Jæja, svo kom þriðjudagur, Gunnar skutlaði okkur hinum til Allyson og Tuma á Hólum og bílnum á verkstæði. Gunnar fór svo áfram með Tuma að gera úttekt á löxum í Refasveit með rafveiði.
Bergþóra var alsæl að vera komin í netsamband og var á heimleið því hún hafði ekki áhuga á að gista með okkur í tjaldi síðustu nóttina. Henni tókst að fá kunningja til að skutla sér á rútu og heim í vinnuna og vinina.
Í ljós kom að allt var bráðnað saman í kringum hjólaleguna og panta þurfti meiri varahluti í partasölu frá Akureyri sem myndu koma næsta dag. Gunnar fór því aftur að veiða með Tuma og við hin héldum áfram að dunda okkur.
Gabríel var heppinn því hann hitti fullt af krökkum til að leika við, bæði gesti og sem búa á staðnum. Hann var alsæll með það og útiveruna, hundinn hana Ösku, tjaldið og ipadinn. Svo fórum við í sund og margar gönguferðir með Allyson sem dekraði við hann á allan hátt eins og henni og Tuma einum er lagið. Fljótt myndaðist hefð að Tumi fór með Gabríel í göngu á kvöldin að lesa á alla legsteinana í kirkjugarðinum að kröfu Gabríels.
Jæja nú var kominn fimmtudagur og parturinn einhversstaðar í Skagafirði að okkur var sagt svo við ákváðum að kíkja á Vesturfarasafnið á Hofsósi og inná Krók með Marín sem var á leið á Akureyri. Safnið er skemmtilegt en góða veðrið togaði mig fljótt út, stoppuðum líka í Gröf þar sem þjóðminjasafnið hefur gert upp miðaldakirkju.
Jæja næsti kafli í bílamálum var að verkstæðið hringdi til að segja okkur að parturinn væri víst enn á Akureyri og hvort við gætum fengið einhvern til að sækja hann. Ekki náðist í Lilju svo Gunnar fékk bílinn hjá Tuma og Allyson og ók af stað. Svo náðist í Lilju og hún sótti partinn og lagði af stað til Siglufjarðar, smá misskilningur í gangi!! Gunnar heyrði í henni við Dalvík svo hún snéri við, parturinn komst á Krókinn og var settur undir. Við borðuðum svo með gestgjöfum og meiri gestum, að þessu sinni spaghetti og hakk, en höfðum annars verið í fínu yfirlæti í kjúklingasúpu og steiktum fisk
Þegar svo bíllinn var búinn,eða þannig, ekki tókst að taka hann í sundur og komast að legunni, svo allt draslið var sett undir í einu lagi í þeim tilgangi að "koma okkur úr dalnum" eins og Rúnar á verkstæði KS orðaði það. Svo brunuðum við af stað og komum í Hafnarfjörðinn um miðnættið svo Gabríel gisti og fór svo til pabba síns næsta dag.
Við verðum Allyson og Tuma ævinlega þakklát fyrir að taka svona vel á móti okkur og bjarga okkur í þessum bíla vandræðum, tveggja tíma heimsókn varð að tveggja nátta dvöl.
Myndir hér.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli