sunnudagur, nóvember 10, 2013

Englar alheimsins

Við fórum í gærkvöldi að sjá Englar alheimsins í Þjóðleikhúsinu.  Gunnar velur fyrir okkur sýningarnar og mér finnst oft gaman að fara án þess að hafa heyrt nokkuð um sýninguna og geta gengið bara út í hreina óvissuna. Ég hafði ekki heyrt neitt um þessa sýningu sem slíka en bæði lesið bókina fyrir ævalöngu og séð myndina. Meira segja farið í svokallaða Englaferð með þáverandi samstarfskonu minni Steinnunni Njálsdóttur og nemendum okkar. Það var árviss ferð hjá henni, nemendur lásu bókina og stúderuðu í íslenskunáminu og svo var farið í ferð um söguslóðir, Kleppur, Landspítalinn og hádegisverður á Grillinu þar sem Einar Már kom og talaði við nemendur og svaraði spurningum.  Ég þekki því söguna mjög vel en hafði ekki reynt að gera mér í hugarlund hvernig sviðsetningin yrði.

Leiðin sem farin er í sýningunni er mjög flott og svínvirkaði, áhorfendur sogast inn í hugarheim Páls, ramba á mörkum raunveruleikans og geðveikinnar.  Sýningin er ágeng, subbuleg og kraftmikil, svona sýning sem á eftir að lifa með manni.  Sífellt var manni komið á óvart og oft jaðrað við að vera þátttökuleikhús. Atli Rafn Sigurðarson í aðalhlutverkinu var frábær, kraftmikill, trúverðulegur. Tónlistin skipar mikivægan sess, var notuð til að draga fram hughrif, bera söguna á köflum og skapa stemmingu.

 Frábær hugmynd að nota bíómyndina sem allir þekkja og kallast á við hana í staðin fyrir að hundsa hana eða stæla.
Nú fletti ég upp dómum og sé að ég er ekki ein að vera hrifin.
http://www.leikhusid.is/Syningar/leikarid-2012-2013/syning/1199/englar-alheimsins

1 ummæli:

Steinunn Njálsdóttir sagði...

Já Svava mín, þetta er frábærleg sviðsetning-túlkun á raunveruleika/ óraunveruleika geðveikinnar. Alveg hreint framúrskarandi. Ég sat agndofa á köflum og kallaðist svo á við textann, vissi hvað koma myndi og fór með heilu setningarnar með Agli Rafni. Ég var dolfallin með Guðjóni mínum, Möggu vinkonu og Andra. Þetta er allt mér svo hjartfólgið, bókin, nemendur, verkefrnin, fjölbreyttu kennsluaðferðirnar-Englavettvangsferðirnar-Grillið-Einar Már-og leikararnir sem gátu komið, alltaf kom Ingvar Eggert Sigurðsson, og Björn Jörundur., einsu sinni var Baltasar Kormákur á leiðinni úr Skagafirði og ætlaði ´sér að ná Grillinu í hádeginu en lagði of seint af stað með handritið að heimskvikmyndinni sinni og á sama tíma var Hilmir Snær Guðnason fastur upp á húsvegg´í Keflavík með sogskálar á höndum og fótum, á sama tíma og komst því alls ekki, en vildi feginn koma. þín Steina Njáls íslenskukennarinn í Heiðarskóla