fimmtudagur, apríl 01, 2021

2021 Mars

 Mér finnst ástæða til að skrifa blogg um þennan mánuð, nú er ár síðan Covid byrjaði, ég er meira og minna búin að vinna heima í heild ár, fyrir utan smá tíma í sumar og Gunnar í sumar og fyrri hluta þessa árs.

En að skemmtilegri hlutum þá langaði mig mest að segja frá því að við fórum í Stykkishólm í 6 daga og gerðum alls konar skemmtilegt. Viktor Darri var með okkur fyrstu fjóra dagana spiluðum mikið slönguspil, teiknuðum, horfðum á teiknimyndir. Ég vann aðeins en þeir félagarnir skoðuðu Stykkishólm ,verslanir bæjarins og strandaðan Baldur. Veðrið var leiðinlegt, hávaða rok og leiðindi, þannig að við Viktor ætluðum í sund en hann missti móðinn í sturtuklefanum, líklega þegar kona í sturtunni talaði mikið um rok og kulda þarna úti.

Daði og Dísa komu svo á föstudeginum, við borðuðum góðan mat, allt keto að þessu sinni, fórum í góðan göngutúr með heimsóknum í keramikverkstæði. Ásta Júlía og Ágúst komu svo þegar aðein leið á daginn, Ágúst ólst upp í plássinu og fóru með okkur í bíltúr með leiðsögn og sögum áður en við elduðum nautalund með bernais og kjöftuðum langt fram á nótt.



Á sunnudeginum keyrðum við fyrir nesið í dásamlegu veðir og skyggni með viðkomu í kaffi hjá Helgu á Arnarstapa og kvöldmat í Food station í Borgarnesi.




Annað skemmtilegt í mánuðinum var að horfa á Hrafnihildi í sýningunni Unglingar, mikið fjör og skemmtileg sýning. 

Við keyptum húsgögn á pallinn í Rúmfatalagernum. Jón og Ingvar settu þau saman. Stóru strákarnir komu með og hreinsuðu laufin af þaki nágrannans og aðstoðuðu við samsetninguna.  Ingvar kom næsta dag
og við fylltum gróðurkassana af mold svo nú eru þeir tilbúnir fyrir plönturnar.




Við fórum í mat til Kristjáns og Rhonu sem eru búin að vera hér síðan um jól vegna Covid-19.  Hulda, Birgir og Vigdís voru í mat hjá okkur þegar eldgosið í Geldingadal byrjaði. Ég fór í saumaklúbb til Erlu í nýja húsið þeirra. Síðast en ekki síst komu pabbi og Þórunn til okkar í svið en myndavélin fór ekkert upp í þessum boðum því miður.


 Annars eru allir hraustir, Kristófer og Viktoría fengu RS vírus en eru orðin hressari og kíktu í pottinn en engar myndir voru teknar. Kór Víðistaðakirkju var byrjaður að æfa og búinn að syngja eina fermingu og tvær messur en svo var öllu skellt í lás þann 25. þegar strangari reglur voru settar og meðal annars öllum skólum lokað til 15. apríl.  Bergþóra er að skrifa BS ritgerðina og klára síðustu námskeiðin og Jón hamast í háskólabrú.