Síður

sunnudagur, september 23, 2007


á myndinni er Bergþóra að fara í skólann og Channel fyrir aftan hana.

...
Núna þegar lífið er allt að komast í fastar skorður verður einhvernveginn minna fréttnæmt frá að segja. Gunnar fór með Bergþóru og Channel í bíó í gær og ég rölti um miðbæinn á meðan. Það er alveg greinilegt að hér eins og heima er það aðaltómstundaiðja fólks um helgar að versla, allt troðfullt af fólki. Keypti einn bol, er orðin svo aðhaldssöm í peningamálum.
...

Í skólanum hef ég mest verið með nokkrum konum, Miriam frá Mexico, Sumin Indversk/kananda/UK, Sandhya frá Indlandi, Kate héðan og Islaura frá Kúbu. Eigum svo sem ekkert sameiginlegt nema það að vera að reyna að fóta okkur í ma námi við kennaradeildina.
...
Hitti í fyrsta sinn mann sem ekki vissi hvar Ísland er, sá var frá Nigeríu. Aðalkennararnir mínir hafa báðir komið til Íslands og vildu vita hvort ég þekkti Björk og færi oft í BláaLónið :) eða þannig.

...
Við Gunnar dundum okkur þessa dagana að lesa uppskriftir og elda holla grænmetisrétti aðalega úr Hagkaupsbókinni, gerðum um síðustu helgi einn sem heitir einfaldur baunaréttur eða eitthvað álíka, svo sem auðvelt að gera hann en mörg hráefni eins og sést í picasaalbúminu. Svo suðum við linsubaunir og bjuggum til agalega góð buff, en suðum svo mikið af baunum að það verða linsubaunir í öll mál.

þriðjudagur, september 18, 2007

Skólinn byrjaður og fréttamenn út um allt ?

Hélt þetta væri bara vaninn hér en sá svo í Yorkshire Evening Post að þeir voru að sitja fyrir skólasystur minni henni Chelsea kærustunni hans Harry prins, hún er víst að taka MA í lögum hér við skólann.

Hausinn að springa af upplýsingum enda ég ekki í neinni æfingu. Búin að hitta suma kennarana sem verða mest með okkur. Þeir hljóma viðræðugóðir og fínir. Enn er verið að innvikla okkur í þetta nýja líf og þjónustan er alveg til fyrirmyndar. Eina sem veldur mér vonbrigðum er að í mínum kúrs þar sem við erum bara 8 enn sem komið er erum við bara tvö með einhverja kennslureynslu, ég hafði einmitt hlakkað til að ræða við kennara víðsvegar frá með allskonar reynslu. Reyndar er meira af reyndum kennurum sem eru að stúdera enskukennlu, sérkennslu og stjórnun en það eru vinsælustu kúrsarnir, við erum 75 sem erum að fara í mastersnám og diplómur við kennaradeildina og örugglega 90 % útlendingar frá öllum heimshornum. Við átta erum frá Íslandi, Indlandi, Oman, Tælandi, Hong Kong, Kenýa, tvær frá Kýpur og svo eiga eftir að bætast við enskir starfandi kennarar. Þeirra vegna eru tímarnir allir seinni hluta dags.

Annars er mest áberandi á háskólasvæðinu allir nýnemarnir og allskyns kynningabásar til að tæla inn á þá allskonar hluti misnauðsynlega, allt frá hugleiðslu, tryggingum, farsímum, lestarkortum og svo í jaðri háskólasvæðisins er verið að dreifa miðum frá næturklúbbum, pöbbum og allskyns skemmtistöðum. Líklega ellimerki hjá mér að strunsa hratt fram hjá því!

sunnudagur, september 16, 2007

Síminn hvað !!!!!!!!!

Ég nota bara msn núna :) ´Búin að vera að spjalla í dag og í gær við hann Pétur minn, Sollu vinkonu og Möggu systir sem segist ekki munu neitt sakna okkar því hún er alltaf að tala við okkur :) Bara gaman. Nýja msn er betra en það gamla og gengur vel að nota bæði hljóð og mynd þar. Svo er skype líka frábært.

Svava

laugardagur, september 15, 2007

Allir slappir og kerfin á móti mér

Sumir dagar eru verri en aðrir, við erum öll enn hálfslöpp. Bergþóra veiktist í gær og fór ekki í skólann. Ég fór og var fram eftir degi, stór hluti dagskráinnar var um allskonar aðstoð sem er í boði, námsráðgjöf, heilsugæsla, viðtalsaðstoð. Líka um bókasafnið, tölvukerfið, tungumálamiðstöðina, og skills center. Þannig að það er alveg sama hvort maður stendur á gati í málfræði, ritgerðasmíð, sálarlífinu eða fær kynsjúkdóm, þá er hægt að fá aðstoð.

Annars var allt á móti mér í fyrradag, heimbankinn hjá Barkleys sagði að lykilorðin væru vitlaus, gat ekki borgað leiguna, síðan hjá TV licence (afnotagjaldi sjónvarps) virkaði ekki og svo þegar ég ætlaði að hringja eftir aðstoð virkaði síminn ekki.

Talaði við ennþá fleirra fólk, meiri kínverja, Lýbíu, stelpu frá Íran, einn frá Þýskalandi, merkilegt hvað lítið af þýskunni úr FS situr eftir, eða réttara sagt, ég skil ekki talað mál en skil meira og minna þýsku textana sem ég hef verið að syngja undanfarin ár.

Múslimarnir eru frekar áberandi hérna, sátu ábyggilega 20 í gær í salnum með slæður yfir hárinu og svo fengum við bréf heim með Bergþóru frá skólanum að margir nemendur segðust ætla að fasta núna en að skólanum þætti það helst ungt fyrir 6 ára börn að vera án matar og drykks heilan dag. Held ég geti nú alveg tekið undir það, þau dugðu rétt fram að frímínútum krílin þegar ég var að kenna sex ára.
Í háskólanum er samfélag múslima og aðstaða fyrir þá til bæna en líka kirkja og prestur sem sinnir öllum kirkjum og vinnur í samstarfi við kirkjunar sem eru mýmargar og af öllum gerðum.

Erum búin að taka lífinu með ró í dag og vonum að verða hressari eftir helgi, Bergþóra er drullufúl því það stóð til að fara í bíó en verður að bíða þar til heilsan leyfir.
Svava

fimmtudagur, september 13, 2007

Fór í skólann í morgun, bara fram að hádegi er alveg drulluslöpp og Gunnar líka. Það voru líklega svona 300 manns í hópnum hjá mér, þetta eru svona undirbúningsdagar fyrir alþjóðlega nemendur og tveir hópar svo líklega eru um 600 alþjóðlegir nemendur að byrja í skólanum núna. Að líta yfir hópinn voru 90 % svart hár, fleiri karlar og ég gat í fljótu bragði ekki séð neinn sem bar það utan á sér að vera komin á fimmtugsaldurinn svo ég upplifði mig í öllu samhengi verandi í minnihlutahóp. Ég sat með stelpun frá Ástralíu, Kína og Tælandi, fyrir framan mig heyrði ég portúgölsku, aftan spænsku og fyrir utan voru greinilega kanar svo þetta er ansi breiður hópur. Stóð mig að því að spá í því hverjir gætu svo verið með mér í kúrs og ætli ég sé ekki svona fordómafull að nördalegu strákarnir fannst mér líklegastir, kemur í ljós.

Setti annað myndband af Bergþóru á youtube og einhvað dót hér við hliðina, þarf að læra meira html til að þetta verði flott, en ef þið klikkið á þetta kemur opnast annar gluggi með youtube og allt myndbandið sést.

kv. Svava

miðvikudagur, september 12, 2007

Frábært, við missum ekki af ljósanótt, hún er hér í Leeds 12. oktober :)

Er búin að snýta af mér nefið og hnerra með látum.

Fer í skólann á morgun, þá eru dagar fyrir alþjóðlega nemendur, vona að ég hafi eitthvað gagn af þeim en það er stór munur á mér, eldgömul og búin að koma mér fyrir á flestan hátt og 19 ára stelpu frá Kína sem hefur aldrei farið að heiman og þarf að læra að lifa í allt öðruvísi samfélagi. Sum bréfin sem ég hef fengið hafa verið ansi fyndin, gleymdi reyndar alltaf að láta pabba hafa eitt sem var svona til að fullvissa foreldra að það yrði í lagi með ungana þeirra. Og svo fékk ég lykilorð ef foreldrar eða aðrir styrktaraðilar vilja borga skólagjöldin mín !

Svava

þriðjudagur, september 11, 2007

Helgin í Grimsby




Fórum um helgina til Grismby, pabbi og Iðunn systir með Stebba sinn og Nonna og Svövu voru þar í heimsókn. Við skruppum til Cleethorpe sem er nú eiginlega samvaxið Grimsby fórum þar á pöbbinn í leikjasali og á austulenskt hlaðborð, svakalega fínt. Um kvöldið var kjaftað ógurlega, og dansað við Gypsy kings, svo á einhvern óskiljanlegan hátt endaði allt í vatnsslag og það á að vera mér að kenna en getur ekki staðist því ég geri aldrei neitt sem ekki má, kannski betra að tala við þann sem vissi hvar slangan var geymd ;)
Á sunnudaginn dröslaði Iðunn Stebba í búðir og fataði hann upp fyrir veturinn en ég og Gunnar aðstoðuðum litlu hjónin við að útbúa hvílíka veislu ala Jamie Oliver. Lamb og rif og kjúklingur ( aldrei lítill matur þegar Hulda er við stjórn) fór í frábæra marineringu og allt á grillið. Meiri myndir á picasa). Pabbi og systkini Les mættu með sitt fólk í herlegheitin.

Núna er ég heima með hálsbólgu og beinverki oj bara, held að pabbi og Iðunn hafi borið þetta í mig, sendi Gunnar í búðina eftir c-vítamíni og sólhatti. hóst hóst kv. Svava

föstudagur, september 07, 2007

Setti inn myndir á picasa úr gönguferðum, tveimur af mörgum. Fór aftur í skólann í dag er að reyna að komast hjá því að borga dýrara skólagjaldið, vona að það takist en býst ekki við því, nú væri gott ef Ísland væri í evrópusambandinu, þá væri það enginn vafi. Gengum um skólasvæðið og er alltaf að komast að því betur hvað þetta er svakalega stór skóli. Þurfti í dag að fara í risabyggingu en það eru margar margar byggingar þarna, gamlar og nýjar. Svolítið skemmtilegt að hafa þetta svona ólíkt. Aðalbækistöðvar kennaraskólans eru í gömlu múrsteinshúsi en raunvísinda deildirnar og þar með talin kennslufræði þeirra eru í þessu risahúsi eða eins og einn sem vísaði mér til vegar í gær sagði ,, you cant miss it it´s that massive slab of concrete" Því miður varð myndavélin rafmagnslaus en tek hana bara með næst.

Veðrið er búið að vera geðveikt í dag og í gær, alveg heiðskýrt og smá gola. Vonandi verður það svona áfram þegar Iðunn og co með pabba koma í heimsókn, þau fara reyndar beint til Grimsby en við förum líka á morgun og hittum þau.

Bergþóra er alsæl í dag, ein bekkjarsystirin býr í götunni og nú er sko verið að leika þrátt fyrir skort á sameiginlegu tungumáli.

Svava

fimmtudagur, september 06, 2007

Leeds United
Hér sit ég út í garði og blogga, 23 gráðu hiti, logni og glampandi sól. Það er 6. september og veðrið hefur verið alveg dásamlegt undanfarna daga. Við keyptum okkur nokkra garðstóla og borð fyrir nokkrum dögum og það kemur sér aldeilis vel núna. Bergþóra Sól er byrjuð í skólanum á fullu og líkar vel, ég hitti skólasystir hennar í dag sem tjáði mér að hún sæti við hliðina á Bergþóru, ansi skemmtileg stelpa með stríðniglampa í augunum og ansi örugg með sig, áreiðanlega góður félagsskapur þar á ferð. Eins er BS mjög ánægð með hádegismatinn sem henni stendur til boða, sem er mikil breyting frá því að hún kvartaði yfir vondum mat í Heiðaskóla þann tíma sem hún var þar.


Svava fór hjólandi í skólan sinn til að ræða málin við skrifstofuliðið og fl. Þannig að ég sit hér einn út í garði og fæ mér te. Er nokkuð betra í heimi hér en að hugleiða um lífið og tilveruna, og hvað skal gert við slíkar kringumstæður.

Ég fór síðasta laugardag á minn fyrsta heimaleik Leeds United fc. á Elland Road.. Svava og Bergþóra Sól ákváðu að skutla mér, einum og hálfum tíma fyrir leik, sem átti að hefjast klukkan fjögur. Það tók ekki langan tíma fyrir mig að átta mig á því að ég hefði átt að fara um hádegi af stað þegar við sátum föst í umferðaröngþveiti þegar við nálguðumst leikvanginn. En allt gekk þetta vel og eftir að ég hafði keypt miða á dýrasta stað (28 pund), ekki fáanlegir aðrir miðar, þá var það einstök tilfinning að koma inn á leikfanginn nokkrum mínútum áður en flautað var til leiks og að heyra 26.800 manns syngja stuðningsöngva Leeds-áhangenda. Það fór um mig unaðshrollur og ætli maður sé ekki orðinn smá Leedsari eftir þessa heimsókn, það er nú ekki hægt annað. Að vísu voru þarna nokkuð hundruð stuðningsmenn Hattaranna, Luton Town fc. sem voru í heimsókn og þeir létu líka heyra í sér þegar tækifæri gafst. Það er í raun alveg ótrúlegt að koma á leik í 3 deildinni gömlu og það eru tæplega 27. þús. áhorfendur, þetta gæti ekki gerst annarstaðar í heiminum nema hér í heimalandi fótboltans. Leikurinn lauk með sigri “minna manna” og þetta er besta byrjun Leedsara síðan ´84, því miður var búið að draga af þeim 15 stig í byrjun, sem var einnig gert í fyrra þegar var dregið af þeim 10 stig og þess vegna féllu þeir. Enda eru stuðningsmenn Leeds alveg brjálaðir út í Deildarsamtökin og syngja háðsöngva þeim til heiðurs. Jæja ætli þetta sé ekki gott í bili, ég verð kannski eins og mér skilst að Jón Ben var orðinn þegar hann var í Danmörku, að fylgjast jafnvel með Finnsku 2 deildinni og fleira því umlíkt áður en yfirlíkur, svo segir sagan allaveganna. Nonni verðu þá bara að sverja þetta af sér.
Fótboltakveðjur
Gunnar Halldór

sunnudagur, september 02, 2007

Díana prinsessa og Babtistakirkjan
Lítið að frétta hér út rólegheitunum. Er búin að lesa og horfa á sjónvarp. Í fyrradag var sýnt á mörgum stöðvum frá minningarathöfninni um Díönu prinsessu og líka sjónvarpsmyndin sem ég sá að var á dagskrá líka á rúv. Ég veit ekki hvað það er með Díönu prinsessu en ég man að ég grét þegar hún dó og þá var ég ekki alltaf skælandi eins og í dag, í dag þarf ég bara að hugsa um ræðuna hans Harry prins þegar hann talar um mömmu sína til að fara að tárast. Meira hvað maður getur verið meir.
Við fórum í kirkju í morgun, völdum aftur að fara í baptistakirkju South Parade Baptist Church veit ekki hvers vegna en hún er önnur af tveim sem við göngum fram hjá og virðist vera líflegt starf í henni. Messan var löng með bæði söng leiddum af orgeli og svo líka með forsöngvurum með mikrafóna og gítar, trommur og píanó. Samt svona hógvær og róleg athöfn. Margir taka þátt ein las og sýndi brot úr Shrek og talaði um að skammast sín ekki fyrir trúna, eða eins og stendur í rómverjabréfinu 1:16 eg fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið; því það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, presturinn lagði síðan út frá sama versi og talaði lengi og vel og notaði powerpoint. Það var líka altarisganga en þar er aðstoðarfólk sem gengur með brauðið og vínið í litlum staupum til safnaðarins svo maður bara situr og fer ekki til altaris eins og við þekkjum. Svolítið öðruvísi en auðveldar gestum eins og okkur að taka þátt. Annars saknað ég í þessum messum að byrja hana ekki á signingu og í þessar var ekki Faðir vor og ekki trúarjátning. Samt falleg og nærandi athöfn.
Ekki má gleyma því að fólk gaf sig að máli við okkur ung kona og gamall karl sitt í hvoru lagi tilbúin að bjóða okkur velkomin og segja okkur frá hvernig kirkjan starfar, svo við komumst aftur að því að kirkjur eru góðir staðir til að kynnast fólki.
Annars er ég líklega búin að velja mér kór, Leeds Festival Chorus en fyrsta æfingin er ekki fyrr en 19. september og þá á að æfa Messias eftir Handel, ekki slæmt það. Flutningurinn verður svo 8. des í Leeds Town Hall. Kórinn telur eitthvað um 150 manns svo líklega kynnist maður einhverjum þar.