mánudagur, desember 16, 2024

Veikindaferð í sólina

 Í desember fórum við í ferð sem fer í annála sem slæm ferð eða sannkölluð veikindarferð.  Það sem átti að vera endurtekning á frábærri ferð fyrir tveir árum síðar stóðst ekki alveg undir væntingum.  Pétur fór með okkur til Gran Canary og við vorum á Aparthotels Don Pedro.  Gunnar fór að finna fyrir óþægindum strax í flugvélinni en bjóst nú bara við að hrista það af sér.  

Vikan byrjaði vel, ég vann á morgnana, við lágum í sólbaði og notuðum ískalda sundlaugina, í seinni partinn spiluðum við á svölunum og fundum góða veitingastaði á kvöldin. Við Pétur fórum einu sinni á ströndina, en þá var bara uppi rautt flagg og mikill vindur og öldugangur svo við börðumst bara við öldurnar í smá stund.

Gunnar dró okkur á söngstund á barnum Why Not Lago þar sem við sungum María, María og Kötukvæði með skemmtilegum kerlingum og harmonikkuleikara.  Oftast borðuðum við í eða kringum Yumbo center, og eitt kvöldið eftir góða borgara duttum við í smá stuð og karaóke.

Á laugardegi (dagur 5) fórum við með rútu til Las Palmas á fótboltaleik, Las Palmas og gestirnir Real Valladolid frá norður spáni, 2:1 fyrir heimamönnum.  Það var mikið fjör á vellinnum og haf af gulklæddum gestum, við kíktum aðeins í mallið, löbbuðum í gegnum bæinn og jólamarkaði og tókum svo rútuna heim.


Eftir fótboltaferðina varð Gunnar bara virkilega veikur svo við fórum til læknis á mánudeginum (dagur 6) þar sem hann var greinilega kominn með þetta í lungun. Hann fékk fína þjónustu og lyfseðil og greiddi mjög lítið fyrir lyfin.

Þá var það undir okkur Pétri komið að skoða bæinn og færa sjúklíngnum bjargir.  Ekki vissi svo betur til en að á degi 11 var ég líka orðin veik og átti slæma þrjá daga. Þegar þetta er ritað á degi 13 er ég nægilega hress svo við Gunnar gátum farið út að borða í fína steik. Hann tók reyndar rútuna til Puerto Rico í Mogan Mall í klippingu og búðaflakk enda komin með nettan "cabin fever"  Pétur er búinn að vera frábær, hlaupandi í búðir og apótek fyrir okkur mörgum sinnum á dag, en hefur samt náð að sleikja vel sólina, klára að lesa Hobbitann og kíkja aðeins út á lífið. 

Hótelið er lítið íbúðahótel í hring, við horfum yfir til nágranna okkar og heilsumst, nokkrir eru búnir að skreyta hjá sér með jóladúkum, jólastjörnum og seríum og þýsku hjónin með tengdasonin við hliðina á okkur hafa græjað vínglös og almennilegar kaffikrúsir sem hótelið býður ekki uppá.

Eflaust hefur kuldinn ekki hjálpað okkur að halda heilsu, en næst þegar við förum á þessar slóðir munum við taka með okkur góða sokka og náttföt, og svo er líka gott að hafa vit á því að biðja um auka teppi ef þarf. 

Hér eru allar myndirnar

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Leitt að heyra það er svo svekkjandi að lenda í veikindum í fríinu sínu.