Ég átti afmæli í gær, það gerist nú víst einu sinni á ári. Gunnar vakti mig upp með morgunmat í rúmið, og fjóra pakka. Peysa, baðbombur, róman ( sem má ekki lesa fyrr en ritgerðin er búin) og rafdrifnar salt og piparkvörn, hann sagði nú að það væri alveg eins handa honum en það var sko í góðu lagi því þetta var allt svo flott. Svo fékk ég símtöl frá Huldu og Bjarti, og grilljón kveðjur á Facebook. Og Gerður sendi pakka gegnum Amazon, hún er sko orðin tæknivædd, og víst annar á leiðinni enég er alsæl með handáburðinn frá henni, ekki veitir af á svona gamlar hendur ! Við ákváðum að fara ekkert út fyrr en við fáum góða gesti í næstu viku þá verður sko farið út.
Annars leiddu öll þessi gjafakaup hans Gunnars til kostulegrar uppákomu. Hann sækir mig alltaf í tónlistarskólann og bíður yfirleitt fyrir utan þegar ég kem út. En nú síðast beið ég og beið og hrindi í alla síma og náði bara ekkert í hann. Svo ég skelli mér í strætó til að fara heim og ekki vildi betur til en að ég fór í vitlausan strætó, var alltaf að vona að hann beygði svo og færi með mig heim en hann hélt bara áfram út í vitleysuna, ég spurði samferðafólkið ráða og var ráðlagt að fara úr vagninum og taka svo tvo heim. Ég fór úr vagninum en leist ekkert á að bíða og bíða í rigningu og Gunnar kannski fótbrotinn í stiganum heima, náði mér í leigubíl og sagði leigubílstjóranum farir mínar ekki sléttar, hann var einna helst á því að karlinn væri bara sofandi! Þegar ég svo kem heim er allt slökkt og enginn bíll og.......... ég lyklalaus, hafði gleymt þeim í skrifborðinu í skólanum. Til allrar hamingju renndi Gunnar uppað þar sem ég stóð og hugsaði málið. Hann var úrlaus og símalaus, hafði spurt fólk hvenær verslunarmiðstöðin lokaði og sá að þetta yrði í lagi, endaði þar í matvöruverslun en þær eru auðvitað oft opnar lengur svo hann bara valdi lauk og epli í mestu makindum á meðan ég var í þessum óförum.
Kv
Svava
1 ummæli:
Frábært blogg og gott ef ekki bara svolítið svövulegur dagur.
Það er langt síðan ég kíkti síðast, hélt bara að þið væruð hætt að blogga eða var það facebook sem afvegaleiddi mig.
Takk fyrir bloggið.
kv. Gerður
Skrifa ummæli