þriðjudagur, janúar 04, 2022

2021 Jólin

 Aðventan þetta árið var aðeins öðruvísi en venjulega. Jólaboðin á báðum vinnustöðum okkar voru felld niður og fá jólaboð voru haldin. Leikfimihópurinn minn hittist snemma í desember og gengum um bæinn og Hellisgerði í ljósadýrðinni þar. 


Við keyptum aftur jólatré af úr Borgarfirði, falleg stór fura keyrð beint heim til okkar. Jólaskreytingar úti urðu eitthvað litlar. Í fyrra keyptum við net á runnana fyrir utan en í sumar voru þeir fjarlægðir svo við vorum hálf ráðalaus með þetta eitthvað en vöfðum einu neti um öspina.



Á aðfangadag vorum við hjá Lilju Björgu og hennar fjölskyldu. Það er alltaf stemming að vera með litla fólkinu á jólunum. Kristófer opnaði reyndar bara einn pakka með gröfum frá afa sínum og var svo alsæll með þær að ákveðið var að vera ekkert að raska því og geyma aðra pakka þangað til síðar. Við borðuðum rækjukokteil og hamborgarahrygg og áttum góða stund.




Á jóladag átti allt liðið okkar að koma í heimsókn eins og venjulega en Lilja fékk þær fréttir að hún hefði verið útsett fyrir covid og væri í einangrun til 26. þá færi hún í covid próf. Við vorum langt komin með matarundirbúininginn, en kalkúnninn var í pækli og annað var bara pakkað saman og sett út á pall í kuldann þar.  Þá áttum við bara rólegheitadag, suðum hangikjötið okkar og spiluðum.



Lilja hringdi svo seinni partinn á annan í jólum búin að fá neikvætt svar.  Þá hringdum við í alla, og þau komust öll með engum fyrirvara svo fuglinn flaug í ofninn og annað sett á fullt. 

Næsta dag var ég orðin kvefuð og það bara ágerðist svo milli hátíða var ég mest að snýta mér og sofa.

Ég lét mig hafa það að fara í Öndverðarnesið í fínt hús sem við höfðum leigt og vorum á gamlárskvöldi og nýársdag með Möggu afmælisbarni og Gerði og þeirra fólki.  Við spiluðum mikið og vorum með partý úti á palli í blíðskaparveðri. Skemmtileg tilbreyting og góð hugmynd að vera í sveitinni um áramót.

Hér er úrval af myndum.


Engin ummæli: