miðvikudagur, janúar 02, 2019

2018 Annáll

Alltaf þegar ég sest niður til að skrifa annaálinn fárast ég yfir því að hafa ekki bloggað meira. En með hjálp frá myndum og dagatali tekst nú að halda flestu til haga.

Þegar ég fletti í gegnum myndirnar er eiginlega þrennt mest áberandi, vinnumyndir sem ég tek mikið af, ferðalög og svo barnabörnin, eiginlega mest barnabörnin.  og sextugsafmælið, maður minn,  hér eru myndir úr því, en það var grímuball með 99 kynlegum gestum haldið í Firði uppi á 7 hæð í huggulegum sal.  Meiri myndir hér   og hér partýið hét Gunnars....


Viktor Darri var mikið hjá okkur, bæði var mamma hans dugleg að vinna bæði hjá Símanum og svo í heimahjúkrun, og svo Kolaportið með.  Þau voru svo hjá okkur nokkrar vikur meðan þau voru milli íbúða. Svo bættust við ferðir til Danmerkur að hitta Ingvar sem nú er fluttur til hennar með sín tvö börn. Kristín Hrönn átti líka stórafmæli og hélt uppá árin 30 með partýi þar sem gamla settið mátti fljóta með.







Viktor er algjör fjörkálfur eins og myndirnar bera með sér, alltaf á fleygiferð, farinn núna í árslok að tala alveg helling, m.a. að stríða afa sínum og kalla hann Gunnar, eða Gunnaf, og vill alltaf koma mef.  Honum finnst mjög gaman að ipadinum hjá ömmu, að láta hana byggja legóturna sem hann fellir með ýmsum kúnstum, sparkar og fellir með bumbunni. Sennilega finnst honum þó mest gaman að fara í göngutúra, oftast með afa að heimsækja fuglana niðri við læk og róluvelli í nágrenninu.
Við sjáum minna af Gabríel en samt hann kom í heimsóknir, bakaði eplakökur, spilaði og fór í göngutúra.  Við buðum honum og Hilmi Breka að sjá Dýrin í hálsaskógi í janúar, en þá komst Guðmundur Pálmi ekki vegna veikinda.

Guðmundur kemur í heimsóknir, leikur með legó og bíla, hann vill helst fara í sund og leika með iPadinn. Í sumar áttum við svo góðar stundir með þeim öllum saman í sumarbústað í Öndverðarnesi.



Svo eru það ferðalögin:
Febrúar fór ég í  DILE vinnuferð til Finnlands í dásamlega fallegan en nístandi kulda.  Í apríl hitti ég svo sama hóp í Noregi og sá enn meira af upplýsingatækni í leikskólum.


Næsta ferðalag var stórt og mikið.  Þá fór ég til Bukarest í námsheimsókn í Makey evrópuverkefni. Ég skrifa um fyrstu dagana í þeirri ferð hér, þá var ég að heimsækja háskóla, fablab smiður og leikskóla.  Gunnar kom í heimsókn og við áttum góða daga, skrifa um þá hér.  En svo hittum við líka  Svein frá Njarðvík sem var með mér í söngnámi, fórum með honum, foreldrum hans í óperuna og svo með þeim og tengdafólki í svaka spa Therme.  Fórum einnig til Constanta og böðuðum okkur í Svarta hafinu.


Síðan fór ég beint fra Búkarest til Aarhus á verkefnafund meðal annars með kollegum mínum Sólveigu og Skúlínu.


Fyrst ég var komin til Danmerkur fór ég i afslöppun á kránni með heimafólki þar í nokkra daga.

Stærsta ferðalagið var í ágúst með Herði og Sillu til fjögurra ríkja í Bandaríkjunum, keyrðum mikið og sáum stórkostlega náttúru.  Skrifa um það hér. Frábært að skoða sig um í margbreytilegri og fallegri náttúru í Colarado, New Mexico, Arisona og Utha. Mjög eftirminnileg ferð, skrifa meira um hana hér.
Strax í september var næsta ferðalag og þá með Frú Láru, starfsmannafélaginu i vinnunni hjá Gunnari til Þýskalands og Austurríkis, stutt ferð en bráðskemmtileg. Skrifa um hana hér.


Við fengum líka góða gesti.  Í febrúar kom Audrey Shih og kærastinn hennar.  Hún var með mér í náminu í Leeds og er mikill áhugaljósmyndari.  Við fengum lánaðan jeppa hjá Daða og fórum hring um Reykjanesið í ósnertri mjöll og fallegu veðri.  Stoppuðum í hádegismat í Grindavík og að skoða bátana.

Í febrúar voru Anita og María á landinu, við fórum í göngutúra, í þjóðminjasafnið og uppí Hallgrímskirkju.

Ég byrjaði árið með því að fara með Möggu og Gerði í sumarbústað, áttum dásamlegan tíma svona hálft í hvoru í tilefni þess að Magga varð 50, við urðum veðurtepptar og græddum auka nótt til að hanga á náttfötunum, fara í sund, spila, kjafta og fá okkur púrtvín.
Pétur smíðaði handa mér kertastjaka á afmælinu mínu, og við Bergþóra spiladrottningarnar buðum í spil og kaffi.


Frá páskunum finn ég engar myndir nema af tertu og hamborgarahryggjum, en ef ég man rétt var ég með eitthvað af okkar börnum og systkinabörnunum í mat.
Við fórum víst í mars í sumarbústað í mars, Hörður og Silla ætluðu með en Gunnar var að verða veikur og endaði með lungnabólgu, hann endaði árið líka þannig og má greinilega passa sig á flensunum.  Hann er annars bara hress en ekkert brálæðislega kraftmikill.  Fyrri hluta árs var hann í Hjarta og lungnastöðinni í leikfimi og fór svo undir árslok í karlajóga, segir það erfitt en er greinilega ánægður þar.  
Gunnar fór í veiði norður í land með Tuma og Daða og fleirri körlum. Með Oddfellow fórum við á glæsilega árshátíð á Hótel Selfossi, en ég missti af flestu öðru eins og jólaboðinu.

Ég fór ein á Ljósanótt að þessu sinni og stoppaði bara yfir daginn, hitti ´66 hlutan af saumaklúbbnum, en okkur tókst öllum saman að heimsækja Helgu fyrir vestan í apríl.


Krakkarnir okkar eru hressir.  Bergþóra býr enn hjá okkur, hún kláraði stúdentspróf í maí og byrjaði í hagfræði í haust og gengur bara ljómandi vel miðað við hvað þetta er stíft nám.
Lilja Björg er flutt suður og leigir í Engihjallanum með Daníel og þau eiga von á dreng nú í upphafi árs. Hún kláraði MS í sálfræði frá HA síðasta haust og vinnur nú á geðsvið LÍ. 

Það var aldrei haldin veisla og útskrift Bergþóru var meðan ég var i Rúmeníu svo að í júní var slegið í allserjar útskriftarteiti fyrir MS og stúdent. 




Ég er alltaf á fleygiferð, bara dugleg í leikfiminni og næ oft þrem tímum í viku.  Syng með Samkórnu sem var bæði með vortónleika og jólatónleika, auk þess að syngja í Hörpu 1. des á a 80 ára afmælisfagnaði blandaðra kóra. Við vorum rausnarleg og fórum í æfingabúðir á Hótel Örk bæði vor og haust.  
Kór Víðistaðakirkju er líka búinn að vera mjög virkur, sungum á Lúthersafmæli, og svo allt þetta venjulega en ég gat ekki alltaf verið með vegna ferðalaga og annara anna. Þau komu öll í þorrapartý til okkar í febrúar. Við sungum með Eyþóri Inga annað árið í röð og alveg hægt að mæla með þeim skemmtikrafti.
Jón glímir við sína djöfla en býr nú með Dagbjörtu frænku Gunnars.

Pétur er hress, enn i Héðni og í Keflavík. Hjá honum kemst ekkert að nema frisbí golf og hann vann almennan flokk á íslandsmeistaramóti í frisbígolfi.  Hann gefur sér samt smá stund til að heilsa uppá okkur og rétta hjálparhönd þegar þarf.
Já við byrjuðum víst á því í sumar að mála húsið en svo bara rigndi og það er enn hálfklárað.  Það var samt stundum sól og frekar hlýtt svo það óx allt vel og eftir tvö vor þar sem ég er í burtu er illgresið næstum búið að ná yfirhöndinni.


Svo gerðum við eitt og annað skemmtilegt. Gunnar gaf mér síðustu jól námskeið hjá endurmenntun HÍ um Rocky Horror Picture show svo við fórum þrjú kvöld og lærðum eitt og annað auk þess að skemmta okkur konunglega, sérlega á sýningunni sjálfri 15. mars  sem var gjörsamlega frábær.
Auk þess sem hefur verið upptalið eru hérna að auki nokkur atriði;
27. janúar  Ellý - Með Ínu og Möggu
17. febrúar Phantom of the Opera, tónleikar með Ástu Júlíu og Ágústi
5. maí Missa Creola- Söngfélagið í Korpúlfstöðum með Ástu Júlíu
22. júlí matarboð hjá Kristján og Rhonu
10. október Blíða 100 ára, súpa hjá Ingibjörgu Vald
23. október  60 ára afmæli BHM
27. október Brunch með frænkum Gunnars að norðan
3. nóvember í mat, spil og kokteila til Gerðar og Jóns.
Nóvember vinnuferð á Grundarfjörð Makerý
10. nóv, Von mathús með Daða og Dísu, jólagjöf frá Bergþóru
11. nóvember  Langur göngutúr og Pallett með Daða og Dísu
30. nóv jólahangikjöt Menntavísindaviðs - ég söng í kvartett.
1. des  Jólahlaðborð Frú Láru og félaga uppi á höfða.
18. des, Eyþór Ingi með stelpunum, í stað Gunnars.
23. des, Þorláksmessurölt og matur á Skólabrú með Herði og Sillu.
25. des. Fjölskyldan í mat, öll börn og barnabörn.
27. des Kristján, Rhona, Steingrímur í mat.
28. des  Ása Júlía og Ágúst í mat og spil
31. des Kristín, Ingvar, Gabríel Veigar, Hrafnhildur, Baltasar, Viktor Darri, Lilja Björg, Daníel, Iðunn, Stebbi og Svava Tanja í áramótapartýi.

Systurnar með pabba í jólaboði hjá Möggu.


Allt þetta og meira til þannig að þegar farið er yfir árið þá er nú hægt að segja að við gerðum nú eitt og annað. Það er um að gera að nýta tímann og lifa lífinu núna og það er búið að plana helling sem við ætlum að gera á áriðnu 2019 sem verður vonandi gott og gæfuríkt ár.


mánudagur, september 17, 2018

Með Frú Láru í Týrol


Í september fórum við langa helgi til Týrol með starfsmannafélaginu Frú Láru.

Bækistöðvar okkar voru í Seefeld, sem er í um 1180 m hæð, með enn hærri fjöll allt um krings, svo það er þema þessa árs, að vera hátt uppi

Við flugum út á fimmtudegi og vorum lent rétt uppúr hádegi. Byrjuðum á bjór og pylsum í Enska garðinum í Munich eftir fínt flug. 


Svo uppí fjöll með rútunni á þetta lika fína hótel  Hótel Krumers Alpin Resort & Spa, sem er bara rétt við skíðalyfturnar og ábyggilega fínt að vera þar að vetri, en við vourm á rólegum tíma og fátt um manninn.  Það var notalegt í lok dags að fara í sundlaugina og svo heimsótti fólk líka Nude Sauna.  Morgunmaturinn var stórkostlegur, kannski það besta við hótelið, mjög fjölbreytt úrval, allt frá hafragraut til eggja elduðum eftir pöntun og lýsi í ofanálag.
Það fór vel um okkur og mikið grínast frá svölunum, bæði milli hæða og við þá sem voru í sundlauginni.


Á föstudeginum heimsóttum við Swarovski safnið sem kom skemmtilega á óvart, við bjuggumst við að fá vísindalega umfjöllun um hvernig kristallarnir eru búnir til, en það var eiginlega ekkert um það en aftur á móti salur eftir sal af stórfenglegum listaverkum unnum með kristöllunum. 


Svo lá leiðin til Innsbruck, við röltum um og fengum okkur snarl með skemmtilegum félögum.


Á laugardeginum var ekkert sameiginlegt prógram.  Ég skellti mér í yoga og fór svo í fótsnyrtingu. Eftir heimsókn á kökuhlaðborðið fórum við uppá fjall með fyrst lest og svo klár, nutum útsýnisins og náttúrunnar.  Þegar maður er kominn svona hátt upp minnir gróðurfarið mikið á Íslenska flóru.




Um kvöldið var svo árshátíðarkvöldverður, reyndar var eins og það væri árshátíð öll kvöldin því við vorum alltaf í mat á hótelinu í fjórréttuðu, forréttur, súpa, aðalréttur og eftirréttur.  Reyndar voru súpurnar fyndnar, alltaf í boði heit og köld súpa og við pöntuðum alltaf bæði, kalda súpan var stundum eins og þykkur ávaxta þeytingur en sítónu"súpan" var bara 7up með myntulaufi!  Annars var maturinn mjög góður en skyggði óneitanlega á að salurinn sem við sátum í öll kvöldin er með hræðilega hljóðvist svo maður var hálf ærður eftir kvöldið.

Á sunnudeginum fórum við í enn hærri hæðir þega við fórum til Garmisch-Partenkirchen og uppá Zugspize em er hæsta fjall Þýskalands.  Fyrst er farið með lest um sveitir sem fer svo inní göng og barasta beint upp fjallið. Svo er skipt yfir í kláf til að komast uppá hæsta topp.  Þarna var stórfenglegt útsýni og við heppin með veðrið. Maður fann samt óneitanlega fyrir hvað loftið er létt í háloftunum.

  Á bakaleiðinni  var stoppað fyrst i bænum Mittenwald og á næsta veitingahús, en óhætt er að mæla með að taka amk  1,5 tíma uppi á toppnum, en við rétt náðum að njóta útsýnis en ekki veitinga.
Mittenwald er svo krúttilegur bær, mikið af skreyttum húsum og göngugata full af veitingahúsum.  Reyndar voru skreytt hús allstaðar þar sem við komum.


Þessi mynd er frá næsta stoppi þar sem skipuleggjendur fengu gistiheimiliseignanda til að skipuleggja vínsmökkun.  Þar smökkuðum við mjög fín Austurísk vín og góða osta.


Í heild var þetta bráðskemmtileg ferð og við mælum alveg með að heimsækja þessar slóðir.  Hópurinn var skemmtilegur eins og alltaf, veðrið gott og vel heppnað í alla staði.

Hér eru svo allar myndirnar, nóg af fjöllum, skreyttum húsum og Swarowsky kristalslistaverkum.

föstudagur, ágúst 24, 2018

Fjögur ríki USA

Þetta ferðalag einkenndist af miklum akstri og stórfengilegri náttúru.

15. Miðvikudagur

Flugum við til Denver og skutluðum okkur beint í bílaleigubíl og keyrðum til  Econo Lodge Pueblo West , https://www.booking.com/hotel/us/hotel-south-radnor-dr-pueblo-west.is.html
Komum við í Wall Mart og birgðum okkur upp af vatn og nesti fyrir akstursdaga. Aksturinn var í myrkri og mest lítið að sjá. 202 km  

Manni verður illt í endurvinslubeininu í USA

16. Fimmtudagur

Nú var ferðinni heitið í mikla lestarferð. Við ókum til Canon City í gegnum landslag sem minnti mig á kúrekamyndir, kannski mest á þáttin The Ranch sem er á Netflix.  Við höfðum tímann fyrir okkur svo við Gunnar röltum eftir Main Street, Canon City í steikjandi hitanum. Bærinn er lítill, mikill vestrafílingur og skemmtilegar bygginar.  Skrýtið samt að sjá þarna fangelsi rétt við miðbæinn en fangelsisrekstur er víst mikill iðnaður þarna um slóðir. Svo var kominn tími til að fara í lestina, við fengum sérþjónustu fyrir Sillu og fengum öll rúnt með golfbíl að lestinni.  www.royalgorgeroute.com fer eftir djúpu og fallegu gljúfri. Við höfðum pantað lúxus pakkann og fengum 3ja rétta máltíð, sem var bara fín. Ég er samt ekki viss um að ég mæli með því, það er kannsi mikið betra að geta bara verið úti og notið útsýnisins almennilega.  Í gilinu má sjá mikið af fólki í rafting, risastóra kaktusa, stórmerkilega vatnslögn og gullgrafarasvæði. Meðal annars var okkur bent á svæði sem einhver fjölskylda á og kemur árlega og grefur upp gull um 2500 dollara virði. Síðan ókum við uppa gilbarminn en þar er þjóðgarður og aðstaða til að fara í kláf yfir gljúfrið og á zip línu til baka.  Ég lét samt duga að ganga út á brúna enda hressilegt rok og þrumuveður í nánd sem elti okkur til baka til að gista áfram í Econo Lodge Pueblo West.
2x35 mínútur





Takið eftir skýjastróknum bak við mig.

17. Föstudagur

Farið frá Pueblo, keyrt til Gunnison, og svo Montrose
Nú fór leikurinn að æsast og keyrt nær fjöllum og gilum. Yfir Monarch Pass, þar sem vegurinn liggur í yfir 3400 m hæð, karlarnir bættu um betur og fóru upp með kláf til að fá meira útsýni.  Við Silla létum þetta gott heita, sóluðum okkur og sjússuðum á súrefni í þrýstibrúsa. Gunnison er lítill og skemmtilegur bær. Samferðafólkið vildi heimsækja búð með upptoppuð kvikindi, það var svosem í lagi, en svo var allt fullt af hundum þarna inni svo ég lenti næstum í sjálfheldu og var farin að fá ofnæmi fyrir öllu þessu loðna liði.  Þá var gott að koma sér út í ferskt loftið, sem var reyndar ekki ferskt lengi því þar sem við komum okkur fyrir á bar við aðalgötuna streymdu að kaggar af öllum stærðum og gerðum sem voru að koma sér fyrir í bílasýningu sem var hluti af mikilli bæjarhátíð sem stóð fyrir dyrum. Þarna hefði ég viljað stoppa lengur.
Gistum næst í  Red Arrow Inn and Suites, í Montrose. https://www.booking.com/hotel/us/red-arrow-inn-suites.is.html Við Gunnar áttum brúðkaupsafmæli og skelltum okkur í Mexíkóskan mat til að halda uppá það,
346 km






18. Laugardagur

Keyrt frá Montrose til Durango, gegnum Silverton.

Við Gunnar vorum árrisul og fórum á Ute indjánasafn, mjög áhugavert að lesa um sögu þeirra og sjá muni.
Frá Montrose keyrðum við til Durango, gegnum Silverton og mikil fjallaskörð. Milli Durango og Silverton gengur lest, alvöru eimreið sem gengur fyrir kolum. Við vorum þarna í hádeginu og sáum hana koma og fara, lestar starfsmanninn moka kolum og lyktina og hljóðin beint í æð. Silverton er ekta vestra bær, við borðuðum í Shady Lady Saloon, mörg húsin virðast upprunaleg og önnur aðalgatan er ekki malbikuð!
í Durango gistum við á Best Western hóteli með sundlaug og komum  nógu snemma til að geta dóla í henni góða stund og notið sólarinnar, það var best.  175 km



Sunnudagur

Þá keyrðum við frá Durango til Page Arizona.  Á leiðinni stoppuðum við líka við Mesa Verde, þjóðgarð  með miklum hellaborgum indíána uppi á mikilli sléttu. Við gengum þar um í brakandi hitunum. Næsta stopp var á Four corners þar sem mætast fjögur ríki! Colorado, New Mexico, Utah og Arizona. Þar hefur verið reistur skúlptúr þar sem vinsælt er að taka myndir, en annars er ekkert þar nema eyðimörkin og sölubásar indíána.
418 km


20. Mánudagur

Þennan dag tókum við Gunnar snemma.  Hörður skutlaði okkur út að Horseshoe Bend, þar er hægt að ganga frá veginum að því þar sem Colorado River er búin að grafa skeifulega leið með miklum drangi í miðju skeifunnar. Mjög flott, og gott að ganga að meðan sólin er ekki orðin of sterk.  Áhugaverð skiltin þarna við sem leggja hart að fólki að bera með sér nóg af vatni og að vera með hatt. Við klikkuðum ekki á því og tókum flottar myndir. Annars var verkefni dagsins að akoða Grand Canyon, við North Rim.  Leiðin þangað var mjög áhugaverð, ekið er uppá mikla sléttu þar sem gróðurfarið verður allt annað en niðri í hitanum. Á sléttunni er allt grasi vaxið og vísindahjörð reikar um og ein sjoppukona vildi endilega að við færum að leita að sveppum, sem við létum þó vera.
Okkur hafði verið ráðlagt að heimsækja Grand Canyon Norðan megin, það væri less touristy.  Það var alveg rétt, en þarna hefði líka mátt vera heilan dag eða tvo, við brúnina og á leiðinni er gisting.  Gljúfrið sjálft er engu líkt, stórt og mikilfenglegt eins og nafnið gefur til kynna. Nauðsynlegt að vera með nóg pláss á minniskortinu, hatt og vatn.
Við keyrðum aðra leið til baka gegnum Kanab, kannski of langt því þá varð heimleiðin í lokin í myrkri. 444 km  Gista áfram í Page
Við Page er Antelope Canyon, við þurftum að sleppa því en það er alveg ástæða til að taka amk 1 dag enn í Page og heimsækja það. https://en.m.wikipedia.org/wiki/Antelope_Canyon


21. Þriðjudagur

Næst á dagskrá var að keyra frá Page til Moab gegnum Monument Valley og útsýni að Mexican hat.
Nú var ekið í gegnum rauðar eyðimerkur, fjöll og hæðir sorfið af vindi og vatni svo eftir standa flottar steinmyndir,  Þarna hefði mátt stoppa og vera lengur, kannski ekki besti dagurinn því það var gustur sem þýddi töluvert sandrok. Landslagið þarna er frægt úr bíómyndum, m.a. Þar  sem Forrest Gump hættir að hlaupa.  Óvænt ánægja var að detta inn á safn landnema í Utah í Fort Bluff.  Safnið er í kofum eins og landnemarnir bjuggu og sýnir líf þeirra vel.  Mér fannst gaman að sjá þetta, sérlega eftir að hafa lesið sögur Mitchener og Dana Fuller Ross um landnemana í Wagons West seríunni og meðan við ferðuðumst las ég Colorado og rifjaði upp þá sögu.
439 km  Gisting: Cozy Moab Home


22. Miðvikudagur

Núna lá leiðin bara til baka þar sem við keyrðum frá Moab til Denver, mikill akstur og við meira að segja lentum í umferðateppu!
553km

23. Fimmtudagur

Versla í Colorado Mills, Gunnar fataði sig upp með jakkaföt, buxur, skyrtur og skó. Fullt af jólagjöfum á litla og stóra stráka.  http://www.simon.com/mall/colorado-mills


24. föstudagur

Last minute shopping, skila bíl og fljúga heim.
58 km

Þetta var fín ferð, við sáum margt og nutum þess að aka og sjá allt útsýnið sem var síbreytilegt, miklir skógar, sléttur, eyðimerkur, litlir og stórir bæir, vinalegt og áhugavert fólk. Þjóðgarðaverðir, marjuanaræktandi og trukkeigandi.

Takk fyrir samveruna, aksturinn og goða ferð. Hér eru meiri myndir.