fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Tenerife 2007 Ferðasaga
Við byrjuðum á því að vakna snemma (0500) til að taka taxa niður á járnbrautarstöðina í Leeds þar sem við tókum lestina til Peterbourgh og skiptum um lest til Norwich og tókum síðan taxa á flugvöllinn. Flugið var ágætt, full vél að Bretum og svo við. Síðan þegar við lentum tók við rútuferð á hótelið. Semsagt 2 taxar, 2 lestar, flugvél og rúta til að komast á áfangastað.
Gistum á Oasis Golf Resort, voðalega fínt fjögurra stjörnu hótel. Tenerife er eldfjallaeyja og mjög brött, lítið sem ekkert undirlendi svo að það er byggt upp í hæðir og hótelið okkar stendur frekar hátt við hliðina á stórum golfvelli og er líka byggt sem raðhúsalengjur sem liggja hver upp af annari og við í þeirri efstu svo einhverjar 50 tröppur þarf að klífa þangað, sem við höfðum nú bara gott af ;) Íbúðin er á tveim hæðum, eldhús og stofa uppi með bedda í skáp þar sem Bergþóra Sól sefur. Niðri er baðherbergi og svefnherbergi allt snyrtilegt og mjög rúmt. Svakalega fínt hótel en svolítið langt frá ströndinni en það kom ekki að sök því við gátum notað ókeypis strætó til að komast á ströndina og til Möggu sem var niðri í bæ á Hótel La Siesta.

Við fórum þrisvar á ströndina, í rennibrautagarð, og vorum tvo daga í garðinum hjá okkur. Gaman að vera með fólki sem vill vera á ströndinni, mig klígjar við sandi á tánum en elska sjóinn svo ég læt mig hafa sandinn og þau gera óspart grín að mér. Magga og Gunnar tóku bæði langar sundferðir með mér og Óðinn og Bergþóra voru meira og minna allan tíman að leika sér í briminu og komu svo heim með fullar buxur af sandi. Hans Þór lá flatur alla daga að reyna að ná í lit á kroppinn en fór svo á kvöldin að spila pool og horfa á fótbolta.
Það mætti halda að ég væri létt heimsk, gleymi alltaf að láta bera sólarvörn á bakið á mér og svo er það ein brunarúst.

Við skelltum okkur í óperuna, eða þannig, svakalega flott hús með styttum eftir öllum veggjum og alvöru klassísk tónlist spiluð fyrir utan, auglýst Ástarelexsírinn eftir Donizetti og við förum, þá var þetta meira eins og flamingósýning en mikil gæði bæði á dansi og tónlistarflutningi, sem var svona blanda af ýmsu. Ekki spillti fyrir að maturinn á undan var mjög góður ólíkt því sem annars gerist á Tenerife, svo á eftir skelltum við fullorðna fólkið okkur á írskan bar á smá skrall.

Hefðbundið notalegt sólarfrí, erum núna komin heim- myndir á http://www.picturetrail.com/svavap

Engin ummæli: