Síður

sunnudagur, september 21, 2014

París - Versalir

Sunnudagur 21. september fjórði og eiginlega síðasti dagurinn í þessari ferð.
Við sváfum vel og skelltum okkur svo til Versala með lestinni. Veðrið hafði breyst, kólnað og smá skúrir.
Versalir eru rosa flott höll og hvílíkur íburður, ekki má heldur gleynma því sem ég komst að að Versalir eru líka bær, með meira að sjá, sem við reyndar gerðum ekki. Hér eru nokkrar myndir :





Eitt það besta við heimsókn í Versali var að það voru bekkir í eiginlega hverju herbergi og svo fínn audioguide.
Veskið hans Gunnars hvarf á heimleiðinni, ömurlega eliðinlegt en shit happens. Hér er hann í lestinni sem var skreytt í anda Loðvíks!
Hvíldum okkur og fórum svo með síðustu evrurnar út að borða og njóta síðustu tímanna :)

næsta dag eða réttara sagt þá um nóttina farið heim, gott að vera með hóp og fá rútu út á völl, verra að tékkinn röðin tók klukkutíma, eins gott að það er ekki mikið um að vera eftir security á Charles deGaul.

Flott ferð, maður keyrir sig samt hressilega áfram í svona stuttum ferðum, það átti kannski þátt í því að ég kvefaðist illa í flugvélinni og lá með hita og leiðindi í tvo daga.

Annað sem ég hef verið hugsi eftir þessa ferð er mismunandi hegðun hópa, ég er vön svona hjarðhegðun þar sem allri vilja alltaf vera saman og ferðir oft einkennst að því. En þessi hópur var bara sáttur að hittast í einni ferð og einum kvöldverð og svo bara fólk að dúlla sér í sínum takti þess á milli. Með smá rannsókarmennsku hef ég komist að því að svona eer þetta oft hjá karlavinnustöðum, eiginlega bara skemmtileg tilbreyting. Þakka því samferðafólki samferðina og góðar stundir.

laugardagur, september 20, 2014

París - rólegheit í hitanum 3

Laugardagur 20. september, þriðji dagurinn í þessari ferð.
Nú var  ákváðið að sjá minnsta kosti Louvre að utan þó við nenntum ekki að fara inn í það.


Tókum týpískar túristamyndir og sátum góða stund í sólbaði í Tuileries görðunum, algjör snilld þar að hafa lausa stóla út um allan garð svo fólk getur komið sér fyrir að vild, við sátum við gosbrunn og horfðum á gullfiskana svamla.



Eftir notalegan hádegisverð á enn einu götuhorninu gengum við að Les Halles sem er neðanjarðar verslunarmiðstöð, undarlegt fyrirbæri, tómir ranghalar en fínt HM þar sem keypt var slatti aðallega á barnabörn ;)
um kvöldið var svo sameiginlegur kvöldverður mér tókst að klúðra skipulagningunni og fór af stað í lestinni án heimilisfangsins og endaði að við þurftum að stoppa á öðru veitingahúsi til að komast í wifi og finna heimilisfangið. það gekk upp og kvöldið var fínt á Chez Paul skammt frá Bastillunni. Þar fengum við frábæra foi gras, glæsilega nautasteik og profiteroles.
Svo leigari heim, þá sér maður meira en í lestinni, enda var ég kannski að byrja að fá nóg af þeim í bili.

föstudagur, september 19, 2014

París - skoðuð í bak og fyrir 2

Föstudagur 19. september, dagur 2 af þessari Parísarferð.
Nú var haldið í skoðunarferð með öllum hópnum og henni Kristínu Parísardömu hún veit fullt og segir skemmtilega frá allavega talar um hluti sem hún veit að íslenskir ferðamenn hafa áhuga á. Við keyrðum um allt  fengum fullt af upplýsingum og ráðum.

Þessi mynd er tekið við Eiffel turninn er blessaðir sölumennirnir eru við helstu staði með sitt fátæklega vöruúrval sem samstendur af turnum í ýmsum stærðum, slæður, veskispeglar og ísskápaseglar, greyin....
Svo stukkum við út því við ætluðum að spóka okkur og fara á nýtímalistasafn. Fyrst röltum við um, hádegisverður úti þar sem við horfðum á túristana, unglingana, nunnur, skriftstofufólk og allskonar á fleygiferð.Nútímalistasafnið heitir Centre Georges Pompidou það er í nýrri byggingur á Parísarmælikvarða, með rúllustigum utaná í glertúbum og sker sig út úr borgarmyndinni eins og við sáum hana úr Montparnasse turninum.

Efst uppi er rosaflottur veitingastaður, sem við fengum okkur drykk í steikjandi hitanum. Þangað upp er hægt að fara upp ókeypis og sjá útsýnið.

Innihaldið er samt alveg frábært, við völdum úr tvær sýningar af mk. 4 sem voru í gangi, ein tímabundin  safnsýning Martial Raysse við höfðum aldrei heyrt um hann áður en verkin hans eru allskonar, videoverk unnin með vinum sínum, ma. Erró, málverk, neonlæjósaverk og alls kyns skemmtilegheit. Ég var að segja við Gunnar að að mörgu leyti hef ég meira gaman af nútímalist, hún lætur mann undrast, hugsa, hneyskslast og spá hvert listamaðurinn er eiginlega að fara. Líklega gerðu gömlu meistararnir það í sínu samhengi á sínum tíma, þó ég fatti það ekki núna.

Hin  sýningin var  Saga, listir, arkitektúr og hönnun frá 1980 til nú sem verður uppi til 2016. Mjög ágeng sýning, áhugaverð mikið um stríð og hörmungar, m.a. stoppuðum við lengi að horfa að heimildamynd um 9/11.
Eftir allt þetta var klukkan orðin margt, við dauðuppgefin, fórum í metróið í búð og svo með smá picknick uppá hótel.

fimmtudagur, september 18, 2014

París - aftur og dásamleg-1

18. september fórum við í stutta ferð til Parísar með FIT- vinnufélögum Gunnars. Við gistum á Holiday Inn í 6. hverfi, rétt við Montparnasse. Ósköp venjulegt og notalegt Holiday Inn, en afskapega vel staðsett með St.Placide lestarstöðina næstum á þröskuldinum.
Fórum í næturflugi svo lent var snemma um morguninn. Við röltum næstu götur, fórum í morgunmat á hefðbundið franskt kaffihús.
Á næsta borði við okkur sat maður í bol og gallabuxum frekar venjulegur. Eftir smá stund settist hjá honum kona falleg, dökkhærð í síðu rauðu pilsi og glæsileg í alla staði. Það er oft sagt að París sé borg ástarinnar og það var alveg greinilegt að ástin var í loftinu. Þau kysstust, og strukust og lögði vanga saman dreymin á svip.
Sígaunaprinsessan og fótboltabullan hittust á kaffi húsinu.
Hún var með hring
Hann ekki. 
Á sama tíma steðjaði inn að barnum önnur falleg kona, há og glæsileg kyssti barþjóninn á báðar kinnar og pantaði kaffi. skommu síðar kemur karl, hár, ekki eins myndarlegur. Hann  daðraði mikið,  hún smá, svo fóru þau í leigubíl hún afturí og hann ók.


Eftir kaffihúsið duttum við inn í HM með deild fyrir myndarlegu konurnar og ég gat keypt mér fallega skyrtu. Svo skunduðum við upp í Montparnasse turninn, þar fer lyfta með mann á 38 sekúndum fyrir 15 evrur upp á 56 hæð, þar er svona túristadót, gagnvirkir skjáir, minjagripir og veitingasala. En það sem meira máli skiptir gluggar í 360° svo hægt er að sjá yfir alla borgina. Við tókum fullt af myndum, gengum upp líka á 59 hæð upp á þakið.



Líklegra er bara sniðugra að fara upp í þennan turn og fá þá svona flott útsýni yfir Eiffel Turninn.

Eftir þetta ævintýri gátum við tékkað okkur inn og lagt okkur. Svo farið út að borða rétt hinum megin við hornið, fékk pasta með laxi og hvítt í glas úti á gangstétt í dásamlegum hita og fjörugu mannlífi.

fimmtudagur, júlí 24, 2014

Heim til Hóla

Jæja, svo kom þriðjudagur, Gunnar skutlaði okkur hinum til Allyson og Tuma á Hólum og bílnum á verkstæði. Gunnar fór svo áfram með Tuma að gera úttekt á löxum í Refasveit með rafveiði.

Bergþóra var alsæl að vera komin í netsamband og var á heimleið því hún hafði ekki áhuga á að gista með okkur í tjaldi síðustu nóttina. Henni tókst að fá kunningja til að skutla sér á rútu og heim í vinnuna og vinina.
Í ljós kom að allt var bráðnað saman í kringum hjólaleguna og panta þurfti meiri varahluti í partasölu frá Akureyri sem myndu koma næsta dag.  Gunnar fór því aftur að veiða með Tuma og við hin héldum áfram að dunda okkur.

Gabríel var heppinn því hann hitti fullt af krökkum til að leika við, bæði gesti og sem búa á staðnum. Hann var alsæll með það og útiveruna, hundinn hana Ösku, tjaldið og ipadinn. Svo fórum við í sund og margar gönguferðir með Allyson sem dekraði við hann á allan hátt eins og henni og Tuma einum er lagið. Fljótt myndaðist hefð að Tumi fór með Gabríel í göngu á kvöldin að lesa á alla legsteinana í kirkjugarðinum að kröfu Gabríels.
Jæja nú var kominn fimmtudagur og parturinn einhversstaðar í Skagafirði að okkur var sagt svo við ákváðum að kíkja á Vesturfarasafnið á Hofsósi og inná Krók með Marín sem var á leið á Akureyri. Safnið er skemmtilegt en góða veðrið togaði mig fljótt út, stoppuðum líka í Gröf þar sem þjóðminjasafnið hefur gert upp miðaldakirkju.

Jæja næsti kafli í bílamálum var að verkstæðið hringdi til að segja okkur að parturinn væri víst enn á Akureyri og hvort við gætum fengið einhvern til að sækja hann. Ekki náðist í Lilju svo Gunnar fékk bílinn hjá Tuma og Allyson og ók af stað. Svo náðist í Lilju og hún sótti partinn og lagði af stað til Siglufjarðar, smá misskilningur í gangi!! Gunnar heyrði í henni við Dalvík svo hún snéri við, parturinn komst á Krókinn og var settur undir. Við borðuðum svo með gestgjöfum og meiri gestum, að þessu sinni spaghetti og hakk, en höfðum annars verið í fínu yfirlæti í kjúklingasúpu og steiktum fisk
Þegar svo bíllinn var búinn,eða þannig, ekki tókst að taka hann í sundur og komast að legunni, svo allt draslið var sett undir í einu lagi í þeim tilgangi að "koma okkur úr dalnum" eins og Rúnar á verkstæði KS orðaði það. Svo brunuðum við af stað og komum í Hafnarfjörðinn um miðnættið svo Gabríel gisti og fór svo til pabba síns næsta dag.

Við verðum Allyson og Tuma ævinlega þakklát fyrir að taka svona vel á móti okkur og bjarga okkur í þessum bíla vandræðum, tveggja tíma heimsókn varð að tveggja nátta dvöl.

Myndir hér.











þriðjudagur, júlí 22, 2014

Norðurferð- Sigríðarstaðir

Föstudaginn 18. júlí fórum við norður á Sigríðarstaði með Bergþóru og Gabríel. 
Við sóttum Bergþóru á Akureyri og fórum svo Lágeheiðina, bíllinn var ein drulluhrúga enda allt blautt, en lika skaflar sem gnæfðu yfir veginn svo það var tilvalið að stoppa og fara í snjókast. 

Á Sigríðarstöðum er alltaf jafn gott að vera. Við spiluðum, RISK og Monoply gengum og höfðum það gott í stilltu þokuveðri og smá úða á köflum.  Í göngutúrunum hittum við hesta, tíndum ber, fældum upp jaðrakan og endur, fuglarnir eru alltaf jafn áberandi í dalnum, enda heyrist ekkert annað. Svo koma rollurnar daglega að klóra sér á gamalli rakstrarvél sem brýðir hlaðið á Sigríðarstöðum, Gabríel til mikillar gleði. Bergþóru tókst að koma okkur í 1,2,3,4,5 dimma limma limm, feluleik í blautu grasi og Þrír hlutir snertir fyrir mér, sem er einhver útgáfa af Fallin spýta.  Svo lituðum við Gabríel næstum heila lítabók af Angry Birds.

Á laugardaginn fórum við á Hofsós að veiða á bryggjunni og prófa nýju sundlaugina þar. Við vorum ekki með miklar veiðigræjur en það kom ekki í veg fyrir að Gunnar halaði inn 5 þorskum sem ég flakaði á staðnum og voru svo snæddir næstu daga. Gunnar kann greinilega handtökin við þetta og var ekki bara að berja vatnið eins og við hin vorum full sátt við. Gabríel skildi ekkert í ömmu sinni sem ætlaði að skera fiskana, þangað til hann áttaði sig á að það átti að borða þá. 

Sundlaugin er fín en í þetta skiptið full af ættarmóti, pottuirnn ekkert mjög stór og frekar heitur og laugin og heit til að vera það í rólegheitum.   
Bíllinn hafði verið með einhver leiðindi daginn áður og skalf og urraði svo Gunnar fór á Krókinn meðan við syntum og kom til baka með þær fréttir að hjólalega væri farin, búið væri að panta nýja og við mættum koma með bílinn í 2ja tíma viðgerð á þriðjudagsmorgni.
Við héldum því kyrru fyrir á Sigríðarstöðum, laumuðumst einu sinni í sund á Sólgörðum, sú er eins og risastór heitur pottur og mikið afslappandi að dóla í, svo lét sú gula aðeins sjá sig svo það var velheppnuð heimsókn nema mér tókst að gleymna bæði sundgleraugum og sólgleraugum ;(

þriðjudagur, júlí 15, 2014

Priestess of the white.

Ég les orðið skammarlega lítið, en hlusta á hljóðbækur meðan ég ber út blaðið. Í morgun kláraði ég Priestess of the White  eftir Trudi Caravan. Alveg ágæt, kannski bestu meðmælin að ég er að hugsa um að kaupa næstu bók. Þær eru svona ævintýrabækur með göldrum og gerast í skáldaðri veröld.

sunnudagur, júlí 13, 2014

Leiðsögn og búðarráp og sund

Magga á eftir að hlægja ;) en það var eitthvað lítið í skápunum í morgun svo við ákváðum að drífa okkur í morgunmat í IKEA, mælum með því, gott og hræbillegt.
Svo fórum við í Grasagarðinn í Laugardal, þar var boðið upp á leiðsögn um tré og blómstrandi runna. Við urðum mikils vísari, vitum fullt nú um kvisti, reyni og sírenur. Stóra umræðuefnið er nú hvort við eigum að klippa stóru kvistana fyrir framan eldhúsgluggann. Kíktum líka í Kaffi Flóru í köku og súpu.
Tókum svo smá búðarrúnt, ELKÓ, Húsasmiðjuna og Nettó, keyptum ekki margt, jú fékk muffinsform í stil við stellið mitt og fyrirtaks vatnsflösku.
Svo sund, mér finnst gaman að prófa nýjar sundlaugar svo nú fórum við í Álftaneslaug. Hún er flott, hentar sérlega vel svona gaurum, með öldulaug og hárri rennibraut. Fínir heitir pottar , stór plús við þá hvað þeir eru djúpir svo það flýtur yfir axlir á mér þegar ég sit.
Nú er það borgari og lokaleikur HM í knattspyrnu í Rio.
Meiri myndir

laugardagur, júlí 12, 2014

Gengið um Álftanesið

Keyptum okkur bók með 25 gönguleiðum á höfuðborgarsvæðinu.  Fórum í gönguferð um Álftanesið mjög skemmtileg leið. Hittum kanínur, skrautlega hana, hesta, kolbrjálaðar kríur, vælandi veiðibjöllur, skelkaðar sandlóur. tignarlega tjalda, spóa, lóur og hrossagauk.
Svo er gengið hjá varðturni úr stríðinu, forvitnilegum steypustykkjum, flotbryggjum á þurru landi og síðadt en ekki síst um hlaðið á Bessastöðum.  Bókin segir 6,3 km. tók okkur vel á þriðja tíma enda ekki farið  hratt yfir. Gunnar endaði á smá rúnt með Krumma sem keyrir strætó um nesið.

Að lokum fórum við á BanKúnn nýjan tælenskan stað í Hafnarfirði með ágætum mat ig afleitum karókísöng. Ætla að stinga upp á því að annar kórinn minn hafi haustpartí þarna.

Myndir

mánudagur, júní 30, 2014

Komin til Ítalíu :)

Laugardagur 7. júní
Við lentum í Milano í sitthvoru lagi, ég var að koma frá Helsinki af ráðstefnu og flaug í gegnum Kaupmannahöfn með Norwegian og svo EasyJet, en Gunnar kom beint frá KEF með WOW air.  Við sóttum bílinn og Gunnar hitti þá fyrsta ítalan sem var ekki stereotypa, hann sagðist ekki horfa á fótbolta og ekki drekka vín því hann væri intelligent!
Í Mílanó var steikjandi hiti og við því drullufegin að litli bílinn væri með þrusugóða loftkælingu. Satnavið virkaði fínt o fór með okkur til gestgjafanna í Pavia, reyndar ekki beint því þau búa við svo nýtt heimilisfang að þau gáfu okkur næstu götu . Þau eru frábært fólk, hann frá Pavia og hún frá Indonesíu. https://www.couchsurfing.org/people/davide.vecchio/

Við gistum þar í hálfkláraði en notalegri íbúð með góðu rúmi. Þau buðu okkur í góðan kvöldmat, ítalskt bruschetta og svo grjónarétt frá Indonesiu.

Pavia

Sunnudagur 8, júní Pavia með Maicol

Svo áttum við góðan dag með Maicol sem deildi um stund með mér skrifstofu í Leeds og fór með mér á kórtónleika því hann syngur líka í kór.

Hann hitti okkur í bænum og leiðsagði okkur um allt í Pavia um kirkjur og ...kastala, þröngar götur með steinum. 
Svo var einhver keppni með róðri, bogaskyttum og fálkum sem var gaman að fylgjast með og fólkinu. Fullt af myndum hér.

Hann fór með okkur í lunch, sem í okkar huga er kannski salat eða samloka en nei það var fimm rétta með antipasti, primo, secondo, dolce og kaffi. 

Veðrið er rosalega heitt og ég spæni upp tissjú pökkum við að þurrka af mér svitann, leita að skugga við hvert tækifæri og Gunnar bara hlær að mér.

Pó og Pilgrim Hótel

Mánudagur 9. júní Pavia til Cremona
Við kvöddum gestgjafan okkar í Pavia og keyrðum til Cremona, þar fengum við okkur göngutúr niður við Po í rosalegum hita.  Það átti stóran þátt í hvert við fórum þessa fyrri viku að Gunnar man alltaf eftir því að hafa lesið og lært um það 12 ára í landafræðinni um landbúnaðinn á Pó slettunni, svo við vorum í svoleiðis Pílagrímaför, kíkja á Pó og landbúnaðinn.

Hér eru allar myndirnar

Annað sem Gunnar hefur áhuga á í útlöndum er að skoða kirkjugarða og þarna komst hann í feitt, keyrðum fram á nokkra svona grafreiti. Ég er aðeins búin að skoða um dauða, jarðarfarir og grafreiti í Ítalíu og sá á einum stað að ekki er algengt að brenna fólk, kaþólska kirkjan er víst á móti því. Svo þá skil ég ekki þessa litlu ramma. Þessi segir í bloggi frá öllu ferlinu svolítið með gestsauga því hún er frá USA þar segirhún "buried the cheap way – in a vault. These vaults are very common in cemeteries in some parts of Italy, where space is at a premium and being buried in the ground therefore very expensive. " okkur fannst þetta nú ekki líta neitt fátæklega út en líklega útskýra jarðargæðin þessa siði þarna, fermetrunum er betur varið í maíisrækt en undir kirkjugarða. Allavega við sáum þónokkuð af svona grafhýsum.

Svo fundum við gistinguna okkar Pilgrim Hotel við Strada di Provincale, tók smá stund að átta sig á að það er auðvitað bara þjóðvegur ;) Allavega hótelið er í smá þorpi Cicognolo, sem er bara nokkrar götur 961 íbúi og ég get ekki betur séð að þar sé bara einn veitingastaður, allavega á google kortum . Það var ótrúleg upplifun, hótel fullt af marmara og kristalljósakrónum, skjannahvítum handklæðum, en..... engum gestum nema okkur ! Alveg satt, við sáum enga aðra gesti meðan við vorum þarna en 4 starfsmenn. Risastórt bílastæði og bara okkar bíll þar og þrír aðrir líklega frá starfsmönnum.

Við dressuðum okkur upp til að fara í kvöldmat og báðum dömuna í móttökunni til að benda á eitthvað, hún sagði einn veitingastað vera opinn og teiknaði fyrir okkur uppdrátt og fór með okkur út til að vísa okkur til vegar.
 Við fórum á Osteria de l'Umbrelèer. (fær flottar umsagnir á Tripadvisor) og hvílík upplifun, alvöru borðbúnaður, tauservéttur og dúkar og eigandin sjálfur í salnum.
Við fengum frábært antipasti, Tortelli di zucca al burro e salvia,Það var uppáhaldið okkar, pasta sem við þekkjum sem ravioli fyllt með graskeri, kryddað með sinnepssultu og borið með bræddu smjöri með salvíu og parmasean osti.
Hér er uppskrift sem ég ætla að prófa við tækifæri  Við fengum líka í secundo asna, hægeldaðan í brúnni sósu mjög góðri og svo bauð hann okkur dásemlega osta og dessertvín og kökur, torrone.... einskonar þykkur marengs með pistasíuhnetum, ég fann nokkrar uppskriftir hér (sjá neðar) og mun prófa við tækifæri, kannski líka láta fljóta með að hann Diego varð bara hálfmóðgaður þegar ég bar þetta saman við Turkish delights og sagði þetta sko ekki vera líkt!
http://italianfood.about.com/od/tastysweettreats/r/blr1119.htm
http://candy.about.com/od/nougatmarzipancandy/r/honeynougat.htm
http://www.delallo.com/recipes/torrone-italian-nougat-candy
.

Cremona til Mantova,

Þriðjudagur  10. júni Cremona til Mantova.

Við fengum fyrirtaks morgunverð á marmarahótelinu, reyndar skrýtið að sitja tvö í risastórum sal og með þrjá starfsmennt til taks.

Drifum okkur svo af stað. Keyrðum sveitavegi og útidúra og skoðuðum akra og grafhýsi. Akrarnir eru aðallega maíis og hveiti og eitthvað annaðsem við erum nú að giska á að séu grasker.

Við stoppuðum í Grazie einhverjum 10 k, fyrir utan Mantova þar sem meiningin var að fara í siglingu og skoða fugla og náttúru, fórum niður að ánni og þóttumst fá upplýsingar um að báturinn færði 14:30 svo við skelltum okkur í hádegismat í bænum, athyglisvert þar að þar voru ekki matseðlar, þjónustan ruddi uppúr sér hvað væri í boði á hraðri ítölsku og við þóttumst geta bjargað okkur, en ég endaði með fullan disk af hrísgrjónum með smá brúnuðu hakki úti í og Gunnar fékk eitthvað álíka óspennandi. Þegar við komum aftur að ánni á réttum tíma var engan bát að sjá og nú þóttist sjoppueigandinn sem áður hafði gefið upplýsingar ekkert vita.
Þessi staður og þessi mynd mun þó líklega alltaf keikja á minningunni um hvað það var heitt!!


Við skunduðum því til Mantúa, eða Mantova eins og ítalir skrifa það. Þar gistum við á hóteli í miðbænum Hotel dei Ganzaga  og tókum langan heitan göngutúr eftir árbakkanum með ótrúlegum fjölda skokkara og hjólreiðafólks.

Eftir göngutúrinn vorum við þreytt og fengum okkur bara ávexti og snakk og horfðum á bíómynd í tölvunni.

Mantova til Vicenza

Miðvikudagur 11. júní  Mantova til Vicenza
Byrjuðum daginn á að þramma um og skoða allan kastalann í Mantova heilmikið mannvirki með 500 herbergjum og fullt af freskum og listaverkum úr kirkjum úr nágrenninu sem hafði verið lokað fyrr á öldum.

Stoppuðum líka á torginu og fengum okkur fyrsta Spritzerinn af mörgum í þessari ferð, en það er drykkur út ítölskum bitter sem heitir Aperol , í hann fer svo freyðivín og sódavatn, rosalega appelsínugulur og flottur sumardrykkur.

Síðan ókum við gegnum vínakra og maísbreiðut til Vincenza. Þar gistum við í Hótel Viktoria  í útjaðri borgarinnar sem valið var vegna þess að þar var sundlaug, það var dásamlegt að skella sér í kalda laug og dorma svo á bakkanum. Borðuðum svo á hótelinu sem var ekkert sérstakt.


Meiri myndir

Vicenza til Verona

Fimmtudagur  12. júní

Fórum inn í borgina og skoðuðum  leikhús í Vicenza, Teatro Olimpico þar sem merkilegast var sviðsmynd í þrívídd, heil gata og látið líta svo út að maður horfi inn eftir henni, heilmikil pæling í fjarlægðum og sjónarhornum.

Síðan aðeins út í hitann aftur og þá á listasafn Museo Palladio með gömlum listaverkum og svo nýjum þar sem listamaðurinn Nicola Samori tekur gömul motív eða kannski bara gömul listaverk og afskræmir þau eða endurtúlkar. Mér SP fannst það stórmerkilegt því á Ítalíu sér maður ekki mikið af nútímalist, ekkert um að nýjir skúlptúrar leynist á götuhornum í bland við það gamla, nei það er greinilega ekki í tísku eins og t.d. ég hef séð víða í Englandi.  Bara haldið á fullu í allt það gamla, tókum lika eftir því að neonljós sjást hvergi, jú nema á apótekunum, einn hógvær grænn kross.

Röltum um borgina sem að miklum hluta er hannaður af Palladio enduðum á torgi Fylgdumst með þegar markaðurin var tekinn niður og fengum okkur svo hvítvínsglas og laxasamloku eins og "Turen går til NordItalien" mælir með.

Komum í seinni partinn til Verona gistum hjá Couchsurfing gestgjöfunum Mariagrazia og Pattista. Við höfum ekki mikla reynslu að vera gestir, bara gestgjafar, en þetta var bara ánægjuleg reynsla. Þau búa á tveim hæðum, ekki með loftkælingu en lánuðu okkur viftu svo ég gat sofið í steikjandi hitanum sem var. Við fengum herbergi heimasætunar til að gista í og notalegan skammt af samveru. Mariagrazia bauð uppá kvöldmat, bruchetta, stórt og mikið salat og heimagerðan ís úr heimagerðri jógurt, borin fram með sultuðum chetnuts, alveg dísaætar og góðar, mikð betri en ristaðar. Hún er með eldavél í bílskúrnum, sumareldhús svo að eldamennska bæti ekki við hitan inni sem nægur er fyrir á sumrin.

Hjá þeim þurfti að passa upp á köttinn Cai Lippi, kolsvartur ljúflingur að hann sleppi ekki út. Húsið er fullt af hlutum frá ferðalögum og meira segja tekið á móti manni við útidyrnar með íslenskri kveðju en þau heimsóttu Ísland fyrir nokkrum árum sem líklega hefur haft einhver áhrif á að þau samþykktu beiðnina okkar en kannski líka það að þau eru greinilega mjög dugleg að taka á móti gestum.