of efldum vinskap við nýja vini.  Óvæntasta ævintýrið var samt það að ætla á Robbie Williams tónleika á hátíð sem var þarna. við töldum okkur vera búin að kaupa miða en samdægurs kom í ljós að við fengum ekki miða, en nutum tónleikanna samt í botn á gangstéttinni fyrir utan með hundruðum mans.


Þegar Gunnar og hinir fóru svo heim fór ég með rútu til Lissabon á fund um stafræna borgaravitund og eignaðist enn nýja vinkonu hana BErgþóru og við áttum góðan fund og skemmtilega samveru.

Svo var götugrill á Klettahrauninu.

7. júní varði hann Benjamin svo doktorsverkefnið sitt en þetta er í fyrst skiptið sem ég er í doktorsnefnd með Berglindi og Veli-Matti og Allysona aðalleiðbeinandi.  Ég bauð í veislu í tilefni varnarinnar.

Í júní fórum við í mikið ferðalag, fyrst í húsaskipti í Kaupmannahöfn, hjóluðum töluvert en ég varð líka lasin. Svo fórum við til Þýskalands, hittum Möggu og Ínu og sváfum í Glamping.  Þaðan lá leiðin aftur til Danmerkur í heilmikla 25 ára brúðkaupsafmælisveislu Röggu og Bjarts í Favsbjerg.


Svo leið sumarið heima með smáfólki í heimsókn, spilagleði hjá Gerði, gestum á pallinum. 

Í ágústbyrjun fórum við á Vog  á Mýrum og höfum aldrei fengið eins dásamleg veður til að leika okkur, róa og synda í sjónum.


Við kíktum á Iðunni og Stebba sem flutt eru á Vatnsnesveginn í Keflavík og búin að gera mjög flott hjá sér.

19 ágúst héldum við loksins pallapartýið, gerðum pulled pork, keypti píluspjald og þeir sem mættu skemmtu sér vel við leiki og karaóke.

16. september var ættarkaffi hjá afkomendum Sigurjónu og Þorsteins, ömmu og afa Gunnars í móðurætt sem voru þá 307.

Dóra og Bjartmar voru í heimsókn í september og við fórum með þau hring um Reykjanesið og borðuðum úti í Garði.

27. september vorum við aftur komin á flakk, þá til Bristol með Kór Víðistaðasóknar, heimsóttum líka Cardiff og sungum í tveim kirkjum. Við fórum á söngleikinn Charlie and the chocolate factory og Gunnar og Hjörleifur á fótboltaleik meðan við skoðuðum brú og fórum í hoponoff.  Kórinn var líka duglegur. Við fluttum Faure Requiem með kórum Kjalarnesprófastsdæmis í febrúar, tónleika í maí og aftur í nóvember ma vegna 50 ára afmælis stjórnandans sem finnst ég alltaf vera í útlöndum. Skil ekki þetta rugl í honum!

Þegar kórinn fór heim flugum við Gunnar til Barcelona og svo í leigara til Sitges til að halda uppá 50 ára afmæli Huldu systir.  Þetta var svka fjör, fórum á ströndina, á marga bari, til Barcelona í Sagrada famili og food tasting tour.  á afmælisdaginn var svo flottur dinner á dragshowi sem var geggjað.


Enn einu sinni fór ég á flakk í lok október og fór þá með 1966 vinkonunum til Norður Karólínu að heimsækja Björgu. Við áttum notalega daga, fór vel um okkur í ristastóra húsinu þeirra og veðrið notalegt. Einar eldaði oft, meðal annars djúpsteiktan kalkún og svaka steik. Við keyrðum töluvert bæði í næstu bæi, til Myrtle Beach þar sem sumar fóru í golf og við allar í súpergolf. Síðan í Biltmore House, og svo auðvitað í mollin og outletin og komum heim með svona 70 skópör og troðnar töskur.


Langþráð Oddfellow árshátíð var svo í nóvember, þetta eru einu skiptin eiginlega þar sem við dönsum svo ég splæsti bæði í nýja eyrnalokka og krullur og notaði loks kjólinn sem keyptur var 2020 rétt fyrir covid!

Guðmundur og Viktor gistu nokkrum sinnum en allaveg 25. nóvember og þá var lífið orðið skrýtið hjá Viktori því búið var að rýma Grindavík þann 10. nóvember vegna hættu á eldgosi og við fórum með Viktor að keppa í fótbolt og á skautasvellið þar sem Grindvíkingar fengu frítt inn. 

En gosið kom svo 19. desember, https://eldgos.is/eldgos-vid-sundhnukagiga/  þetta er erfiður tími fyrir fólkið okkar Ingvar, Kristínu og þeirra börn sem eru búin að setja allan sinn pening og orku í að gera upp hús sem þau keyptu í Grindavík í sumar. Það er eftirminnilegt kvöldið þegar Kristín hringdi í okkur og sagði okkur að það væri komið gos. Þau rýmdu sitt heimili, fóru fyrst í orlofsíbúð en svo í bananablokkina í Hafnarfirði. Viktor 



Við hófum framkvæmdir í desember, fengum rafvirka til að endurnýja tengla og töflu og setja inn ný ljós. 

Desember var fínn, við fóurm í partý með 1966 vinkonunum, á jólahangikjöt menntavísindsviðs sem líklega er í síðaasta skipti í stakkahlíðinni. Mjög fínt jólaboð Oddfellow þar sem Gurrý skemmti okkur konunum. J'olaveinninn heimsótti Lilju og vinkonur hennar. Við vorum tvö á notalegu aðfangadagskvöldi. Liðið kom til okkar á jóladag og Kristín og Lilja með sitt lið komu á gamlárskvöld en við Viktoría vildum helst vera inni og ekki horfa á háværa flugelda.

Við fórum á Fíu Sól 30. des með Viktor og Guðmund Pálma. Þeir gistu báðir en þetta var ekki auðvelt, enda taka þeir þetta ástand greinilega báðir nærri sér.

 Annars endaði ég árið með von í hjarta en samt þungt í sinni þegar ég keyrði Jón á Vog 21. desember.  Af öðrum er það að frétta að Lilja vinnur á tannréttingstofunni, Viktoría og Kristófer eru spræk á sínum leikskólum og fara aðrahverja helgi til pabba.  

En góðu fréttirnar eru þær að Birkir og Bergþóra eiga von á barni með vorinu.

Hér er svo gott úrval af myndum frá þessu fjölbreytta ári.



Afmælishelgin 2024

Eftir því sem árin líða hef ég meira gaman af því að halda uppá afmælið mitt.

Nú var tókst að skipuleggja allskyns skemmtilegheit.  Á föstudagskvöldið var árshátíð HÍ í Hörpu og við ákváðum að gista bara á Radison 1919 í göngufæri. Svo á afmælis laugardeginum nýttum við gjafabréf frá Kristínu og Ingvari og fórum í hádegisverð og spa á Centerhótel, og bættum við nuddi. Svo sófakósý um kvöldið og næsta dag komu Gerður, Ína, Lilja og Pétur sem hafði gist í spil kl. 13:00 svo bættust við Magga, Steingrímur, Hrafnhildur, Baltasar, Diljá og Hans Þór í bollukaffi.  Við Gunnar enduðum svo á að fara í göngutúr og gefa öndunum mislukkuðu gerbollurnar.



Það er samt mismunandi hvað verður fyrir  valinu, 2023 á ég mynd af mér að  borða uppáhalds kebabið mitt og falafel, en þá var Gunnar líka að glíma við sárið eftir krabbameinsskurðinn.

2022 bauð ég í spil og vöfflur á sunnudegi eftir að hafa farið á Irishman pub á fimmtudags- afmælisdeginum í karaóke með vel völdu fólki.

2021 Fór ég með strákunum, Dagbjörtu í keilu 14. feb líklega í tilefni afmælis.

Þar á undan er fátt að frétta en veit samt að ég var nokkrum sinnum með Guðmund Pálma og Viktor í næturgistingu um þetta leyti.

Meiri afmælismyndir hér.

sunnudagur, apríl 24, 2022

Viðburðarríkir páskar - apríl 2022

 Ég ætla að henda hér stuttum minnislista yfir viðburðaríka páska 2022 og líka um apríl.

Fyrir páskana vorum við eiginlega ekki með miklar áætlanir í hendi en það breyttist fljótt:

Miðvikudagur. Sótti Viktoríu og Kristófer á leikskólann og átti góðan dag með þeim.

Fimmtudagur Skírdagur: Söng eina fermingarmesu og sóttum svo þau systkinin heim og fórum á rúntinn og í Húsasmiðjuna að heimsækja páfagaukana.  Síðan Jesus Christ superstar í Hörpu með Iðunni og Stebba og 1. í grilli hjá þeim áður

Föstudagurinn langi:  verkefnayfirferð hér heima og svo 2. í grilli hjá Ástu Júlíu og Ágúst, spiluðum svo nýju spilin mín, Dixit og Wizard.

Laugardagur: Liðið okkar í læri og bakað grænmeti, páskaratleikur í tveim útgáfum, einn fyrir stubbaliðið og svo flóknari fyrir stóra liðið. Þar sáum við að þau vita ekki mikið um páskana og Jesú. Þið getið reynt ykkur á þessum þrautum hér neðar.

Páskadagur: Eftir söng í  páskmessu með messukaffi með brauðtertum og páskaeggum fórum við í ferðalag á Snæfellsnes. Fyrst á Hótel Búðir þar sem við áttum gjafabréf frá Ingvar og Kristínu. Gengum þar um í dásamlegu veðri, fengum frábæran mat og sváfum í svítu. Gunnar bað um útsýni yfir hafið en starfsmaðurinn uppfærði okkur þá í herbergi með útsýni yfir jökulinn sem er líklega það sem flestir aðrir gestir sækjast eftir.



Annar í Páskum: eftir fínan morgunmat rúntuðum við upp að jökli, skoðuðum ýmsa hliðarvegi og svo í kaffi hjá Herði og Kristínu á Ólafsvík, svo til baka á Arnarstapa í borgara, gistingu og gott spjalla hjá Helgu og Óla. (gleymdum að taka mynd af okkur!)

Fyrst ég er byrjuð á þessari upptaliningu ætla ég að hafa restina af apríl með, við eins og margir aðrir erum búin að vera mikið út á lífinu, ég man varla hvernig eldavélin virkar!

1. apríl fórum við að spila til Möggu og Ínu og tókum með veitingar

2. apríl kom Viktor í gistiheimsókn og við spiluðum tölvuleiki og borðuðum úti á Rif.

3. apríl var Arnar Ingi Valdimarsson fermdur

5. apríl tók kirkjukór Víðistaðakirkju upp útvarpsmessu fyrir föstudaginn langa svo það er búið að vera töluvert um söng, fermingar allar í venjulegu standi, 3. apríl, Pálmasunnudag og skírdag.

8. apríl fórum við loks á 9 líf, Erla og Villi fóru með okkur og við borðuðum fyrst á Finnson. Mig er lengi búið að langa til að fara þangað og varð ekki fyrir vonbrigðum og mæli eindregið með sýningunni.



9. apríl heimsóttum við Daða á flottu leirlistasýningunni hans 



10. apríl fórum við á bryggjurúnt, sem endaði með heimsókn í Kolaportið og High tea á apótekinu, alveg svona óvænt, en þannig er lífið oft með Gunnari

20. síðasta vetrardag Hereford steikhús að kveðja samstarfsmann Gunnars

21. sumardaginn fyrsta buðu Ingvar og Kristín okkur á Vestmannaeyjatónleika í Hörpu

22. apríl Fórum við á eftirminnilega sýningu í Þjóleikhúsinu, Hliðstæður veruleiki þar sem áhorfendur eru með sýndarveruleikagleraugu og eru þátttakendur í atburðarásinni. Tryggvi, Hlín og Skúlína voru með okkur og við ræddum sýninguna á Geira Smart að henni lokinni.

23. apríl var svo Gabríel Veigar fermdur en það er eiginlega efni í sér póst

Svo fer ég á barinn með samkennurum á morgun og svo til Parísar á fimmtudag svo það er enginn endir á gleðinni.

Ég sé að ég er ekki alveg að standa mig í myndtökunum en hér er albúm með ágætu úrvali



Páskaþraut

Þið finnið stafina með því að vita eitthvað um Jesús og páskana – megið ekki gúggla. Raðið svo saman stöfnunum í orð sem er vísbending um næsta stað 

Jesús fékk þetta að drekka á krossinum  (1 stafur)

Garðurinn þar sem Jesús var handtekinn  (1 stafur)

Hvað heitir dagurinn fimmtudag fyrir páska  ( 1 stafur)

Mamma hans Jesú  ( 2 stafur)

Hæðin þar sem Jesús var krossfestur (6 stafurinn)

Borgin sem Jesús fæddist í (fyrsti stafurinn)

Jesú var nelgdur á ….. (fyrsti stafurinn)

Sá sem var landstjóri þegar Jesús fæddist ( 4 stafurinn) 

Seinni þrautin:

 Lærisveinninn sem afneitaði Jesú 3 sinum (fyrsti stafurinn)

Lærisveinninn sem sveik Jesú (síðasti stafurinn) 

Hvað hét dýrið sem Jesú reið inná í borgina sunnudeginum fyrir páska?

Fjöldi silfurpeninga sem sá fékk sem sveik Jesú (2 stafurinn) 

Á krossinum voru fjórir stafir, þetta er sá fyrsti

Lærisveinninn sveik jesú með …..  (þriðji stafurinn

Fjöldi lærisveinanna ( 1 stafur)

Borgin sem Jesú reið inní sunnudaginn fyrir páska (2 stafur)

Lærisveinninn sem skrifaði guðspjallið og er oftast lesið á Jólunum (1 stafurinn)

Þegar Jesús hitti Lærisveinana á Hvítasunnudag fylltust þeir ……. (5 stafurinn)



fimmtudagur, apríl 21, 2022

Viðburðasúpa og Covid Mars 2022

 Nú hefur öllum takmörkunum vegna Covid verið aflétt og síðan þá höfum við Gunnar ekki stoppað við að vera með fólki og sækja allskonar viðburði.

Reyndar fengum við fyrst Covid, Gunnar byrjaði 24. febrúar daginn áður en öllum takmörkunum var aflétt. Hann missti þá af karlakvöldi oddfellow og að fara á Vínartónleika með strákunum, Dagbjörtu og Hrafnhildi 26. mars og sama dag að sjá Emil með strákunum og þar fékk Svava Tanja að hlaupa í skarðið.  Daginn eftir var ég farin að finna fyrir einkennum svo það mátti ekki tæpara standa. Gunnar varð ekki mjög veikur af Covid, var sestur við tölvuna á 5 degi og svo kominn í vinnu á 7 degi. En vikuna eftri fékk hann flensu og er enn að glíma við eftirköstin af þessari samsetningu.  Ég varð hundveik af covid, ældu lungu og lifrum í á annan sólahring, og var svona 3 vikur að jafna mig almennilega. 






Krakkarnir komu til okkar í kjöt í karrý 13. mars en við höfðum lítið sem ekkert boðið þeim öllum saman vegna veiruskrattans.

Við áttum uppsafnaða miða á viðburði sem hafði verið frestað og frestað sem við gátum þá nýtt og notið.

23. mars  Rómeo og Júlía með Íslenska dansflokknum, Hrafnhildur og Svava Tanja fóru með var jólagjöfin þeirra.

24. mars Páll Óskar 50 tugur í Háskólabíói, þá miða gaf Gunnar mér í jólagjöf jólin ´19

25. mars Gleðistund með samstarfsfólki á forréttabarnum og svo á VHS krefst virðingar með Lilju Björgu í Tjarnabíói

26. mars sáum við svo Hrafnhildi leika Talúllu í Bugsy Malone í Hraunvellaskóla, stóð sig frábærlega vel og rosalega flott sýning með öflugum leikuru og lifandi tónlist. Þá þurfti ég að útskýra hvernig ég tengdist Hrafnhildi og það sem datt uppúr mér var að stjúpmamma hennar væri stjúpdóttir mín,..... þessar flóknu samsettu fjölskyldur.

Þá í  vikunni hafði ég líka séð jólaleikrit í Vesturbæjarskóla, heimasmíðað og ferlega skemmtilegt að sjá hvað margir skólar eru duglegir við þetta.


Hér eru meiri myndir



þriðjudagur, janúar 04, 2022

2021 Jólin

 Aðventan þetta árið var aðeins öðruvísi en venjulega. Jólaboðin á báðum vinnustöðum okkar voru felld niður og fá jólaboð voru haldin. Leikfimihópurinn minn hittist snemma í desember og gengum um bæinn og Hellisgerði í ljósadýrðinni þar. 


Við keyptum aftur jólatré af úr Borgarfirði, falleg stór fura keyrð beint heim til okkar. Jólaskreytingar úti urðu eitthvað litlar. Í fyrra keyptum við net á runnana fyrir utan en í sumar voru þeir fjarlægðir svo við vorum hálf ráðalaus með þetta eitthvað en vöfðum einu neti um öspina.



Á aðfangadag vorum við hjá Lilju Björgu og hennar fjölskyldu. Það er alltaf stemming að vera með litla fólkinu á jólunum. Kristófer opnaði reyndar bara einn pakka með gröfum frá afa sínum og var svo alsæll með þær að ákveðið var að vera ekkert að raska því og geyma aðra pakka þangað til síðar. Við borðuðum rækjukokteil og hamborgarahrygg og áttum góða stund.




Á jóladag átti allt liðið okkar að koma í heimsókn eins og venjulega en Lilja fékk þær fréttir að hún hefði verið útsett fyrir covid og væri í einangrun til 26. þá færi hún í covid próf. Við vorum langt komin með matarundirbúininginn, en kalkúnninn var í pækli og annað var bara pakkað saman og sett út á pall í kuldann þar.  Þá áttum við bara rólegheitadag, suðum hangikjötið okkar og spiluðum.



Lilja hringdi svo seinni partinn á annan í jólum búin að fá neikvætt svar.  Þá hringdum við í alla, og þau komust öll með engum fyrirvara svo fuglinn flaug í ofninn og annað sett á fullt. 

Næsta dag var ég orðin kvefuð og það bara ágerðist svo milli hátíða var ég mest að snýta mér og sofa.

Ég lét mig hafa það að fara í Öndverðarnesið í fínt hús sem við höfðum leigt og vorum á gamlárskvöldi og nýársdag með Möggu afmælisbarni og Gerði og þeirra fólki.  Við spiluðum mikið og vorum með partý úti á palli í blíðskaparveðri. Skemmtileg tilbreyting og góð hugmynd að vera í sveitinni um áramót.

Hér er úrval af myndum.


Annáll 2021

 Þegar maður hugsar til baka til þessa árs er eiginlega hinn blessaði corona vírus faraldur það fyrsta sem maður man eftir. En líklega á ársins mest að verða minnst sem ársins sem pabbi kvaddi, tvö frábær brúðkaup og upphaf lágkolvetnalífstílsins.

En ef ég reyni að fara skipulega í gegnum þetta þá 

Janúar 

- þá fór ég í Rjóðrið með Möggu, Ínu og Gerði.

Febrúar

- fór með strákunum og Dagbjörtu í keilu

- Kardimommubærinn með fimm barnabörn og Viktor og Guðmundur í gistingu

- í indverskan mat og spil til Möggu og Ínu


Mars- skrifaði hellingu um hann hér því við fórum vestur, mokuðum í gróðurkassa, keyptum húsgögn á pallinn og fleira skemmtilegt

Apríl

- Páskarnir voru skemmtilegir, við fengum krakkana til okkar í tveim hollum vegna sóttvarna, svo það var keyrður tvisvar mikill ratleikur um allt hús og voru mínir strákar nokkuð einbeittir í því að leysa þrautir, en hinum fannst þetta helst til langt en fundu eggin samt.






- Hótel Hella með Möggu og Ínu


Svo kom Guðmundur og gisti og ég fór í stutta vinnuferð á Hrafnagil.

Eldgosið er auðvitað líka eftirminnilegt, við vorum með matargesti, Huldu frænku Gunnars og kærasta hennar hann Birgi sem er flugmaður og hann fór fljótlega að fá skilaboð svo við kveiktum um leið á sjónvarpinu og sáum fréttirnar. Í næstu ferðum suðreftir var gaman að sjá þetta náttúrufyrirbæri og ósjaldan rúntuðum við niður að golfvelli til að horfa yfir.


Apríl bar líka með sér sorg en Sigurlaug Ragnarsdóttir vinkona okkar og eiginkona Harðar lést 23. apríl eftir langvarandi baráttu við krabbamein. Við höfum flakkað með þeim um allan heim og landið vítt og breitt og hennar verður sárt saknað. Hér erum við 2015 í einhverjum bíltúrnum.


Maí

Þá dó ískápurinn í bílskúrnum og Gunnar hélt það nú að við gætum verið án þess, en breytti fljótt um tón þegar honum var bent á það að við þyrftum almennilegan frysti til að geyma aflan af Heiðari, svo við festum kaup á frystikistu.


Við buðum Guðmundi og Einari Inga á sinfóníutónleika að hlusta á tónlistina úr Kardimommubænum.



Matarboð hjá Gerði og Jóni sem endaði í miklu partíi, man ekki að það hafi verið neitt tilefni en gaman var það.


Við Ásta Júlía fórum á golfnámskeið í Þorlákshöfn og fengum eiginlega bara einkakennslu. Það varð reyndar ekki mikið um golf meira þar sem önnur verkefni tóku við.


Rétt fyrir uppstigningadag fengum við að vita að pabbi væri með krabbamein og þann dag kom hann til mín í mat, ég vissi ekki þá að það yrði í síðasta skiptið. Hann og Þórunn höfðu líka komið til mín í svið í lok apríl og síðan hef ég boðið henni stundum til mín.

Júní

Þetta sumarið fórum við í fjórar gönguferðir með Oddfellow, um Straumsvík, um Elliðaárdagl, um Búrfellsgjá sem er rétt uppaf Heiðmörk og svo í lok sumars um Hólavallakirkjugarð.

Í byrjun júní fórum við til Vestmannaeyja, það var sjómannadagur og mikið um að vera. Gunnar linnti heldur ekki látunum fyrr en ég hafði samband við Helgu og Arnór og við áttum með þeim skemmtilegt kvöld.  Hér er mynd af mér við mynd af Gyðu Arnórsdóttur, ömmusystur minni mömmu Arnórs, en hún lést í 26. janúar en var fædd 25. maí 1922.



Við keyrðum um og reyndum að skoða eitthvað í rigningu og þoku en Gunnar þarf greinilega að elta mig í næstu vinnuferð þangað til að sjá náttúruna almennilega.




Gleðin í júní var að fara í giftingu vina okkar. Ásta Júlía og Ágúst Magni giftu sig 19. júní í kirkju og veislan var á Miðhrauni.  Gestirnir voru eins og kálfar að vori að sleppa út og það var mikil gleði. Nýju hjónin voru alsæl og rauð í bak og fyrir. Ég söng fyrir þau í athöfninni Grow old along with me eftir John Lennon.  Sjá meiri myndir hér



Þessir stubbar áttu með okkur góða dag, fórum í sund, á Kentucky og horfðum á Hrafnhildi leika leikrit í Hellisgerði.

Júli

Um júlí má lesa í bloggfærslum, fyrst um ferðina austur á djúpavog og um útför pabba og síðast um samveru með systkinum mínum í kringum hana og tyrfingu á garðinum.



Áfram héldu systurnar gleði og sorg að tala saman, því viku eftir útför pabba giftu Magga og Ína sig við Nauthólsvík. Yndisleg athöfn undir berum himni og heljar partý á veitingastaðnum. Ég klikkaði eitthvað á myndatökunum svo ég hef stolið myndum frá öðrum af þeim  og líka af okkur Gunnari að flytja Brendu Lee lagið If I didn´t care.

Geggjaður dagur í alla staði.



Gleðin yfir lífinu hélt áfram því Viktoría Amaka sem varð 1 árs 2. júlí var skírð 24. júlí úti á palli hjá okkur af Séra Arnóri, þeim sama og jarðaði Pabba. Góður dagur með grillborgurum og sprækri dömu sem skildi ekkert hvað þessi maður var að sulla á hana vatni og sofnaði svo þreytt hjá ömmu sinni.



Við enduðum svo júlí með því að bera á pallinn og grilla með Kristínu og Ingvari.


Ágúst

Var eitthvað rólegur, enda Covid og leiðindi. Við fórum í Rjóðrið með Möggu, Gerði og co og höfðum það dásamlegt að venju.  Gunnar fór þrjá daga norðu í veiði með Tuma, Ingvari og fleiri gæjum.

September

Í byrjun september vorum við aftur í öndverðarnesinu en að þessu sinni með Iðunni og Stebba, spiluðum golf á rennblautum vellinum við Úlfljótsvatn og sungum karaóke fram á rauða nótt. Þá vissum við ekki að það yrði síðasta heimsóknin í Bjarmaland því þau hjónakornin seldu bústaðin í árslok, en fyrr á árinu höfðu þau flutt úr Hafnarfirðinum í Lund í Kópavogi og hyggjast nú á meiri ferðalög á erlenda grund.



Haustið

Þrátt fyrir covid tókst okkur samt að gera helling á haustinu:

- fara á Fjörukránna þegar Viktor átti afmæli

-heimsækja Hörpu með Svövu Tönju og hlusta á níundu sinfóníu Bethovens og á óperuna að sjá La Traviata.

- kosningavaka með Möggu og Ínu

- 9. okt Stuðmenn og Kopar með systrum mínum.

- afmælishátíð HÍ og ég stalst aðeins á pöbbarölt.

- geggjað Halloween búningaafmæli hjá Guðmundi Pálma

- annað geggjað matarboð hjá Gerði og við gistum á hótel Keflavík

Óvissusaumó hjá Möggu með sjósundi og ég fór líka í sjóinn með hóp frá HÍ svo settum við Magga það okkur að fara alltaf á fimmtudögum og náðum nokkrum góðum ferðum áður en annir urðu of miklar.


Í allri þessari upptalningu er nokkur matarboð með góðum vinum ótalin, en við hittum amk. Kristján og Rhonu, Daða og Dísu, Ástu Júlíu og Ágúst, Kolbrúnu, Berglindi og þeirra karla. Líklega gleymi ég einhverju en vonandi er það skráð í myndum en voru allt góðar stundir með mat, vín, spjall og stundum spil.

Barnabörnin

Gunnar fór með öll eldri börnin í menningar- og skemmtireisu á árinu: Með Hrafnhildi í Listasafn Íslands í janúar, með Baltasar í axarkast og nokkrum sinnum í sund. Við fórum með Gabríel á Selfoss, í Draugasafnið og að skoða strandaðan hval við Þorlákshöfn.  Litlu stubbarnir heimsóttu okkur öll oft og má sjá þau í myndasafni ársins í pottinum, tölvuleikjum, göngutúrum, rólóum og við eldhúsborðið. 

Hér má lesa og hlusta hvernig kórastarfið var árið 2021

Af krökkunum er meira og minna gott að frétta. Ingvar og Kristín hafa fest kaup á húsi og flytja með allan skarann sinn til Grindavíkur í ársbyrjun. 

Lilja er farin að vinna á tannréttingastofu, krílin í leikskóla og eru hress og kát og Daníel vinnur og vinnur hjá Aðföngum. 

Bergþóra Sól kynntist honum Birki sínum og við sáum lítið til hennar um miðbik ársins en hann bjó þá í Njarðvík. Hún kláraði B.S. gráðuna sína í hagfræði og útskrifaðist í haust og hélt fína veislu. Hún byrjaði aftur að vinna hjá Skeljungi í vor og er þar enn. Eftir að hún skilaði ritgerð fóru þau til Spánar og fluttu svo saman á Hlíðarenda svo nú erum við tvö í kotinu.

Pétur er hjá Héðni og spilar tölvuleiki í gríð og erg og stundum Dungeons and dragons. Jón og Dagbjört eru í Innri Njarðvík, hún í sinni umönnunarvinnu og hann puðar í háskólabrú Keilis og er langt kominn með hana.

Við erum heppin með þennan skara allan, þau koma og aðstoða okkur við viðhaldið og garðinn og að öðrum ólöstuðum á Ingvar extra þakkir skyldar fyrir öll sín handtök og að gefast ekki upp á verkefnum sem við værum löngu búin að leggja árar í bát eins og að festa upp viftuljós í svefnherberginu.


Annars leit árið mest svona út, ég í bláaherberginu að kenna, vinna og funda. Í vinnunni hjá Gunnari standa yfir breytingar og þau hafa töluvert mætt uppá Stórhöfða. Okkur heilsast báðum vel. Í ársbyrjun ákváðum við að fara á kolvetnasnautt fæði og höfum losað okkur við tugi kílóa. Gunnar fær bara góðar skoðanir hjá hjartalækninum. Ég fékk lyf við háþrýsting og losaði mig við sykur í blóði.

Ég ætla líka að setja það hér til minnis að þetta er árið sem ég ætlaði að losna við gleraugun. Ég fór í ótal mælingar og til tárahjúkrunarfræðings vegna slæmrar tárafilmu. Ég hitaði og nuddaði augun í mánuð til að vinna bug á því en þegar upp var staðið var ég  hvorki kandidat í leiser né augnsteinaskipti. Jú þeir gátu gert það en með 80% líkum á að ég þyrfti áfram lesgleraugum neð lélega tárafilmu og síbreytilega sjónskekkju.  Svo spurði Berglind mig hvort ég gæti ekki fengið linsur, og jú það var hægt og nú er ég búin að vera með slíkar í mánuð, annað augað með lesstyrk og hitt með frá mér styrk og gengur bara vel. Rendurnar inná augnlokunum eru fitukirtlar sem gera tárafilmuna.


 Nú þegar ég er búin að skrifa þetta allt er ég búin að skipta um skoðun, þetta var frábært ár með mörgum gleðilegum viðburðum með þeim erfiðu.  Við Gunnar þökkum alla þessa gæfu og horfum bjartsýn til komandi árs.