sunnudagur, nóvember 30, 2008

Meistaramót UMSK í sundi
Meistaramót UMSK í sundi verður haldið í Sundlaug Kópavogs nú um helgina. Mótið stendur yfir bæði laugardag og sunnudag og hefst keppni báða dagana kl. 9:30. Tæplega hundrað keppendur hafa skráð sig til leiks.


Bergþóra Sól tók þátt í þessu móti um helgina og stóð sig feykivel, varð m.a. í 6. sæti bæði í 50 m. bringusundi og 100 m. bringusundi, stelpurnar sem voru á betri tíma en hún voru allar 11 og 12 ára, þannig að þetta var flottur árangur hjá henni. Að auki keppti hún í skriðsund, bak og boðsundi. Úrslitin úr sundunum er hér og hér
Helgin hjá okkur skötuhjúunum fór hinsvegar í jóla-innkaup og tókst okkur nánast að klára verkefnið, þannig að það er frá og er það vel. Hlökkum bæði heilmikið til að koma heim um jólin.
Kv
Gunnar Halldór

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Glöð að hafa tekið þátt í Olweus verkefninu, hvers vegna ? Fullt af reynslu í vinnslu með stór talnasöfn, kannski ekki flókin greining en nóg til að koma að gagni við að skilja hvernig svona stórar kannanir virka. Annars átti ég fund með leiðbeinendunum í gær og þau rifu í sig uppkastið að spurningalistanum mínum svo enn slatti eftir af því verkefni.

Held ég þurfi líka að segja hvað ég er ótrúlega heppin, ég er alveg orðin fordekruð, er keyrð í skólann, svo er verslað fyrir mig og eldað og ég þarf bara að halda mér að verki við námið. Lucky me :) Takk, takk, takk, takk, takk Gunnar minn :)

sunnudagur, nóvember 23, 2008



Tónleikar og dutyful husbands!



Tónleikarnir með LCM kórnum voru í gær, ég hef nú farið betur undirbúin á tónleika an hafði samt gaman af þessu. Það voru nú ekki margir áheyrendur og greinilega fullt af mönnum að rækja eiginmannsskyldurnar að mæta, Gunnar greyið sagði að þetta hefðu verið með leiðinlegri tónleikum sem hann hefur farið á dóninn! Ok kannski pínu satt, fyrir utan kórstykkin sem mér líkar allavega vel þó þau séu fáheyrð, þá var heilmikill orgelleikur sem er nú ekki fyrir alla svona einn og sér Gunnar sagði að ein konan í kórnum hefði dottað undir honum, svo flutti tenórinn sem söng í St Cecilia með okkur nokkur einsöngslög og ekki svo skemmtilega. Mér fannst reyndar frábærir strákar sem sungu í Purcell stykkinu, tveir alt og alveg einstaklega fínn bassi .

laugardagur, nóvember 22, 2008

Ég var að hafa áhyggjur af því að ég væri ekki að læra nóg aðferðarfræði í fyrravetur, en ég get steinhætt því, hugsa ekki um annað þessa dagana, hef gefið aðalefninu smá frí og er núna að einbeita mér að tveimur ritgerðum sem á að skila í janúar, vil vera komin vel á veg með þær áður en ég fer til Íslands. Svo bætti ég við mig að mæta í tíma í öðrum áfanga sem er um meðferð og greiningu gagna, það var sko rétt ákvörðun þó það væri ekki nema vegna þess að í tímanum eru bara doktorsnemar sem flestir eru búinir með sína gagnasöfnun og sum eru það sem ég myndi kalla "scarily smart" og maður lærir eiginlega meira af þeim en kennaranum. Erum líka að læra á hugbúnað til gagnagreiningar.

Gunnar Halldór er orðinn norskur, allavega fór hann í klippingu í gær og sagði rakaranum að hann væri norskur, nennti hreinlega ekki að fara í gegnum alla umræðuna um kreppu og læti.

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Computer says NO
Eins og flest ykkar vitið þá fljúgum við ávalt heim í gegnum Manchester því það er ekki nema klukkutími frá Leeds á flugvöllinn. Þá kemur eingöngu eitt flugfélag til greina sem flýgur þangað á mánudögum og föstudögum, JÁ rétt hjá ykkur, þaaaaað er Icelandair / FlugLEIÐIR.
Svava keypti sinn miða í ágúst en ég fyrir nokkrum vikum. Áætlun Svövu er 12 desember til Íslands og 12 janúar til Englands aftur (hún þarf að vinna á Íslandi vegna doktorsritgerðarinnar), en áætlun mín er 22 des. til Íslands og 5 janúar aftur út. Núnú við fáum boð um að hringja á skrifstofu Icelandair í ákveðna konu (segjum Anna) þar vegna þess að búið væri að fella niður flugið þann 12 desember. Þannig að ég hringdi í gær og “fékk” að hlusta á tónlist í rúman hálftíma og bað síðan um að “Anna” hringdi í mig, vegna þess að mér var sagt að hún væir upptekin. Núnú ekkert gerðis þann daginn, nema hvað að ég gaf aftur upp símanúmerið mitt eftir hina “lögbundnu tónlistarhlustun”. Í dag var ég orðinn svolítið fúll vegna þessa og hringdi aftur og fékk “eyrnanauðgun” og síðan samband við starfsmann sem sagði mér að Anna kæmi klukkan 1100 OG þá kæmi hún til með að hringja, eftir hádegi var ég orðinn mikið fúll ;( og hringdi og fékk “minn skammt” í eyrað og síðan manneskju sem sagðist ætla að hringja STRAX í mig, en eftir smá bið og enginn hringdi (tékkaði t.d. hvort það væri ekki hægt að hringja í símann minn) þá hringdi ég í “tónlistarstöðina” og fékk síðan að tala við starfsmann sem var starfi sínu vaxinn (það sauð á karli). Svövu miða var breytt þannig að hún kemur til með að fljúga í gegnum London 13 des. (það er líka búið að fella niður flugið þann 15 des) og verður hún því að greiða fyrir lestarferð til London, því mér var tjáð að Flugleiðir greiddu EKKI. Ég spurðist þá fyrir hvort ég gæti breytt mínum miða frá 22 des í 19 des, “JÚjú það er hægt, en það kostar 65 þúsund”, breytingargjald og svona gjald og svona gjald. Ég RÆDDI það við hana hvort það væri nú ekki óréttlátt, að þegar ÞEIR fella niður flug og við verðum fyrir kostnaði, töfum og leiðindum þá greiða ÞEIR ekkert en þegar við biðjum um smá leiðréttingu í sambandi við þetta þá eigum VIÐ að greiða helling. Hún sagðist ekkert geta gert neitt því að svona væru “reglurnar”, ég sagði nú vita allt um það að þetta væri ekki spurning að tölvan segði NEI, heldur að einhver ábyrgur aðili kæmist að sanngjarni niðurstöðu.
Það fór hellings tími hjá henni í þetta, nokkur símtöl í mig og aðra, og hringdi siðan í mig og sagði hróðug að ég gæti fengi þessa breytingu fyrir 26 þús. (hmm tölvan búin að skipta um skoðun), ég þakkaði pent fyrir og sagðist eingöngu vera tilbúinn að borga breytingargjald (10 þús), þannig að ekkert varð úr þessu og ég kvaddi hana með þeim orðum að ég vonaðist að Hannes Smárason fengi áfram gjaldfrjálsa farmiða með Icelandair, hann ætti það svo sannarlega skilið.
Kveðja
Gunnar Halldór

PS
Þetta vídeó er gott áður en maður ræðir við starfsfólk tónlistar-flugfélagsins;

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Svava álfur kálfur og klaufabárður

Við leigðum um helgina sendiferðabíl og fluttum dótið hennar Höllu til Immingham í skip, ég keyrði þar sem allir reikingar eru á mínu nafni og sanna þarf heimilisfang til að leigja bíl eins og annað. Það gekk ljómandi vel og ég var farin að hugleiða sendibílakstur sem annan starfsvettvang, en á leiðinni að skila bílnum villtist ég gleymdi að taka díselolíu og svo loks þegar ég var kominn í hlaðið á leigunni hætti ég að vanda mig og keyrði á vegrið við bensíndælurnar og reif úr brettinu lófastórt stykki, nokkur hundruð pund í vaskinn arrrrggggggg........... ætla bara að halda áfram að vera menntakona.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Þetta er fyndið; COUNCILS INVESTED £1BN IN TINY VOLCANO SURROUNDED BY FISH
"I suppose the haddock-shaped piece of lava with every new account was probably a clue."

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Kofinn kyntur
Jæja í dag var fyrsti dagurinn sem við kyntum hjá okkur allan daginn, en við höfum samt áfram slökkt á henni á nóttunni, eins og alvöru Bretar. Ég man nú ekki hvenær við byrjuðum að kynda húsið á Stanmore Grove, en svona í minningunni var það miklu fyrr.

laugardagur, nóvember 08, 2008

A hugely busy day



Þetta er búið að vera annasamur dagur eða þannig, venjulega er rútínan bara fara í skólann, fara heim búið.

Í dag fórum við fyrst til Höllu Kolbeins, fullorðin kona sem býr í Normanton rétt hjá Leeds, við komust í tengsl við hana þegar ættingjar hennar spurðu Huldu systir í vinnunni hjá Samskip, hvar þau gætu fengið aðstoð fyrir hana til að flytja til Íslands, Hulda spurði mig og ég vissi ekki um neitt fyrirtæki en vissi um Gunnar, svo hann er búinn að vera að fara til hennar og pakka öllu niður, og í dag fórum við að þrífa. Hún er búin að vera hér í áraraðir gift breta sem féll frá núna í sumar svo hún vill flytja aftur til Íslands. Svo á föstudag keyrum við hana í flug og dótið hennar í skip.


Eftir þrifin fórum við að sjá Bond í bíó, með Suman, Manvir og Sandhyu, mér fannst þessi nú skárri en síðasta, kannski því ég passaði mig að vera ekki með neinar væntingar, það vantar samt heilmikið upp á að þessi nýji sé eins og alvöru Bond með húmor og alvöru kvennafar, þessi er alltof alvarlegur og skítugur.

Eftir bíó kíktum við á Starbucks, svo kíktum við uppí háskóla þar sem vinkona okkar var búin að bjóða okkur á celebration of Mexican death day, en hann er mikið mál í Mexíkó, bæði minnst þeirra sem eru farinir og gert grín að dauðanum því eftir því sem Myriam segir eru þeir skíthræddir við að deyja. Meiri myndir hér .

föstudagur, nóvember 07, 2008

Vorum að koma úr sundi syntum samtals 2000 m, heheh þe. 1000 m hvort, ég er nú greinilega meiri fiskur en Gunnar, hann var ekki á því að synda svona mikið, en þegar við erum úti að ganga þá er það hann sem dregur mig áfram sérstaklega ef það er upp brekkur, en í lauginni flýt ég nátturulega eins og korktappi verst ef bossinn stendur uppúr og hausinn fer í kaf !!
já það kostaði 6 pund fyrir okkur í sund eða 1200 kr! og engi heitir pottar.
Bættum það svo upp með hálfskrýtnu ´take away´ kjúklingabitar, salat, franskar og þrælsterk chillisósa allt í einni hrúgu.
Þetta er þó ljós í myrkrinu.
Þrátt fyrir að krónan sé ónýt og hlutabréfin hrunin þá er von.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Bonfire Night

Við fórum í uppáhalds garðinn okkar (Roundhay park) í gærkvöldi með Sunday eins og sænska vinkonan hennar Svövu kallar hana en hún heitir Sandhya. Við fórum ásamt miklum fjölda til að horfa á brennu og flugelda og síðan var þarna svið þar sem var hljómsveit og kynnir sem reyndi að koma lýðnum í stuð. Kvöldið í garðinum varð mjög fyndið því allt varð svo mislukkað. Ég tók með mér "Kreppu" (nýja fína myndavélin mín sem var keypt rétt fyrir hrunið á Íslandi), því auðvitað ætlaði ég að taka flottar myndir af öllum flugeldunum, Sandhya var ekki með myndavél og var ánægð á fá bara myndir frá okkur. Þegar við komum í garðinn kom í ljós að "Kreppa" var rafmagnslaus :( , en Svava sagði það væri nú í lægi því hún væri með myndavél (vél sem hún erfði þegar ég fékk "Kreppu")............en þegar á reyndi var hún líka rafmagnslaus :( úfffffff Svava vildi meina að þetta væri allt mér að kenna því hún hafði beðið mig um að hlaða vélina.........já kannski........ég man það óljóst að hún hafi beðið mig um það........þannig að ég tók það að mér að vera The GUILTY ONE. Þannig að við ætluðum bara að horfa á flugeldana og njóta kvöldsins. Kynnirinn reyndi og reyndi að koma lýðnum í stuð með því að fá alla til að "verða háværasti hópurinn í Bretlandi" en það var sama hvað hann reyndi þá heyrðist nánast ekkert í lýðnum,,,,,,,,,,,þannig að ég var farinn að vorkenna strákgreyinu........að lokum gafst hann upp........og það síðasta sem heyrðist til hans var þegar hann og örfáir aðrir töldu niður.........tíu,níu,átta,sjö,,,,,,,,,,,og þá var kveikt í brennunni sem var búin til úr brettum sem brunnu mjög hratt. Síðan var talið niður aftur fyrir flugeldana en þeir sáust varla vegna reykský sem var yfir öllu svæðinu, þannig að þarna brunnu upp flugeldar fyrir fleiri þúsund pund í boði Leeds City Council engum til yndisauka. Þarna voru semsagt tugir þúsunda manns í reykskýi. Ég var mest hissa á því hvað allir tóku þessu létt, þrátt fyrir hálf mislukkað Bonfire kvöld.
Kv
Gunnar Halldór

sunnudagur, nóvember 02, 2008

Hermitarnir



Eitthvað hlýt ég að geta sagt í fréttum , en varla þó, við erum að verða óttalegir "hermitar" hittum fáa nema hvort annað, í vinnuherberginu mínu eru 10 skrifborð en flesta daga erum við bara tvö þar ég og Charles sem er frá Kenya og með einbeittustu mönnum sem ég hef séð. Svo koma hinir í smá stund vinna smá og prenta og hitta kennarnana og biðja, já biðja, einn daginn sá ég bara í bossann á stöllu minni þarna og hélt fyrst að hún hefði misst eitthvað undir borð en við nánari athugun var konugreyið bara að biðja.
Við erum farin að kynda erum samt þrælnísk við það, en hér er búið að vera óvenjukalt.
kv. Svava