mánudagur, desember 26, 2016

Fimmtugsárið 2016

Árið 2016 var óneitanlega viðburðaríkt og á margan hátt skemmtilegt.  Þess verður samt aðallega minnst fyrir tvennt, sem mikils ferðaárs og árið sem Viktor Darri fæddist.
Barnabörnin eru semsagt orðin þrjú,  Gabríel Veigar 8 ára sem fer í leiðangra með afa og veiðir Pókémona með ömmu, Guðmundur Pálmi 2 ára sem rannsakar heiminn og syngur og svo sá nýjasti, Viktor Darri Ragnarsson, sonur Kristínar Hrannar sem fæddist 29. september og er svo rólegur og flottur.
xx





Á árinu tókst mér  að fara x sinnum til útlanda þetta ár og halda uppá fimmtugsafmælið mitt með fjölbreyttum hætti.
Ég byrjaði árið með því að skella mér í flug, hafði sníkt mér áramótapartý hjá Gerði svo það var stutt að fara. Ferðinni var heitið í heimsókn hjá Huldu systir í Grimsby á leið á ASE ráðstefnu í Birmingham.  Í Grimsby hitti ég Theodor Isac, alveg nýfæddan, fyrsta barnabarn Les og Huldu, sonur Jessicu og Matt þess pólska svo Theodor hefur mjög alþjóðlegar tengingar í lífinu :) Það er alltaf jafn gott að heimsækja Huldu og dekrað vvið mann á allan hátt og skundað í búðir, aðallega í skókaup.
ASE er ráðstefna samtaka náttúrufræðikennara í Englandi og ég fór þangað með hópi íslenskra kennara. Birmingham er fín svona þegar maður er kominn inní miðborgina, eða svona eins og enskar borgir geta verið á dimmum hráslagalegum janúardögum.  Myndir hér
Í febrúar varð ég svo fimmtug en ákvað að hafa ekki mikið fyrir því þar sem því yrði ærilega fagnað með ferðalögum. Bergþóra hafið flutt til okkar um áramótin og hún varð 18 ára, til að fagna því drifum við okkur í Bláfjöll með smá krókaleið og festa bílinn, en það hafðist og var ótrúlega skemmtilegt. 



Í febrúar tók ég líka á móti samstarfsfólki í norrænu verkefni DILE um spjaldtölvur á leikskólum, við funduðum, heimsóttum leikskóla og svo bauð ég öllum heim í fisk frá Fylgifiskum, mæli með því. Í tengslum við það verkefni fórum við svo á fund í Svíþjóð þar sem þessi mynd er tekin af íslenska hópnum. 
Einnig einkenndist vorönnin mikið af Biophilia menntaverkefninu, þar sem ég hef kynnst mikið af skemmtilegu fólki og tekið þátt í mjög áhugaverðu verkefni.
xx
Við nafna fórum á öll undankvöld Eurovision í febrúar og svo varð hún stúdent í maí, svo dugleg þessi stelpa. 
Í mars var svo stóra ferðalagið. Gunnar hafði lengi dreymt um að fara til Kúbu og þegar við höfðum heyrt í tveimur sófagestum lýsa upplifun sinni og enda á því að segja ef þið ætlið að fara skuluð þið fara núna þá var teningunum kastað og við fórum í mikla ferð sem lýst er hér fyrr á blogginu. Það var ekki seinna vænna því í árslok lést svo Fidel Castro svo búast má við að breytingar verði enn örari á næstu árum.

Vorönnin í vinnunni var skemmtileg. Ég var með umsjón með skyldunámskeiði nám og kennsla yngri barna í grunnskólum og inngangsnámskeiði um náttúrugreinar í grunnskólum. 


Sumarið var meira en lítið viðburðarríkt. Það byrjaði eiginlega með ferðinni til Svíþjóð, en þá kom ég við í Danmörku á kránni og átti notalega dag aðallega með Anitu, á meðan foreldrarnir unnu og unnu.  Við skruppum líka á ströndina og að versla til Aabenraa. Bara fínt og gott stutt stopp.

Bjartur græjar fyrir okkur smörrebröd.

Nýja veröndin hjá Bjarti og Röggu.
Áður en ég fór hafði Anna frænka Gunnars, Bob hennar maður við níunda mann komið á klakann og heimsótt okkur í mat og fínirí. Þau voru svo á flakki um ísland meðan ég heimsótti Danmörk og Svíþjóð. Svo fórum við á Mýrarnar og Anna og Bob með Dóru Stínu og Georg til okkar þar sem við vorum með Daða og Dísu. Þetta voru svona skrýtnir og skemmtilegir dagar, mikið að gera og fullt af fólki en samt afslappað og notalegt með góðum mat og góðum félgsskap. Við keyrðum um, gengum og heimsóttum Önnu Kristínu og Þorvald.

Bob and his entourage.

Áfram Ísland - Dóra Stína á Vog á Mýrum.

Göngutúr á Mýrum.

Það verður líka að segja frá því að EM í fótbolta stóð yfir þessa daga og þjóðin og Gunnar fylgdust með af áhuga og innlifun eins og þessar myndir sýna, þó ég geti ekki haft það eftir sem Dóra Stína hafði um Uncle Gunnar að segja þegar sem mest gekk á. 
    

Júlí var Íslandsmánuður, þá fórum við systur með okkar lið á Laugarvatn í Elliðavallarleika, grill, söng og gaman í miklu flugnageri. Gaman að fylgjast með því hvað dynamikin breytist eftir því sem krakkarnir okkar eldast og þau fara að vaka lengur en foreldrarnir, en eru samt bara krakkaormar sem finns tgott að láta mömmu sjá um matinnn, en við ætlum að breyta því í næstu ferð.


Grímsnesið eða réttara sagt Öndverðanesið er að verða annað heimili hjá hálfri fjölskyldunni því Magga og Ína keyptu sér bústað bara 7 mínútna göngu frá Iðunni og Stebba, við heimsóttum báða staði og finnst frábært að fá að koma í heimsóknir í þessi fínu kot og eyða góðri helgi.

Magga matbýr í nýja kotinu.
Garðræktin var eitthvað skrýtin þetta sumar, sumarið var þurrt og heitt og við mikið á flakkinu svo kartöflur fóru seint niður og voru sjaldan vökvaðar svo uppskera á þeim var mjög dræm. Rifs og jarðaver sjá meira um sig sjálf og góð uppskera þar. Beðin eru varðandi í illgresi og gullregnið klofnaði og dó í fyrstu haustlægðinni, enda margstofna og með þunga krónu. þess verður sárt saknað þrátt fyirr að það hafi birt í stofunni.

Í ágúst var svo önnur stórferð ársins þegar við fórum við Samkór Kópavogs í 50 ára afmælisferð kórsins til Kanada og USA.  Þetta var heilmikil ferð, en ég virðist ekki hafa skrifað ferðasögu af einhverjum ástæðum, kannski því dagskráin var vel skráð fyrirfram, eða kannski því við vorum alltaf á fleygiferð í rútum og að syngja. Myndir hér



Ragga og Bjartur komu í stutta heimsókn í sumarlok og við skelltum okkur á Sushi Samba með IÐunni og Stebba á afmælisdaginn hennar.  Anita var hér aftur á móti í allt sumar og var í starfsnámi á Hótel Keflavík og bjó hjá Gerði, það var mikið gaman að kynnast henni almenniglega og sjá oftar.

Á ljósanótt hefur skapast sú hefði að 50 ára árgangurinn hittist og er kannski með eins derhúfur og blöðrur i árgangagöngunni. Minn árgangur hefur verið frekar ofvirkur í að hittast á fimm ára fresti og alltaf mikið stuð. Að þessu sinni tóku höndum saman allir hóparnir úr nágranna sveitafélögunum saman og höfðu heilmikið skrall á Mánagrund á föstudagskvöldinu og svo var búið að græja einkennisklæðnað á liðið til að skarta í árgangagöngunni. Þetta varð frábær helgi og mikið fjör með þessum appelísinugula hóp.




Ein ferð enn var í september með vinnufélögum Gunnars til Wiesbaden, frábær ferð í alla staði þar sem við heimsóttum vínekrur, sigldum hlógum, dönsuðum, fórum í spilavíti fengum góðan mat. Meiri myndir hér, og ferðalýsing sem stóðst nokkrun veginn hér.
  

Í árslok var síðasta ferð ársins, þá til Dublin með níu fimmtugum dömum, sem allar höfðu verið saman í bekk í baranaskóla.  Um þá ferð má lesa hér.  og sjá myndir hér.

Hér er ekki allt talið og vantar afmæli, árshátíðar jólahlaðborð og heimboð ýmis.
Þrátt fyrir ferðalög og fjör er nú hversdagslífið oft það besta, að fá liðið sitt í heimsókn og elda kjötsúpu í nýjum potti. Bera út blaðið í morgunkyrrðinni og hlusta á þætti af gufunni, já eða bara fuglasönginn.  Gunnar átti í hjartarórlegu aftur í sumar og í hann var settur í hann gangráður til að vinna bug á því. Svava er fín, verst hvað það er til mikið af henni og vinnuálag óhóflegt á köflum. Krakkarnir hafa það allir fint þrátt fyrir lífsins skakkaföll. Kristín og Ragnar slitu sínu sambandi en hún hefur nú skráð sig í uppeldis- og menntunarfræði. Jón og Elín búa saman, Pétur er með sínum vinum á ásbrú, Halli fluttur út, og Raggi fluttur inn. Lilja hamast í sálfræði náminu fyrir norðan og gengur vel, Bergþóra er alsæl með Sindra sinn svo við sjáum hana ekki svo dögum skiptir, hún átti frábæra haustönn í Flensborg eftir brokkgenga vorönn með bakvandamálum. Litlu mennirnir eru hressir og dafna vel. Guðmundur á Hjallaseli og Gabríel í Salaskóla og sá nýjasti er bara dásemdin ein og blæs út og brosir.

Öðru máli gegnir um aðra. Við eigum ættingja vini og samstarfsfólk sem glímir við krabbamein, Parkinson, ofnæmi, að missa börnin sín, gigt, brjósklos, geðsjúkdóma, áfengisvanda og aðra kvilla.  Lífið er ekki alltaf bara veislur og ferðalög. Sem betur fer eru það samt minningarnar sem standa uppúr. Dýrmætt eru líka stuttar heimsóknir, kíkja við og fá einn kaffibolla, vel heppnuð verkefni, vel heppnuð lyfjagjöf og meðferð þó það sé bara skammgóður vermir.  Svo við skulum halda því áfram hittast, hringja og vera saman eins og hægt er.

Jón með Guðmund Pálma tveggja ára.




Sindri og Bergþóra að spila Ticket to Ride.

Guðmundur Pálmi skoðar heiminn.

Sungið með bandi í sextugsafmæli samstarfskonu.


Tónleikar með Simply Red.


Bústaðaþrif.



Þannig endar þessi pistill frá fimmtugri frauku, við óskum ykkur öllum árs og friðar á árinu 2017.

sunnudagur, desember 04, 2016

Fimmtugar í Dublin

Fimmtudagur 2. desember.  Fimmtugar og frægar.


Hvað gerist þegar 9 fimmtugar og  flottar konur fara i helgarferð til Dublin. Auðvitað er bara hlegið og kjaftað og verslað og haft gaman.  Við gistum á vegum Gaman ferða í Dún Laoghaire https://en.wikipedia.org/wiki/D%C3%BAn_Laoghaire sem er úthverfi eða smábær rétt sunnan við miðborg Dyflinar.  Hótelið Royal Marina http://www.royalmarine.ie/  er stórt og glæsilegt, held ég hafi talið 15 kristalsljósakrónur af ýmsum stærðum og litum.  Það er voðalega notalegt að vera þarna en nokkuð gott ferðalag með lest (ca 3 eur) eða leigubíl (30-40 eur) niður í miðborg sem maður auðvitað vill heimsækja.

Fyrst á dagskrá í Dun Laoghaire var að finna hádegismat og helst að komast í smá hvítviín í leiðinni. Klukkan var rétt uppúr ellefu þegar við röltum af stað og komumst fljott að því að i þessum smábæ var það ekki einfalt mál, á pöbb sem við fundum var barinn opinn, en eldhúsið lokað, á litlu bistrói var eldhúsið opið, en vinveitingaleyfið gaf ekki leyfi til hvítvínssölu fyrr en kl. 13:00,  Hungrinu varð að sinna fyrst sem við snæddum þar.  
Næst þurfti að gera úttekt á veslunum sem gekk ágætlega,  nokkrar verslanir við aðalgötuna og lítil verslunarmiðstöð nálægt hótelinu.  Þar steðjuðum við allar upp rúllustiga á hæð sem var svo augljólega tóm að þær fyrstu voru lagðar af stað niður aftur þegar þær síðustu voru rétt lagðar af stað upp, svo ekta móment sem hefði verið gaman að eiga á myndskeiði.
Eftir að kaupa slatta af gullbolum, veskjum og kælitöskum var steðjað á næsta bar, þar fannst mér mjög þægileg að ná wifi inu frá hótelinu og hafði orð á því að við hlytum að vera nálægt því, það var samt ekki fyrir en ein fór á wc og sá að við vorum bara í hótelinu!!!!

Í þessu fína hóteli er spa og sundlaug.. Ferðanefndin hafði pantað lúxus afslöppun og spa, http://www.royalmarine.ie/en/dublin-hotel-spa/sansana-spa/ nudd fyrir okkur allar, aðgang að heitum bekkjum, vatnsrúmi, sauna, gufu, aromagufu, aroma sturtur og svo í heita pottinn og sund þannig að eftir þetta allt við vorum eins og nýjar og endurnærðar konur.

Sem var eins gott því umkvöldið fórum við á uppistand með Deirdre O‘Kane, https://en.wikipedia.org/wiki/Deirdre_O'Kane  á undan var einhver dúddi sem var skemmtilegur, en Deidre var gjörsamlega frábær, þar hjálpar eflaust til að hún gerir grín að lífi kvenna,  vera heimavinnandi, barnseignum, kynsveltum eiginmönnum, að ferðast með börn, systur sem kunna sig ekki,  hitakóf og hormónarugl sem hún segir hafa aukaverkunina MRS syndrome, sem veldur því að allt karlkyns verður aðlaðandi, að eiga í ímynduðum ástarsamböndum til að gera tilveruna bærilega, í hennar tilviki með Mark Ruffalo og nýja Late night gæjanum.  Dúddinn á undan tókst samt að vekja athygli allra gesta rækilega á okkur þegar hann spurði hvort einhverjir gestir utan Írlands væru á staðnum og komst að því að þarna væru níu íslenskar staddar að halda uppá fimmtugsafmælin sín.   Við mælum við þessu þó ekki hafi okkur öllum tekist að halda augunum opnum allan tímann enda dagurinn sem byrjaði kl. 04 orðinn langur.

Föstudagur 2. desember.  Fimmtugar og fimar

Eftir lúxus morgunverð skelltum við okkur í bæinn með lestinni. Ein kíktifyrst aftur í heita pottinn. Á stöðinni gekk hjá maður sem spurði “Eruð þið frá Íslandi?”,  “já” “eruð þið allar fimmtugar !” - glott- sko við vorum orðnar frægar í Dún Laoghairie.  

Við vorum alveg á siðusttu stundu að ná í gönguferð sem við höfðum bókað, af einhverjum ástæðum þvældumst við með í ranga ferð, sem uppgötvaðist þó fljótt og við steðjuðum af stað og náðum þeirri réttu. Sú gekk með okkur um Henry Street, yfir Millenium brúna í Temple Bar, að Trinity College, að Olympia leikhúsinu, og City hall.  Við fræddumst um sögu íra og dálæti þeirra á Bono, sem við höfðum reyndar lika heyrt töluvert um daginn áður.

Eftir þetta gegnum við til baka meðfram ánni Liffey og að veitingastanum The Church http://www.thechurch.ie/ í hádegisverð, mælum með því líka og gönguferðinni. Veitingastaðurinn er í gamalli kirkju, orgelið enn á sínum stað, mikið af dökkum við, svalir um kring og nóg pláss í kjallaranum.
Næst tók við búðarráp, m.a. voru keypt í ferðinni 12 skopör, slatti af barnafötum og leikföng. Auk þess að auka við safnið af gull og silfur klæðnaði.  Svo var dinner á The Church, mikið gaman, allir fengur jólasveinahúfur, knöll, fullt af hvítvíni, stórar steikur og dásamlegt creme brullee. Svo leigari til baka í herbergjapartý og fimi athuganir.


Laugardagur 3. Desember. Fimmtugar og flottar

Tvær vöknuðu sprækar og skelltu sér í nokkrar ferðir í lauginni og heita pottinn. Þetta var rólegheitamorgunn og meira að segja prjónaðar nokkrar lykkjur. Næst var það lestin í bæinn til að fara í brunch og búðarráp.  Veitingastaðurinn Bow Lane, var smá labb frá stöðinni og okkur til mikillar mæðu fór að rigna, því mátti redda í apóteki á leiðinni þar sem fjárfest var í regnhlífum, jólaskrauti, snýrtivörum og afgreiðsludömurnar voru svo ánægðar með heimsóknina að við vorum leystar út með ilmvatnsprufum. Það þarf lítið til að gleða okkur stundum.  

Á Bow Lane http://www.bowlane.ie/social/ fengum við kokteila, misgóða samt, fín egg benedikt, pönnukökur og annað gómsæti.   Svo voru það meiri skókaup, jólagjafir og gjafir í pakkaleik.  Ein dreif sig í lökkun og mætti með fagurgylltar glimmerneglur.

Skipulag kvöldsins var búið að distkútera hægri, vinstri, ferðanefndin hafði pantað borð á Brasserie 66 http://www.brasseriesixty6.com/  sem hefði verið vel viðeigndi enda við allar fæddar ´66 en það hefði þýtt mikil ferðalög til að fara á hótelið og í sparigallann.  Á leiðinni í lestina höfðum við séð fínan stað Hartleys http://hartleys.ie/ og ákváðum að gera stutta úttekt, þá komumst við að því að það hafði losnað borð svo rými var fyrir okkur mili 6-9, við ákváðum að nýta okkur það og sáum ekki eftir því. Við fengum þar frábærar móttkur í flotta #rigout inu okkar, gyllt og silfrað og allar með kórónur.

Annars er mikið upp pantað á öllum stöðum og margborgar sig að vera skipulagður. Við steðjuðum svo á Weatherspoons pub í næsta húsi en þar var margt um manninn og fáir stólar svo ákveðið var að kíkja á hótelið og reyna að crasha einhver sjötugsafmæli en kannski var það bara grín. Allavega á hótelbarnum var írskur trúbador, alltof eitthvað hávær og glymjandi svo lítil gleði í því svo við færðum okkur fram í lobby, þá fengu einhverjar veður af jólagleði í næsta sal sem endaði í þrusu dansi með skrautlegustu hljómsveit sem ég hef séð sem kunni sko aldeilis að halda uppi stuðinu. Pop gods, með bassaleikara í neon gulum leggings og allt eftir því http://popgodsband.ie/  https://youtu.be/2jXVAZ57moQ  Svona á að enda gott kvöld!  Nema nokkrar bættu um betur og sungu íslenska slagara fyrir aldna sjarmöra í andyrinu enda með MRS syndrome.

Sunnudagur 4. desember Fimmtugar og frábærar


Sunnudagur var svo heimferðardagur með þessum frábæru ferðafélögum. Eftir að vera búnar að ganga 10-16 þúsund skref á dag, kjafta, hlægja, borða, drekka, dansa og slappa af í spai var kominn tími til að troða silfurgöllum og nýfengnu góssi í töskur, taka rútu á völlinn og fara heim með bros á vör og gleði í hjarta. Takk allar saman og sérlega sú sem var með skipulagið og fjármálin á hreinu.