mánudagur, júní 30, 2014
Bologna og komið í Villa Doveri
Laugardagur 14. júní
Hádegisstoppið okkar var í Bologna og þá var eina skiptið sem við virkilega vorum afvegaleidd af satnavinu, við stefndum á bílastæði við lestarstöðina og til að nota park-and-ride, en græjan beindi okkur inn veg sem hætt var að nota og búið að klippa í sundur. Við fundum út úr þessu með hjálp ipadsins og fórum í bæinn.
Bologna virkar stærri á okkur en hinar borginar, við gengum þvert í gegnum miðbæinn meðfram kastalanum og torgi neptúnusar. Borðuðum "tagliatelle ragú al Bolognese" á Trattoria dell Orsa, eða Bjarnarborg :) (þá 258 á Tripadvisor) Gunnar hafði verið ákveðinn að prófa þennan rétt kenndan við borgina, hann líkist ekki mínu hakk og spaghetti mikið, það er lítið af sósu og lítið af hakki en gott pasta, þar fengum við líka tortelli með einhverri mjög góðrir rjómaostafyllingu og pastað er greinilega soðið mjög stutt því fyllingin var alveg stinn og mjög góð. Svo fengum við "cresentine" sem Mariagrazia hafði mælt með, það var greinilega einhverskonar steikt brauð, mitt á milli okkar steikta brauðs og laufabrauðs, og svo sett fylling milli tveggja kaka og hitað, okkar var með skinku,"crudo" og osti, ljúfengt en skinkan mjög sölt. Líklega hefðum við ekki ratað á þennan stað nema Mariagrazia og Battista mæltu með honum, hann er merktur á google maps svo það er aldrei að vita, við vorum samt einu túristarnir, aðrir vorum heimamenn, brjálað að gera og biðröð út á götu, enda verðið mjög gott og maturinn.
Næst löbbuðum við upp að háskólanum sem er sá elsti í heimi, við vorum reyndar illa undirbúin og fundum ekki neina aðalbyggingu en lentum fyrst eiginlega bak við hann þar sem skuggakarakterar borgarinnar hafast við með stóru hundana sína og hroðalega mikið graffiti og auglýsingar þekja alla veggi. Fær því fundum við menntavísindasviðið eða "Dipartimento di Scienze dell Ecucazione" kíktum innfyrir og hittum kennara úr bókmenntadeildinni sem var að byrja tíma með starfandi kennurum á þessum sjóðheita laugardegi um "new applications". Þar var allt huggulegt og ítölsku kennararnir svona eins og kennarar allstaðar, meirihlutin konur, og svo ein nunna.
Svo þvældumst við í 3 strætóa því það var ekki svo skírt hvert þeir væru að fara og náðum á endanum aftur á bílastæðið. Tókum ekki margar myndir en nokkrar hér.
Það er fallegt að keyra þarna frá Bologna til Tuskany en..... hraðbraut, beygjur, flutningabílar, brjálaður hraði, not my cup of tea, svo mér var frekar órótt og pínu geðvond. Gunnar bara keyrir og kemur okkur fljótt og vel á áfangastað.
Hér er kannski viðeigandi að minnast á vegatollana á hraðbrautunum við borguðum amk 20 evrur á þessari leið frá Verona til Suvereto. Nokkuð vel í lagt, en vegirnir eru góðir og fullt af jarðgöngum undir fjöll og brýr yfir dali og öflug vegrið þar sem þarf svo ég hefði bara átt að róa mig.
Við komum um átta leitið til Villa Doveri, (Leigt hjá Tuscany Now) Hulda, Iðunn, Bjartur og co voru komin. Villan er æðisleg, tvær borðstofur, stofa, útistofa og útborðstofa, önnur útiaðstaða við grillið, þrjú baðherbegi, stórt eldhús og allt til staðar. Internetið reyndar á 3G pung og engin leið að tengjast en það er bara fínt svona í fríi. Það var dregið í herbergi, Bjartur og Ragga fengu fínt herbergi með baði uppi, Iðunn og stebbi, stórt herbergi niðri með aukarúmi, og Hulda og Les í lítilli íbúð með sérinngangi sem gengur hér undir ýmsum nöfnum; annexe segir hulda, dungeon, segir les og við hin ýmist, hjáleiga, útíhús, allavega þar er allt til alls en auðvitað svolítið sér á parti. Við hin erum í venjulegum herbergjum með tveim einföldum rúmum, fullt af skápum og allt með loftkælingu. Þær hafa reyndar ekkert verið notaðar nú á þriðja degi því hitinn er um 20-24 gráður og ösköp notalegur, það hefur rignt á næturnar og komu þrumur og eldingar þá fyrstu. Ekki veðrið sem var pantað en sjáum hvað gerist þegar líður á vikuna. Það var ekki búið að skipuleggja matarmálin mikið þannig að Hulda og Magga sóttu 11 pizzur, sem munu duga fram á næstu daga. Svo voru sumir sem vöktu lengi og drukku mikið en aðrir voru ferðalúnir og sváfu mikið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli