laugardagur, maí 12, 2018

Bucharest - dagur 1

Nú er ég búin að vera einn sólarhring í Bucharest, koma mér fyrir í íbúðinni og heimsækja háskólann.

Íbúðin er alveg eins og lofað var, ég er mest ánægð með skrifborðstólinn og gott netsamaband.  Verra eru sexfætt sambýlisdýr í stærri kantinum og rúmið er lágt og óspennandi en dugar.  Vonandi verður það samt einsdæmi en það var rafmagnslaust þegar ég kom úr gönguferðinni í gær.

Ég gekk töluvert um borgina í gær til að átta mig á hlutunum.  Að sumu leyti minnir hún mig á París en að öðru leyti á Kúbu og svo er smá ameríka inni á milli.  París kemur aðallega frá byggingastílnum, þétt skreytt  íbúðarhús uppá 6-8 hæðir, þeirra eigin sigurbogi og breiðstræti sem minna á Champs Elysees.  Kúba kemur af niðurníðslunni, hér vantar nokkra milljón lítra af málningu og veggir eru brotnir og ég hef hvergi séð eins mikið veggjakrot, þá meina ég krot en ekki fínar myndir.  Ameríka kemur svo inn af stórum auglýsingaskiltum, ljósaskiltum, verslunarmiðstöð, og svona retail parks. Svo er greinilega verið að breikka breiðstrætin eða laga gatnamót og mér fannst sorglegt að sjá svona fallegan gosbrunn brotinn niður.


Annað sem ég tek eftir í útlöndum er hvað sé gert við ruslið.  Enn hef ég ekki séð nein merki um flokkun eða endurvinnslu, sá meira að segja sorp úti á götu rétt hjá þar sem ég bý, en sumar götur þar eru víst varasamar og mér sagt að ganga ekki þar ein að kvöldi. Þar sem ég gekk í gær var samt snyrtilegar götur, bara tveir hundar og svotil enginn að reykja úti á götu þar til ég var komin í bæinn og tveir bankastarfsmenn í pásu voru að púa.


Verðlagið er bara djók, leigubíll 19 km frá flugvellinnum kostaði 922 kr. Hamborgari og tveir stórir bjórar með ríflegu þjórféi á frekar fínum veitingastað 1800 kr.


Ég fór í háskólann sem er með í verkefninu, hér eru margir háskólar, jafnvel í sömu byggingunni.  Þessi er í byggingu sem fyrrum stjórnvöld byggðu með það í huga að þar yrði almennings mötuneyti að sönnum kommonískum stíl, en af því verð ekki svo flestar svona byggingar urðu að verslunarmiðstöðvum en þessi að háskóla.

Þessi og margir háskólarnir eru einkareknir, og ég hafði ekki skilið hvernig Makerspacið sem er með okkur í verkefninu gat verið húsnæðislaust, en það og fleirri slík eru víst einkarekin og rekstrarmódelið er þannig að þau selja almenningi sem vill nota áskrift.

Nú sit ég bara og fer yfir síðustu verkefni annarinnar, meistaraverkefni og hlusta á Eurovision söngvakeppnina.

Meira seinna.

Myndir úr háskólanum 

Myndir af röltinu.

föstudagur, apríl 13, 2018

Ferð með leikskólakennurum til Notodden

Nú er ég búin að vera í verkefninu DILE, digtal learning in pre-schools með hléum í þrjú ár.

Ég var að koma úr verkefna fundi í Notodden sem er sunnarlega í Noregi.  Samgöngur þangað eru ekki auðveldar svo við leigðum bara bíl og keyrðum þangað, ég hafði gert það sama í febrúar 2016.  Það gengur bara vel og er gott tækifæri til að sjá meira af landinu.


Nú var ég á ferð með tveimur leikskólakennurum og í góðum félagsskap.  Þetta eru alltaf skemmtilegar en krefjandi ferðir.  Við mætum með frásagnir af því hvernig leikskólarnir hafa verið að prófa upplýsingatækni, prófum sjálf og heimsækjum leikskóla.

Notodden er bara 12000 manna bær, hugggulegur í djúpum dal.  Við gistum á hálfgerðu sveitahóteli sem er ekki með veitingahúsi svo fyrsta kvöldið rúntuðum við og enduðum á pizzum, fáir staðir og margir lokaðir.

Hann er á heimskrá Unesco fyrir að vera upphafsstaður Norsk Hydro, og áburðarverksmiðja.  Svo lokaði fullt af verksmiðjum þarna við lok aísðustu aldar og þeir fengu blúsinn og eru núna fræg fyrir mikla blúshátíð í sumarlok og í bænum er blússafn.


Hér eru myndir úr ferðinni

sunnudagur, mars 25, 2018

Húsafell og faðirinn

Örpóstur

Fórum í Húsafell eina helgi Silla og Hörður komu ekki með vegna veikinda, Gunnar var eiginlega veikur.  Ég naut mín við vinnu, gönguferð og flatmaga í pottinum.  Fór með Gunnar til læknis og hann var komin með lungnabólgu. Það varð til þess að ég fór í leikhús með Daða og Dísu á faðirinn, frábær sýning um alheimer og að eiga aldraða foreldra.

miðvikudagur, febrúar 28, 2018

Veturinn og leikhús


Ég ætla bara að henda hér til minnis smá upptalningu:


12. - 14 janúar  fórum við Magga og Gerður í bústaðinn hjá Möggu að slappa af og halda uppá 50 ára afmæli Möggu, áttum notalegar stundir, urðum veðurtepptar eina nótt og söknuðum Iðunnar sem boðaði forföll á síðustu stundu.

27. janúar  með Möggu og Ínu að sjá Ellý,



28. janúar fórum við með Gabríel og Hilmir Breka að sjá Dýrin í Hálsskógi en Guðmundur Pálmi komst ekki, var lasinn, þó hann sé nefkirtlunum fátækari síða 18. janúar


1. feb komu Hörður og Silla í mat og Pétur og þeir þrír settu upp sjónvarpið í svefnherberginu svo nú má líka glápa þar

2. febrúar ´var partý hjá  Kirkjukór Víðstaðakirkju heima hjá okkur. Sannkallaður Öskubusku-kór, allir farnir heim fyrir miðnætti eftir óhóflegar veitingar og fjörlegan söng.

9. febrúar var ég loksins viðstödd upptöku af útsvarsþætti, Hafnarfjörður og Rangárþing kepptu og Hanfarfjörður vann.  Kórfélagar voru fengnir í fjör í auglýsingahléi.

17. febrúar  fórum við í frábæran rúnt með Audrey Shih frá Taiwan sem var með mér í náminu í og kærastanaum hennar frá Leeds og keyrðum um Reykjanesið, fórum Krýsuvíkurleið og fengum súpu á Bryggjunni í Grindavík, mæli með þessu litla skemmtilega kaffihúsi. Við fengum lánaðan jeppa hjá Daða og vorum í miklu dásemdarveðri.  Tók margar myndir

Sama kvöld fórum við svo með Ástu Júlíu og Ágústi að sjá Phantom of the Opera, sem ég hafði pantað í afmælisgjöf.
Lentum svo í fínni óvæntri bógsteik þegar við skiluðum bílnum.


20. - 23. febrúar fór ég í vinnuferð til Jakobstad í Finnlandi, heimsótti leikskóla og fundaði með hópnum.  Varð alveg ástfangin af hrímuðu trjánum þar og tók fullt af myndum.

11. febrúar buðum við Bergþóra í spila afmæliskaffi en það gerði brjálað veður og öllu frestað. Nema Magga og Ína komu við enda í nágrenninu og á jeppa!  Boðið var því 24. febrúar sem hitti vel á því Anita og María voru komnar í Íslandsferð.  Þær, María, Svava Tanja, ég, Pétur og Bergþóra spiluðum fullt, pabbi og Lilja komu í kaffi. Flottur dagur.  Pétur færði mér stjaka sem hann smíðaði.

Febrúar endaði svo á því að ég fór að hitta Fimmtugar og frægar á Hjallatúni og borðuðm á Library, sem ég mæli mikið með. En áður hitti ég Guðmund og Jón og við fórum á róló með vinum Jóns.





Svo má ekki gleyma að Viktor Darri kom nokkrum sinnum í pössun.


sunnudagur, október 15, 2017

59 ára

Gunnar varð 59 ára á föstudaginn.  Í tilefni af því bauð hann litlum hópi vina með í leikhús, auðvitað hjá Leikfélagi Mosfellsveitar að sjá sýningu sem þau kalla Allt önnur Ella.  Sýningin er sett upp á sviðinu í bæjarleikhúsinu og búið að breyta því í næturklúbb, ca. 1930.  Nóg er að fþjónustustelpum sem ganga um beina í svörtum pilsum og hvítum skyrtum, áður en sýningunni lauk voru þær allar búnar að koma símanúmerinu sínu í vasana hjá Gunnari og kyssa hann í bak og fyrir. Snemma í sýningunni komu þær allar strollandi með bollaköku með einu kerti og sungu fyrir hann afmælissönginn. Á milli stuttra likinn atriða voru sungin lög Ellu Fitzgerald, tvær stúlkur skiptust mest á en svo komu þrír karlar líka og sungu, hver fyrir sig með ólíku lagi og einn mera að segja lag sem á ekkert skylt við Ellu Fitzgerald, skifa þetta ekki nú til að skemma ekki fyrir þeim sem eiga eftir að sjá sýninguna.
Að öðrum ólöstuðum fannst okkur Anna Dúna Halldórsdóttir standa framúr, bæði söngur og túlkun, vonandi eigum við eftir að heyra í henni oft aftur. Söngvararnir í sýningunni eru úr Tónlistardeild Listakóla Mosfellsbæjar og smá gúggl sýni með að Anna Dúna hefur sungið með sönghópnum við Tjörninga og virðist vera í námi við Tónlistarskóla FÍH.

Anna Dúna, mynd frá Facebook síðu leikfélagsins.
Gunnar mætti með hatt, greinilega tilbúinn að taka þátt í sýningunni og við skemmtum okkur konunglega.



Síðan skunduðum við á Forréttabarinn eða forréttindabarinn eins og "auto correct" breytti því í í skilboðum milli okkar Gunnars. Enda eru það tóm forréttindi að fá að eyða kvöldi með góðum vinum við frábæra sýningu og góðan mat.  Maturinn var mjög góður og þjónustan frábær. Við höfðum pantað fyrirfram þar sem vitað var að við kæmum stuttu áður en eldhúsið myndi loka.  Kokkarnir létu ekki það slá sig út af laginnu og heldur ekki stelpan sem þjónaði okkur, hún var farin að þekkja okkur með nafni og ruglaðist ekki einu sinni þó við skiptum tvisvar um sæti milli rétta og fórum tvö sæti til vinstri, það varð til þessa að hópurinn blandaðist betur og allir gátu talað við fleirri.  Bestu þakkir Forréttabar. Verst að ég gleymdi alveg að taka myndir þar. Gæinn fékk góðar gjafir auk allra símanúmerana, bonsai tré, máltíðina, ipad og ferðabók um Colorado.

þriðjudagur, september 12, 2017

Dubrovnik með Fríðum og Jöxlum september 2017

Eftir um það bil 14 ára bið og söfnun fórum við loks saman aftur í ferðalag 4.-12. september 2017. Fríðurnar eru saumaklúbburinn minn, frá því við vorum 12 ára eða svo. Þrjár systur og vinkonur okkar allar jafnöldrur mínar. síðast aferð var til Krítar sumarið 2003, þar áður höfðum við farið 1992 eða 3 til Balimore þar sem við versluðum yfir okkur og til Bacelona 1999 eða kannski 2000.

Jæja en um 2008 vorum við tilbúnar aftur að fara í ferð en þá gerðist eitthvað í fjármálum íslendinga og ferðinni frestað. Svo reyndar erum við orðnar eldri og efnaðri og ferðumst sumar töluvert og vinnum mikið svo erfitt var að samræma ferðaplön en það tókst.



Við flugum gegnum Frankfurt, leigðum okkur villu í Dubrovnik Villa Bruna og áttum átta frábæra daga saman í borginni.  Króatía er með mikið fjallendi og borgin er öll í hæð, þannig að við gengum niður í bæ, margar margar tröppur.  Sumir svo upp aftur en aðrir með Über, sem er snilld!
Gengið niður í bæ.


Veðrið var gott framan af sól og blíða en svo fengum við storm og rigningu svo um munaði. Siglingum var frestað og fólk hélt sig í húsi. Þetta er reyndar mjög sjaldgæft og við bara svona óheppin.


Saman fórum við í skipulagða Food Walk þar sem við kynntumst mat og vín frá Króatíu. Við mælum með svoleiðis, þar eru slegnar amk tvær flugur í einu höggi, maður kynnist staðnum, fær góðan mat, og ábendingar um hvað hæst sé að gera og hvar sé gott að borða.

Heima í Villa Bruna var gott að vera og njóta samvista með vinum sínum.  Magga og Ína voru duglegar að versla og tóku á móti okkur með veitingum þar sem þær komu á undan beint frá Róm.  Hópurinn var svo með sameiginlegan morgunmat.

Helga og Íris í afslöppun.

Gerður systir gerði dauðaleit að almennilegum slátrara því við fundum lítið kjöt í búðunum og reddaði hamborgaveislu og nautasteikum.  Villan er með sex svefnehrbergjum og þrem baðherbergjum og góða aðstöðu úti til veisluhalda, sólbaða og sundlaug.
Gunnar og Nonni grilla borgara.
Fólk svo mikið stjórnaði sínum dögum.  Sumir fóru með kláf uppá hæðina fyrir ofan borgina og nutu útsýnis. Flestir gengu eftir eftir borgarveggjunum það kostar eitthvað smáræði, 150 kunur minnir mig, tekur 1-2 tíma eftir því hvað þú ferð hratt yfir og er algjörlega þess virði.




Við Gunnar fórum í siglingu um þrjár eyjar og áttum frábæran dag, með mat og strönd.  á þeirri fyrstu  Koločep, er næstum ekki neitt en ef þú vilt einhverntíman fara í luxusfrí á örlítilli eyju, þar sem bara er ekið um á golfbílum þá er þetta staðurinn. Þar röltum við bara um og Gunnar dýfði tánum í sjóinn. Næsta stopp var á Šipan, þar var farið í land í  Suđurađ þorpinu og rölt aðeins upp hæðina þar sem við fengum frábæran hádegismat, súpu, val um kjöt, kjúkling eða fisk og svo kökur og kaffi. Auk harmonkiuspils og ég hef aldrei heyrt eins hræðilega tónlist fá eins mikil gleðiviðbrögð!  Á síðustu eyjunni fór ég í sjóinn og Gunnar  smá en fór svo í gönguferð þar sem hann rakst á sýningarbás/hús Your black horizon eftir Ólaf Elíasson sem á víst heimili á eyjunni Lopud núna.  Lítill heimur.



Á heimleiðinni gaf vel á og samferðafólkið naut þess að æpa smá.  Þegar við komum til baka kom í ljós að ekkrt hafði orðið af siglingu hinna út í eyjuna Lokrum vegna þess að of mikið var í sjóinn og kláfurinn lokaður vegna roks.

Ég og Gunnar fórum á strönd, vegna þess hver þarna er fjallent eru strendurnar litlar og grýttar svo nauðsynlegt er að vera með vaðskó.  Strendurnar í eyjunum voru reyndar með sandi, kannski innfluttum svo vel mætti gera sér dagsferð þangað með báta Über.


Þetta var góð ferð, Dubrovnik er heillandi og sérlega gamli bærinn með þröngum götum, veitingahúsum á hverju strái sem mörg hver eru mjög góð en frekar dýr.  Meðal annar létum við plata okkur til að kaupa heila gin þegar sex glös hefðu dugað, og með tonicinu fór reikningurinn í 16 þúsund ISK!  Stundum fórum við öll saman í leiðangra og stundum út og suður.


Hægt var að fara í verslunarmistöð og ein nýtti sér það en annars er þetta ekki staður til að versla.




Takk fyrir samveruna kæru vinir.



Myndir úr ferðinni.  Kort ferðarinnar

föstudagur, júlí 14, 2017

Áskorun Elliðavallaleikar 2017

Nú er komið að samfélagsmiðla hluta þessara leika þau felast í því að vera skapandi og skemmtileg taka myndir með símunum ykkar og birta afurðina á síðu viðburðarins.  Merkið með nafni liðsins.

t.d  Besta liðið verkefni 1.

Stigagjöfin er eins fyrir þetta verkefni og við pabbi erum dómarar. Ef þið veljið að leysa ekki eitthvað af verkefnunum þýðir það 0 stig.

Þið megið fara hvert sem er til að leysa verkefnin en innan þess tímaramma sem gefin er á staðnum.

Hér eru verkefnin sem þið eigið að leysa:


1) Taka fjöruga hópmynd.

2) Finna þrjár mismunandi plöntur og birta mynd af þeim með réttu nafni hennar.


3)Leika atriði úr frægri bíómynd.

4) Skapa náttúrulistaverk og mynda það.

5) Semja texta við lag sem þið kunnið eða semja lag og syngja hópsönginn.




sunnudagur, apríl 16, 2017

Páskar 2017

Páskarnir voru fínir.  Tókum lífinu mest með ró og slatta af góðum mat enda Gunnar nýkominn heim eða svotil.  Mesta fjörið var á laugardeginum þegar María, Siggi, Skapti, Hans Þór og Einar komu í mat þar sem mæðurnar voru erlendis.  Við elduðum hamborgarahrygg, Hans Þór vildi læra að elda og tók þátt í sósugerðinni, við vorum of drjúg á rauðrófusafanum svo hún varð frekar bleik en góð samt.


Jón og Pétur leituðu að páskaeggjunum sínum og tóku góðan tíma í það.



Miklu meiri myndir hér.

mánudagur, desember 26, 2016

Fimmtugsárið 2016

Árið 2016 var óneitanlega viðburðaríkt og á margan hátt skemmtilegt.  Þess verður samt aðallega minnst fyrir tvennt, sem mikils ferðaárs og árið sem Viktor Darri fæddist.
Barnabörnin eru semsagt orðin þrjú,  Gabríel Veigar 8 ára sem fer í leiðangra með afa og veiðir Pókémona með ömmu, Guðmundur Pálmi 2 ára sem rannsakar heiminn og syngur og svo sá nýjasti, Viktor Darri Ragnarsson, sonur Kristínar Hrannar sem fæddist 29. september og er svo rólegur og flottur.
xx





Á árinu tókst mér  að fara x sinnum til útlanda þetta ár og halda uppá fimmtugsafmælið mitt með fjölbreyttum hætti.
Ég byrjaði árið með því að skella mér í flug, hafði sníkt mér áramótapartý hjá Gerði svo það var stutt að fara. Ferðinni var heitið í heimsókn hjá Huldu systir í Grimsby á leið á ASE ráðstefnu í Birmingham.  Í Grimsby hitti ég Theodor Isac, alveg nýfæddan, fyrsta barnabarn Les og Huldu, sonur Jessicu og Matt þess pólska svo Theodor hefur mjög alþjóðlegar tengingar í lífinu :) Það er alltaf jafn gott að heimsækja Huldu og dekrað vvið mann á allan hátt og skundað í búðir, aðallega í skókaup.
ASE er ráðstefna samtaka náttúrufræðikennara í Englandi og ég fór þangað með hópi íslenskra kennara. Birmingham er fín svona þegar maður er kominn inní miðborgina, eða svona eins og enskar borgir geta verið á dimmum hráslagalegum janúardögum.  Myndir hér
Í febrúar varð ég svo fimmtug en ákvað að hafa ekki mikið fyrir því þar sem því yrði ærilega fagnað með ferðalögum. Bergþóra hafið flutt til okkar um áramótin og hún varð 18 ára, til að fagna því drifum við okkur í Bláfjöll með smá krókaleið og festa bílinn, en það hafðist og var ótrúlega skemmtilegt. 



Í febrúar tók ég líka á móti samstarfsfólki í norrænu verkefni DILE um spjaldtölvur á leikskólum, við funduðum, heimsóttum leikskóla og svo bauð ég öllum heim í fisk frá Fylgifiskum, mæli með því. Í tengslum við það verkefni fórum við svo á fund í Svíþjóð þar sem þessi mynd er tekin af íslenska hópnum. 
Einnig einkenndist vorönnin mikið af Biophilia menntaverkefninu, þar sem ég hef kynnst mikið af skemmtilegu fólki og tekið þátt í mjög áhugaverðu verkefni.
xx
Við nafna fórum á öll undankvöld Eurovision í febrúar og svo varð hún stúdent í maí, svo dugleg þessi stelpa. 
Í mars var svo stóra ferðalagið. Gunnar hafði lengi dreymt um að fara til Kúbu og þegar við höfðum heyrt í tveimur sófagestum lýsa upplifun sinni og enda á því að segja ef þið ætlið að fara skuluð þið fara núna þá var teningunum kastað og við fórum í mikla ferð sem lýst er hér fyrr á blogginu. Það var ekki seinna vænna því í árslok lést svo Fidel Castro svo búast má við að breytingar verði enn örari á næstu árum.

Vorönnin í vinnunni var skemmtileg. Ég var með umsjón með skyldunámskeiði nám og kennsla yngri barna í grunnskólum og inngangsnámskeiði um náttúrugreinar í grunnskólum. 


Sumarið var meira en lítið viðburðarríkt. Það byrjaði eiginlega með ferðinni til Svíþjóð, en þá kom ég við í Danmörku á kránni og átti notalega dag aðallega með Anitu, á meðan foreldrarnir unnu og unnu.  Við skruppum líka á ströndina og að versla til Aabenraa. Bara fínt og gott stutt stopp.

Bjartur græjar fyrir okkur smörrebröd.

Nýja veröndin hjá Bjarti og Röggu.
Áður en ég fór hafði Anna frænka Gunnars, Bob hennar maður við níunda mann komið á klakann og heimsótt okkur í mat og fínirí. Þau voru svo á flakki um ísland meðan ég heimsótti Danmörk og Svíþjóð. Svo fórum við á Mýrarnar og Anna og Bob með Dóru Stínu og Georg til okkar þar sem við vorum með Daða og Dísu. Þetta voru svona skrýtnir og skemmtilegir dagar, mikið að gera og fullt af fólki en samt afslappað og notalegt með góðum mat og góðum félgsskap. Við keyrðum um, gengum og heimsóttum Önnu Kristínu og Þorvald.

Bob and his entourage.

Áfram Ísland - Dóra Stína á Vog á Mýrum.

Göngutúr á Mýrum.

Það verður líka að segja frá því að EM í fótbolta stóð yfir þessa daga og þjóðin og Gunnar fylgdust með af áhuga og innlifun eins og þessar myndir sýna, þó ég geti ekki haft það eftir sem Dóra Stína hafði um Uncle Gunnar að segja þegar sem mest gekk á. 
    

Júlí var Íslandsmánuður, þá fórum við systur með okkar lið á Laugarvatn í Elliðavallarleika, grill, söng og gaman í miklu flugnageri. Gaman að fylgjast með því hvað dynamikin breytist eftir því sem krakkarnir okkar eldast og þau fara að vaka lengur en foreldrarnir, en eru samt bara krakkaormar sem finns tgott að láta mömmu sjá um matinnn, en við ætlum að breyta því í næstu ferð.


Grímsnesið eða réttara sagt Öndverðanesið er að verða annað heimili hjá hálfri fjölskyldunni því Magga og Ína keyptu sér bústað bara 7 mínútna göngu frá Iðunni og Stebba, við heimsóttum báða staði og finnst frábært að fá að koma í heimsóknir í þessi fínu kot og eyða góðri helgi.

Magga matbýr í nýja kotinu.
Garðræktin var eitthvað skrýtin þetta sumar, sumarið var þurrt og heitt og við mikið á flakkinu svo kartöflur fóru seint niður og voru sjaldan vökvaðar svo uppskera á þeim var mjög dræm. Rifs og jarðaver sjá meira um sig sjálf og góð uppskera þar. Beðin eru varðandi í illgresi og gullregnið klofnaði og dó í fyrstu haustlægðinni, enda margstofna og með þunga krónu. þess verður sárt saknað þrátt fyirr að það hafi birt í stofunni.

Í ágúst var svo önnur stórferð ársins þegar við fórum við Samkór Kópavogs í 50 ára afmælisferð kórsins til Kanada og USA.  Þetta var heilmikil ferð, en ég virðist ekki hafa skrifað ferðasögu af einhverjum ástæðum, kannski því dagskráin var vel skráð fyrirfram, eða kannski því við vorum alltaf á fleygiferð í rútum og að syngja. Myndir hér



Ragga og Bjartur komu í stutta heimsókn í sumarlok og við skelltum okkur á Sushi Samba með IÐunni og Stebba á afmælisdaginn hennar.  Anita var hér aftur á móti í allt sumar og var í starfsnámi á Hótel Keflavík og bjó hjá Gerði, það var mikið gaman að kynnast henni almenniglega og sjá oftar.

Á ljósanótt hefur skapast sú hefði að 50 ára árgangurinn hittist og er kannski með eins derhúfur og blöðrur i árgangagöngunni. Minn árgangur hefur verið frekar ofvirkur í að hittast á fimm ára fresti og alltaf mikið stuð. Að þessu sinni tóku höndum saman allir hóparnir úr nágranna sveitafélögunum saman og höfðu heilmikið skrall á Mánagrund á föstudagskvöldinu og svo var búið að græja einkennisklæðnað á liðið til að skarta í árgangagöngunni. Þetta varð frábær helgi og mikið fjör með þessum appelísinugula hóp.




Ein ferð enn var í september með vinnufélögum Gunnars til Wiesbaden, frábær ferð í alla staði þar sem við heimsóttum vínekrur, sigldum hlógum, dönsuðum, fórum í spilavíti fengum góðan mat. Meiri myndir hér, og ferðalýsing sem stóðst nokkrun veginn hér.
  

Í árslok var síðasta ferð ársins, þá til Dublin með níu fimmtugum dömum, sem allar höfðu verið saman í bekk í baranaskóla.  Um þá ferð má lesa hér.  og sjá myndir hér.

Hér er ekki allt talið og vantar afmæli, árshátíðar jólahlaðborð og heimboð ýmis.
Þrátt fyrir ferðalög og fjör er nú hversdagslífið oft það besta, að fá liðið sitt í heimsókn og elda kjötsúpu í nýjum potti. Bera út blaðið í morgunkyrrðinni og hlusta á þætti af gufunni, já eða bara fuglasönginn.  Gunnar átti í hjartarórlegu aftur í sumar og í hann var settur í hann gangráður til að vinna bug á því. Svava er fín, verst hvað það er til mikið af henni og vinnuálag óhóflegt á köflum. Krakkarnir hafa það allir fint þrátt fyrir lífsins skakkaföll. Kristín og Ragnar slitu sínu sambandi en hún hefur nú skráð sig í uppeldis- og menntunarfræði. Jón og Elín búa saman, Pétur er með sínum vinum á ásbrú, Halli fluttur út, og Raggi fluttur inn. Lilja hamast í sálfræði náminu fyrir norðan og gengur vel, Bergþóra er alsæl með Sindra sinn svo við sjáum hana ekki svo dögum skiptir, hún átti frábæra haustönn í Flensborg eftir brokkgenga vorönn með bakvandamálum. Litlu mennirnir eru hressir og dafna vel. Guðmundur á Hjallaseli og Gabríel í Salaskóla og sá nýjasti er bara dásemdin ein og blæs út og brosir.

Öðru máli gegnir um aðra. Við eigum ættingja vini og samstarfsfólk sem glímir við krabbamein, Parkinson, ofnæmi, að missa börnin sín, gigt, brjósklos, geðsjúkdóma, áfengisvanda og aðra kvilla.  Lífið er ekki alltaf bara veislur og ferðalög. Sem betur fer eru það samt minningarnar sem standa uppúr. Dýrmætt eru líka stuttar heimsóknir, kíkja við og fá einn kaffibolla, vel heppnuð verkefni, vel heppnuð lyfjagjöf og meðferð þó það sé bara skammgóður vermir.  Svo við skulum halda því áfram hittast, hringja og vera saman eins og hægt er.

Jón með Guðmund Pálma tveggja ára.




Sindri og Bergþóra að spila Ticket to Ride.

Guðmundur Pálmi skoðar heiminn.

Sungið með bandi í sextugsafmæli samstarfskonu.


Tónleikar með Simply Red.


Bústaðaþrif.



Þannig endar þessi pistill frá fimmtugri frauku, við óskum ykkur öllum árs og friðar á árinu 2017.