Allir slappir og kerfin á móti mér
Sumir dagar eru verri en aðrir, við erum öll enn hálfslöpp. Bergþóra veiktist í gær og fór ekki í skólann. Ég fór og var fram eftir degi, stór hluti dagskráinnar var um allskonar aðstoð sem er í boði, námsráðgjöf, heilsugæsla, viðtalsaðstoð. Líka um bókasafnið, tölvukerfið, tungumálamiðstöðina, og skills center. Þannig að það er alveg sama hvort maður stendur á gati í málfræði, ritgerðasmíð, sálarlífinu eða fær kynsjúkdóm, þá er hægt að fá aðstoð.
Annars var allt á móti mér í fyrradag, heimbankinn hjá Barkleys sagði að lykilorðin væru vitlaus, gat ekki borgað leiguna, síðan hjá TV licence (afnotagjaldi sjónvarps) virkaði ekki og svo þegar ég ætlaði að hringja eftir aðstoð virkaði síminn ekki.
Talaði við ennþá fleirra fólk, meiri kínverja, Lýbíu, stelpu frá Íran, einn frá Þýskalandi, merkilegt hvað lítið af þýskunni úr FS situr eftir, eða réttara sagt, ég skil ekki talað mál en skil meira og minna þýsku textana sem ég hef verið að syngja undanfarin ár.
Múslimarnir eru frekar áberandi hérna, sátu ábyggilega 20 í gær í salnum með slæður yfir hárinu og svo fengum við bréf heim með Bergþóru frá skólanum að margir nemendur segðust ætla að fasta núna en að skólanum þætti það helst ungt fyrir 6 ára börn að vera án matar og drykks heilan dag. Held ég geti nú alveg tekið undir það, þau dugðu rétt fram að frímínútum krílin þegar ég var að kenna sex ára.
Í háskólanum er samfélag múslima og aðstaða fyrir þá til bæna en líka kirkja og prestur sem sinnir öllum kirkjum og vinnur í samstarfi við kirkjunar sem eru mýmargar og af öllum gerðum.
Erum búin að taka lífinu með ró í dag og vonum að verða hressari eftir helgi, Bergþóra er drullufúl því það stóð til að fara í bíó en verður að bíða þar til heilsan leyfir.
Svava
1 ummæli:
hæ hæ
Svava mín vantar ykkur ekki bara lýsi? Á ég að senda þér pakka : )?
Við erum búin að fá nýjan organista og kórastarfið fer að byrja hjá okkur, spennandi hvort að við fáum nýja félaga í vetur.
Látið ykkur batna.
Knús
Inga
Skrifa ummæli