Síðustu dagarnir í Leeds voru svolítið nostalgískir við fórum mikið í bæinn og oftar á pöbbinn og drukkum í okkur þessa síðustu dropa þeirrar lífsreynslu af því að búa í Englandi. versluðum eitt og annað til að taka með heim eins og fimm ára birgðir af kanil og paprikudufti ;)
Svo leigðum við trukk eina ferðina enn pökkuðum saman og þrifum á Aston View og brunuðum
með dótið til Immingham, 21. júní. Svo eyddum við nokkrum góðum dögum með Huldu áður en flogið var heim 26. júní. Það var alveg ómetanlegt að hafa Huldu og Les þarna á næstu grösum geta skroppið til þeirra yfir helgi og fá ráð um allt mögulegt sem fávísir Íslendingar vissu ekki. (á myndinni komst Hulda í hárið á mér og klippti hressilega !)
Fólk spyr mig oft hvort ég vildi búa þar áfram og svarið er ekki einfalt. England er dásamlegt að mörgu leiti, veðrið, verðið, sveitirnar, fjölbreytileikinn í mannlífinu. Magga systir segir líka að ég sé borgarrotta og eigi að búa þar sem ég geti labbað í óperuna og á tónleika og líklega er smá sannleikskorn í því. Ég elskaði að labba eftir daginn í háskólanum niður í gegnum miðbæinn, koma við í Borders og glugga í nokkrar bækur og fá mér kaffi á leiðinni í tónlistarskólann. En á móti kemur að ég elska líka að ganga um Keflavík og þekkja hverja einustu þúfu, og sérlega alla víðáttuna á Íslandi. En það sem gerir líklega útslagið er fólkið, að geta hoppað upp í bíl og verið komin inn í eldhús hjá systrum mínum innan fimm mínútna og að vera í daglegum samskiptum við fjölskyldu og vini.
Svo má ekki gleyma að í Englandi var lífið með afskaplega einföldum brag, ég í námi og Gunnar heimavinnandi, ekkert vinnustress og mikil notalegheit og tími til að njóta lífsins, hver veit hvaða mynd hefði verið ef við hefðum bæði verið í botnlausri vinnu ?
Það mætti skrifa langan pistil annars með samanburðinum á lífinu í Leeds og á Íslandi og það skín líklega í gegn um fyrri pósta kannski kem ég til með að bæta við þennan lista en þetta við ég nefna nú:
- húsin og húshiti, í Englandi eru húsin köld og rök en á Íslandi heit og hlý
- bankakerfið í Englandi er þungt og leiðinlegt
- England er STÓRT Ísland er lítið og þá meina ég fólksfjöldi, vegakerfi, framboð á vöru og þjónustu ofl.....
Engin ummæli:
Skrifa ummæli