mánudagur, desember 31, 2007

Gleðilegt nýtt ár.
Við óskum öllum nær og fær til sjávar sveita borga og í Sandgerði gleðilegs nýs árs og farsældar.

Happy new year !!!!

We send you all our fondest wishes for a great new year and happyness for all

Svava og Gunnar Halldór






mánudagur, desember 24, 2007

Komin til Íslands

Flugið gekk vel til Íslands og erum við búin að vera á fullu í undirb. jóla m.a. með mömmu og fl. Við erum líka búin að fá þessa fínu íbúð á Sóleyjargötunni, þar sem Jón og Pétur eru líka komnir. Við fórum í bæinn í kvöld með Sillu og Herði og gengum um miðbæinn og hlusuðum á góða tónlist í Óperunni ásamt því að fara á veitingastað og bara horfa á allt fólkið og fá góðan jólafíling sem virkilega var hægt þarna á Laugarveginum.
Gaman að vera komin heim.
Það væri skemmtilegt að allir þeir sem heimsækja síðuna okkar hér kvittuðu fyrir sig undir commends hér fyrir neðan.
Gleðileg jól til allra og hafið það gott um jólin og vonandi finna allir hinn sanna jóla-anda.......................................Gunnar Halldór og Svava



föstudagur, desember 21, 2007

FARIN TIL ÍSLANDS í Jólafrí

Við erum nánast búin að pakka og ætlum að fara að setja töskurnar inn í bílinn og keyra á flugvöllinn í Manchester. Þar sem bíllinn okkar fíni mun dvelja um jólin, en ekki vorkenna honum hann mun vera á fínu bílastæði þar sem menn mun klappa honum. Við fórum síðustu innkaupaferðina niður í bæ fyrir jólin í gærkveldi og Sherelle og Shenell komu til að keðja og færa Bergþóru Sól jólagjöf og var gerð undanþága, hún fékk að taka hana strax upp. Hún var mikið ánægð með gjöfina, var reyndar búin að óska sér þess að fá svona tösku í jólagjöf.







Við hlökkum til að sjá ykkur um jól og áramót.



Lendum um miðnættið á flugvelli Lefs Eiríks.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Nú ætla ég að röfla aðeins hér, búin að röfla svo mikið í Gunnari að hann er komin með sigg á eyrun greyið. Ég keyrði á tré í dag :( eða þannig var búin að hringsóla í kringum háskólann í 40 mínútur að leita að stæði, fór svo inn á stæði sem þarf að borga 5 pund og ætlaði að troða mér í þröngt stæði og fór utan í tré................... argargarg....
Læt bara einkabílstjórann minn keyra mig og sækja í skólann þegar ég vil ekki fara á hjóli. Verð þá líklega að minnka röflið aðeins.......
Kleinur

4 bollar hveiti (400 gr)
1 bolli sykur ( 80 gr)
75 gr smjörlíki
1 tsk kardimommudropar ( ég nota alltaf vanillu smekksatriði)
1 egg
2,5 dl mjólk
1 tsk lyftiduft
1 tsk eggjaduft ( hvað er það ?)

hnoðað gerir u.þ.b. 40 stk, ég geri 3-4 falda uppskrift í einu tekur ekki að byrja fyrir minna.

Gangi þér vel Bjartur.

Reyni að vera með jólaeyrnalokka þegar ég heimsæki Heiðarskóla.

Jólakveðja SVava

þriðjudagur, desember 11, 2007


Skrítnir dagar og síðasta kennsluvikan í bili

Jæja nú er kennslunni að ljúka síðustu tímarnir í þessari viku þá þarf bara að bretta upp ermarnar og skrifa 8000 orð, hljómaði einu sinni agalega mikið en vandinn hjá mér er frekar hverju á að sleppa, það er að segja loks þegar ég er búin að ákveða hvað ég vil skrifa um.


Annars er nóg að gera í öðru líka, jólapartý í skólanum á föstudaginn var, allir áttu að koma með einhvern mat svo ég bakaði kleinur sem voru borðaðar með alls konar undarlegum réttum. Ég söng, Gunnar sagði að hann hefði sko heyrt að ég er ekki í æfingu vona að þetta hafi verið sæmilegt samt.


Bergþóra er búin að liggja lasin með hita og hálsbólgu alveg agalega slöpp, þá er nú gott að hafa pabba alveg til að sinna sér.


Það er orðið hundkalt hérna, hrím á bílnum í morgun, hann er samt alltaf í fríi, ég hjóla flesta daga, fór með það í yfirhalningu um daginn, stilla gíra og laga bremsur, ekki gott að vera bremslulaus hér í brekkunum hjúúúú´.... og svo sprakk daginn eftir, gaurinn í hjólabúðinni orðinn ágætis kunningi minn.


teljum held ég öll dagana þar til við förum til Íslands, komum kvöldið 21.des. Sé ykkur þá kv. Svava

laugardagur, desember 01, 2007

Aðventan byrjuð
Ég og Bergþóra fórum í skólann minn í morgun að skreyta andyrið (sjá mynd) . Við heyrum af nemendum í öðrum deildum að við erum frekar öfunduð, farið með okkur í ferðalög, haldin boð og allskonar ummhyggja sem skortir annarstaðar.
Svo fórum við í búð og ég varð bara ringluð (ringlaðri sagði Gunnar !!!!) af öllu úrvalinu, hlakka bara til að fara í Bónus og velja bara út 2 -3 tegundum í staðin fyrir 23 hér. Val á greinilega ekki vel við mig því ég skipti um skoðun á korter fresti um hvað ég ætla að skrifa í næsta verkefni.
Slapp ekki við pestina en var bara heima á fimmtudaginn sem var samt of mikið því ég missti af tíma um faglega þróun og endurmenntun.
Sí jú Svava

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Magna Science and group work

Á sunnudaginn fór ég með Margaretu og Sandhyu í Magna Science Adventure Center. Gunnar og Bergþóra höfðu ætlað með en hún greyið var með magapest svo þau urðu eftir heima. Safnið var svolítið skrítið í gamalli járnvinnslu, risastórt og ískalt brrrrrrrrrrrbrbrbrrr fullt af dóti fyrir krakka að prófa og líka fróðleikur fyrir fullorðna. Við prófuðum líka allt og ef ég gefst upp kennslu get ég orðið skurðgröfustjóri ! Sýnid hvílíka hæfileika á henni.
Svo ætluðum við að borða á enskum pöpp, það varð ekki þrautalaust, fyrsti var yfrifullur, næsti seldi ekki mat en fengum voða fínt á þeim þriðja.

Í gær fór ég með tveimur að vinna hópverkefni heima hjá Jane sem er bresk og starfandi kennari hér í Leeds, hún bauð upp á ´Shepherds pie' stilton og cheddar voða gaman. Ég fór einhverja ógurlega krókaleið heim til hennar og var föst í umferðaröngþveiti tók 1 klst en renndi svo heima á 10 mínútum !

Gunnar er núna orðinn veikur, vona að ég verði ekki næst má ekkert vera að því, heilinn er núna í bleyti fyrir næstu tvö verkefni, er að lesa kringum þau.

laugardagur, nóvember 24, 2007

Veturinn kominn

Jæja, nú loksins tók ég kápuna mína í notkun enda orðið kalt og hráslagalegt úti. Fór út að dansa með Sandhyu, Miriam og Islauru stanslaust salsa og samba með rappívafi í tvo tíma og svo heim, kostnaður samtals: miði inn, 2 drykkir og stúdentarúta upp að dyrum 7,50 eða um 1000 kall.
Fórum að versla jólagjafir og föt í dag, gengur bara vel, verst held ég að ég keypti þrjár gjafir á einum stað borgaði þær og fór, vona að þær verði þar enn þegar ég fer að vitja þeirra, orðin eitthvað utan við mig á gamals aldri.
Lærði eins og berserkur undanfarinn hálfan mánuð og skilaði tveimur uppköstum í vikunni. Fyrir þá sem vilja vita þá var ég að stúdera rannsóknir á hugmyndum nemenda um varðveislu massans og áhrif þeirra á kennslu og skipulagningu hennar, og hugmyndir tveggja fræðinga um heim skóla og náttúrufræði sem sér menningarheim, og hvernig nemendum gengur að aðlagast hann að sínum daglega menningarheim. Næsta mál á dagskrá er að ákveða efni næstu verkefna og lesa og skipuleggja.

mánudagur, nóvember 19, 2007

Skátar og sund.
Ég gleymdi einu þegar ég var að telja upp hvað dugnaðarstelpan hún Bergþóra Sól tekur sér fyrir hendur á viku hverri. En semsagt á föstudagskvöldum milli 18 og 20:30 þá er hún í skátastarfi (Brownies). Hér til hliðar er hún í búningnum sínum. Það er margt skemmtilegt sem stelpurnar læra þar, og síðasta föstudagskvöld var farið í bæinn til að skoða ljósmyndasýningu og á Mcdonnald´s á eftir. Mikið fjör og mikið gaman að hennar sögn.
Þar sem það var starfsdagur í skólanum hennar í dag þá lærðum fyrst og síðan fórum við í sund. Henni hefur farið ótrúlega mikið fram á ekki lengri tíma. Við versluðum líka nýjan bol og æfingadót í klúbb-búðinni, það má nú ekki minna vera fyrir keppnina. En laugin sem hún kemur til með að keppa í 1. des. er stór og flott laug með sæti fyrir 800 áhorfendur. Hérna eru myndir frá Leeds Aquatic Centre; http://www.leeds.gov.uk/page.aspx?pageidentifier=92E3BE57BD5C06CD80256E1A00424F70; þar sem hún kemur til með að keppa fyrir City Leeds Swimming Club; http://www.swimleeds.org.uk/
Kveðja frá okkur hérna í Leeds............
Gunnar Halldór

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Velti vöngum, les og skrifa
þarf að:
- lesa hraðar
- taka lengri skorpur
- vera skipulagðari
- byrja fyrr

og hana nú....
æi gleymdi ... hætta að vera sammála öllu sem ég les

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Allt á fullu á Stanmore Grove
Stelpurnar mínar tvær eru á fullu þessa daga. Svava les og les og skrifar þess á milli. Fer á morgnanna upp í háskóla og kemur seint. Hún þarf að skila tveimur ritgerðum í næstu viku. Svo það er eins gott að halda sér við efnið. Bergþóra Sól er á fullu í sínu námi. Mætir rétt fyrir níu og er búinn klukkan korter yfir þrjú. Síðan tekur við heimanám og á sunnudögum-þriðjudögum og fimmtudögum erþað sund og kikkboxing á þriðjudögum og fimmtudögum. Bergþóra er síðan búin að vera að stúdera gamlar söngvamyndir sem hún á DVD. Fyrst var það Söngvaseiður með Julie Andrews sem var horft á 150 sinnum, síðan Annie og núna er það The wizard of OZ (Galdrakarlinn í OZ) með Judy Garland, sem horft er á lon og don, þannig að hún kann hana utanað og dansar líka með. Það er nú hægt að horfa á margar verri mynir en þessa, en hún var valin besta mynd allra tíma af American film Institute. Síðan höfum við eitthvað gott að borða um kvöldmatarleytið, nema hvað í kvöld á að panta pizzu að kröfu prinsessunnar. Þetta er svona venjulegir virkir dagar. Á meðan er ég heima að skúra skrúbba og bóna ;)
Gunnar Halldór

sunnudagur, nóvember 11, 2007


Indverskt matarboð með fjölþjóðlegum gestum

Ég fékk tvær úr skólanum í gær til að kenna mér að elda indverskan mat, svo buðum við nokkrum í viðbót svo við vorum 10. Talið frá vinstri frá Bretlandi, Kanada, Svíþjóð, Kína, Kúbu, og Indlandi. Við fórum í Tesco og keyptum inn og elduðum svo fjóra rétti og kjöftuðum mikið. Ferlega gaman. Önnur er gift þessum með trúbaninn og er þrælvön að elda en hin óvön en kom með krydd og uppskriftir með sér svo þetta var allt vel heppnað. Næst ætlum við að elda mat frá Mexíco og Kúbu.

föstudagur, nóvember 09, 2007


Góð heimsókn


Við fengum Möggu, Óðinn og Pétur í heimsókn frá fimmtudegi til mánudags. Þau komu með Huldu og Les frá Grimsby í mat á fimmtudagskvöldið. Svava eldaði kalkún með minni hjálp ;9. og það var svona jólamatsuppskrift með fyllingu og öllu sem við á.






Við fórum á The Royal Armories þar sem við gátum skoðað morðtól frá ýmsum tímum, og hvernig menn háðu stríð og svona margt álíka uppbyggilegt í því samhengi. Eins var farið í nokkra göngutúra m.a. upp á heiðar í Yorkshire Dales, hjá bænum Ilkley og í næsta nágrenni við okkur hér á Stanmore Grove, eins upp í Háskóla og svona. Eins fórum við töluðvert út að borða m.a. á uppáhalds Inderska veitingastaðinn okkar Shees Mahal og á einn Grískan veitingastað sem heitir The Olive tree, sem er líka mjög fínn. Semsagt takk fyrir heimsóknina, ávalt gaman að fá góða gesti í heimsókn. Gunnar Halldór.



Heimasíminn okkar
Síminn okkar er kominn í lag. Þetta er í annað skiptið síðan við fengum okkar þetta símanúmer, á stuttum tíma, að einhver bilun verður. Við tökum yfirleitt ekki eftir því fyrr en eftir nokkra daga, því það er nú ekki verið að hringja það oft í okkur ;). Og þegar við svo hringjum til að kvarta yfir því að það sé ekki einu sinni sónn í símanum okkar, þá er okkur sagt að það verði kíkt á þetta eftir nokkra daga klukkan þetta og þetta. Síðan er haft samband þegar búið er að koma þessu í lag og sagt að það hafi verið bilun í kassa. grrrrr þetta er nú ekki góð þjónusta......
En allaveganna þeir sem ætla að hringja í okkur, geta gert það núna og símanúmerið er: +44-113-2160191
Gunnar Halldór

fimmtudagur, nóvember 08, 2007

Til hamingju með 16 ára afmælið Jón

Hann Jón minn er 16 ára í dag elsku skrjóðurinn. Safnaði saman myndum af þessu tilefni sem eru hér. Það sést sko að Jón er alltaf í stuði, einhverstaðar á fleygiferð og til í að gretta sig smá. Bara flottur eða það finnst mömmunni allavega.

miðvikudagur, október 31, 2007


Halloween


Í dag er halloween, ég komst að því að hefðirnar í kringum þennan dag koma upphaflega frá Írlandi þaðan til USA og svo aftur hingað til UK. Líka að sala varnings í kringum þetta hefði tífaldast á árunum 2001 - 2006 úr 12 m pund í 120 m pund.

Við fórum tókum þátt í þessu öllu með því að byrgja okkur upp af sælgæti og Berþóra keypti kisubúning. Henni var boðið í fyrradag til Shenell og Sherelle til að skera út grasker sem var fyrir utan hjá okkur í kvöld að verja húsið fyrir illum öndum. Í dag fór hún svo með þeim ,,trick or treating" og kom hlaðin sælgæti og peningum til baka, ekki allir eins vel undirbúnir og við sem situm uppi með heilan helling af krakkanammi því það virðast ekki vera mörg börn í nágrenningu og fáir komu.

sunnudagur, október 28, 2007

Héldum að himinn og jörð væri að farast í gærmorgun þegar dyrabjallan hringdi stanslaust kl. 7:00 nei nei það var ekki kviknað í, það var bara pósturinn að koma með pakka !

Fórum í dag á bændamarkað í Otley, rétt hjá Leeds
og ætluðum líka á annan svona skranmarkað en það eru fleirri árrisulir en pósturinn, markaðurinn opnar 6 og er búinn fljótlega upp úr hádegi. En bændamarkaðurinn var frábær, í litlum svefnbæ í útjaðri Leeds. Keyptum lamakjöt og grænmeti og bacon og hunang allt beint af bóndanum og á fínu verði. Hittum líka bæjarkallarann, þennan á myndinni. :)


Ég les og les en samt ekki nóg, þyrfti að vera duglegri, skemmtilegast finnst mér núna að lesa lærðar greinar og koma í orð allskonar vangaveltum sem hafa verið að brjótast um í hausnum á mér undanfarin ár um kennsluna, vangaveltur um tilgang, innihald, árangur og aðferðir. Kannski verst að það er alltaf einhver annar búin að hugsa það sama og ég áður !


Er svo búin að vera hálfkjökrandi yfir því að komast ekki í Leeds Festival Chorus, röddin mín ekki tilbúin var sagt, ég vil meina slakur undirbúningur, en þá get bara ég einbeitt mér að náminu og farið meira í ræktina, samt fúlt.

Grunnskólar er búinn að vera í fríi síðustu viku og Bergþóra þar með í fríi. Fólk fer greinilega töluvert á flakk eða er upptekið með börnunum sínum svo ég var ein í jógatíma, fékk bara einkakennslu, það var bara frábært. Bergþóra er búin að vera mjög dugleg á sundæfingunum hjá Leeds swimming club, æfingarnar eru 3 sinnum í viku, og áhuginn varð líka meiri þegar Shannel vinkona hennar hóf að æfa með klúbbnum. Þær eru síðan 2 sinnum í viku í Kikboxing.

þriðjudagur, október 23, 2007

Skellti inn nokkrum myndum frá helginni.
Veit ekki með aðra sem hafa búið erlendir en ég fæ reglulega þá tilfinningu að ég sé stödd í sjónvarpsþætti eða draumi .... Svo slæmt að í dag bjóst ég alveg eins við að kennarinn myndi á hverri stundu svissa yfir í íslensku. En þetta er víst raunveruleikinn.

Fer loks í prufu hjá Leeds Festivel Chorus á morgun, wish me luck !

mánudagur, október 22, 2007



Helgarferð í Lake District



Ég fór um helgina með School of Education til Lake District sem er risastór þjóðgarður hér. Við gistum í skólabúðum einhverskonar, í kojum eins og smákrakkar borðuðum bragðlausan breskan mat og nutum náttúrunnar. Fórum í svaka fjallgöngu, ég var smá móð á leiðinni upp, en það er augljóst að hjólreiðarnar og gönguferðirnar eru að borga sig því ég er alveg laus við harðsperrur :)



Það var cultural evening þar sem fólk frá
mismunandi löndum var með atriði, ég söng Yfir kaldan eyðisand og Krummi snjóinn kafaði og talaði um íslenska vetur. Við sáum söng frá Kína og Óman, dans frá Kýpur og latín ameríku, stjörnuspá frá Tawian ofl ofl.

Frábært að kynnast fólkinu aðeins betur, og þetta er mjög fallegt svæði sem ég ætla að heimsækja aftur með Gunnari.

mánudagur, október 15, 2007

Var að koma úr gyminu búin að fara í einn jógatíma og einn magi rass og læri. Þetta er lítil ný opnuð stöð, minnir mig svolítið á þegar maður var að byrja hjá Önnu Leu og Bróa :) Aðalkosturinn er að hún er í götunni og voðalítið fólk þarna ennþá, hentar mér. Svo er sér tækjasalur fyrir konur, held hann hafi aldrei verið notður, kannski fer ég og vígi hann næstu daga.

laugardagur, október 13, 2007

Afmælimánuðurinn, Október með sumarblíðu og ljósanótt
Ég óska öllum afmælisbörnum mánaðarins til hamingju. Október er mikill afmælismánuður í minni fjölskyldu. Stelpurnar mínar, Kristín Hrönn og Lilja Björg eru vogir og mamma einnig, eins má telja Kötu frænku sem talaði stöðugt um það þegar við vorum krakkar að hún væri sko 2 dögum “eldri” en undirritaður. Mamma stelpnanna minna er vog , Guðlaugur frændi minn á sama afmælisdag og ég og Kristín Hrönn sama afmælisdag og bróðir hennar mömmu, Þórhallur heitinn afi Guðlaugs og svona mætti lengi telja.
Við fórum til Huldu systur Svövu minnar um síðustu helgi, hún á afmæli 6 október , og átti við góða stund með henni og Les. Fórum út að borða á mjög fínan Ítalskan veitingastað og vorum hjá þeim í góðu yfirlæti eins og ávalt þegar við förum til Grimsby.
Ég var vakinn upp með afmælissöng ,kortum og pökkum í morgun af Svövu og Bergþóru Sól og það er nú ekkert leiðinlegt fyrir utan að fá morgunmat í rúmið, TAKK.;)
Við fórum í gærkveldi niður í bæ vegna þess að það var ljósanótt hér í Leeds og töluðvert um að vera, en fyrst fórum við á ágætan veitingastað http://www.pizzaexpress.com/mainm.htm og ég fékk mér Pansetta Pomodoro http://www.pizzaexpress.com/mainmenu.htm sem á að vera svona Pizza eins og þær voru upphaflega gerðar í Róm, og miðað við það að ég er nú enginn sérstakur aðdáandi Pizzunnar þá var þetta mjög gott, þannig að það var nú ekki gæfuríkt spor að Dominosvæða þessa tegund matar. Við fengum okkur svo ekta ítalskan ís í eftirrétt.
Þegar við komum út, þá lentum við í göngu stórs hóps, "fórum svona með flæðinu", og enduðum á einhverskonar leik/fimleikasýningu fyrir utan Royal Armouries http://www.royalarmouries.org/ og eftir þá sýningu fórum við inn í safnið sem er alskonar svona dót frá mismunandi stríðstímum, mjög stórt og mikið, við Svava sögðum í kór “Hingað skulum við fara með Óðinn þegar hann kemur í heimsókn”
Það er búið að vera mjög gott veður undanfarið og gærkveldið toppaði nú allt saman með 19 gráðu hita og sól, þannig að í gærkveldi var tilfinningin sú sama og að ganga um í einhverri borg við Miðjarðarhafið.
Svava er núna þessa stundina á 3 tíma kóræfingu, þetta er sko alvöru kór sem stúlkan er í.
Svo á að toppa helgina með því að fara á einhvern mjög fínan Indverskan veitingastað í kvöld, já ég veit það er verið að spilla manni, en það er jú líka “BARA GOTT” og eins og Jón hennar Svövu segir “Ég á það skilið”.
Gunnar Halldór

fimmtudagur, október 11, 2007

Er búin að vera kryfja íslensku námskrána í náttúrufræði, hún virðist voðalega up to date miðað við nýjustu strauma og stefnur í fræðunum.

Fór í jóga, ný stöð svona lítil og heimilisleg svotil í næsta húsi vorum bara 3 í tímanum. Fæ örugglega hressilegar harðsperrur. Líkaði þetta vel og er að hugsa um að fara aftur.

Mér finnst ég vera að drukkna i fólki á leiðinni í og úr skólanum er , líka á göngum skólans, greinilegt að við íslendingar erum ekki nema þrír á ferkílómetra !

þriðjudagur, október 09, 2007

Smá fréttir

Hitti hana Erlu um daginn sem er líka í University of Leeds, hún sagði mér að það væru nokkrir íslendingar hér. Hún var nýbúin að fara í boð hjá Rory Turk sem er prófessor í íslenskum fræðum og talar íslensku og býður við og við heim þeim íslendingum sem hann veit af hér í Leeds.

Það er komið haust og það er alltaf verið að sópa lauf af gangstéttunum, annars væru þær líklega alltaf sleipar og ógeðlegar.

Bergþóra er farin að æfa kick boxing og fer á skátafundi allt með bekkjarsystur sinni henni Shenell.

Les og les ferlega hægt, alltaf að fletta upp einhverjum orðum, getur einhver sagt mér hvað ontological þýðir í uppeldisfræðilegu samhengi?

Er orðin ferlega flink að hjóla upp brekkur.

Fór í skólaheimsókn um daginn í barnaskóla, var með 8 ára krökkum. Þau vildu vita allt um ísland, hvort við hefðum rafmagn, hvort við hefðum háð einhver stríð, hitastigið, mannfjöldan, hvernig ég hefði komist til íslands. Skólarnir eru í stórum dráttum líkir okkar, allar stofur með smart board svo kennarar hafa dregið mikið úr notkun á kennslubókum. Töluvert meiri agi enda alls konar punkta og verðlaunakerfi í gangi til að verðlauna góða hegðun. Kennararnir kenna bekkjunum sínum öll fög, líka leikfimi og söng, þau eru ekki í smíði, handavinnu, myndmennt né heimilisfræði.

miðvikudagur, október 03, 2007



Haust

Það fór eins og mig grunaðir að það yrði minna um blogg um leið og ég færi að stunda nám :) Ætla samt ekki að hætta og stikla á stóru hér.

Það er komið haust eins og sést á myndinni sem tekin er í Royndhay Park, fórum þangað á laugardaginn.

Svo erum við búin að kveikja á kyndingunni því það er ansi hráslagalegt á kvöldin og morgnana án hennar.

Á sunnudaginn hélt ég að við værum að fara í rannsóknarferð í Outlet Village Junction32 en þá fór Gunnar of all people offari í búðunum og verslaði jakkaföt, úlpu, buxur, skó á sig, úlpu á Bergþóru og ég keypti mér tvö pils, því veðrið hér leyfir svoleiðis fatnað. Fínt að versla þarna og ágæt verð.

Skólinn er frábær, ég er í tveim áföngum + ýmislegt :

  • nám og kennsla í náttúrufræði, um hugtakaskilning, kennslu, námsskrár, námsmat o.þ.h.
  • Náttúrufræði: tilgangur, stefna og fagleg þróun, segir sig svolítið sjálft.
  • svo sit ég áfanga í aðferðafræði og les efnið en þarf ekki að skila verkefnum, ætti að koma góðum notum, en aðferðafræðin úr KHÍ situr ótrúlega vel í mér svo þetta er meira eins og upprifjun enn sem komið er.
  • við fáum tíma í tölvunotkun, þar bíð ég eftir kennslu í glósuforriti og gagnavinnslu og gagnagrunnum en sleppi tímum í word og powerpoint.
  • tímar í academic writing, ferlega góðir tímar þjálfun í að nota orðaforða sem þarf og uppbyggingu og vinnubrögð við ritun, veitir ekki af þar sem eina námsmatið hér eru ritgerðir.
  • umsjónartímar, ekki hægt að kalla þá annað, (personal tutor group) allskonar praktísk atriði og hópefli.

Og bækurnar mínar sjö !!!!!!!!!!!!! bara byrjunin fyrir hvern tíma er bent á sjö aðrar og annað eins af greinum .

Nóg í bili Svava

sunnudagur, september 23, 2007


á myndinni er Bergþóra að fara í skólann og Channel fyrir aftan hana.

...
Núna þegar lífið er allt að komast í fastar skorður verður einhvernveginn minna fréttnæmt frá að segja. Gunnar fór með Bergþóru og Channel í bíó í gær og ég rölti um miðbæinn á meðan. Það er alveg greinilegt að hér eins og heima er það aðaltómstundaiðja fólks um helgar að versla, allt troðfullt af fólki. Keypti einn bol, er orðin svo aðhaldssöm í peningamálum.
...

Í skólanum hef ég mest verið með nokkrum konum, Miriam frá Mexico, Sumin Indversk/kananda/UK, Sandhya frá Indlandi, Kate héðan og Islaura frá Kúbu. Eigum svo sem ekkert sameiginlegt nema það að vera að reyna að fóta okkur í ma námi við kennaradeildina.
...
Hitti í fyrsta sinn mann sem ekki vissi hvar Ísland er, sá var frá Nigeríu. Aðalkennararnir mínir hafa báðir komið til Íslands og vildu vita hvort ég þekkti Björk og færi oft í BláaLónið :) eða þannig.

...
Við Gunnar dundum okkur þessa dagana að lesa uppskriftir og elda holla grænmetisrétti aðalega úr Hagkaupsbókinni, gerðum um síðustu helgi einn sem heitir einfaldur baunaréttur eða eitthvað álíka, svo sem auðvelt að gera hann en mörg hráefni eins og sést í picasaalbúminu. Svo suðum við linsubaunir og bjuggum til agalega góð buff, en suðum svo mikið af baunum að það verða linsubaunir í öll mál.

þriðjudagur, september 18, 2007

Skólinn byrjaður og fréttamenn út um allt ?

Hélt þetta væri bara vaninn hér en sá svo í Yorkshire Evening Post að þeir voru að sitja fyrir skólasystur minni henni Chelsea kærustunni hans Harry prins, hún er víst að taka MA í lögum hér við skólann.

Hausinn að springa af upplýsingum enda ég ekki í neinni æfingu. Búin að hitta suma kennarana sem verða mest með okkur. Þeir hljóma viðræðugóðir og fínir. Enn er verið að innvikla okkur í þetta nýja líf og þjónustan er alveg til fyrirmyndar. Eina sem veldur mér vonbrigðum er að í mínum kúrs þar sem við erum bara 8 enn sem komið er erum við bara tvö með einhverja kennslureynslu, ég hafði einmitt hlakkað til að ræða við kennara víðsvegar frá með allskonar reynslu. Reyndar er meira af reyndum kennurum sem eru að stúdera enskukennlu, sérkennslu og stjórnun en það eru vinsælustu kúrsarnir, við erum 75 sem erum að fara í mastersnám og diplómur við kennaradeildina og örugglega 90 % útlendingar frá öllum heimshornum. Við átta erum frá Íslandi, Indlandi, Oman, Tælandi, Hong Kong, Kenýa, tvær frá Kýpur og svo eiga eftir að bætast við enskir starfandi kennarar. Þeirra vegna eru tímarnir allir seinni hluta dags.

Annars er mest áberandi á háskólasvæðinu allir nýnemarnir og allskyns kynningabásar til að tæla inn á þá allskonar hluti misnauðsynlega, allt frá hugleiðslu, tryggingum, farsímum, lestarkortum og svo í jaðri háskólasvæðisins er verið að dreifa miðum frá næturklúbbum, pöbbum og allskyns skemmtistöðum. Líklega ellimerki hjá mér að strunsa hratt fram hjá því!

sunnudagur, september 16, 2007

Síminn hvað !!!!!!!!!

Ég nota bara msn núna :) ´Búin að vera að spjalla í dag og í gær við hann Pétur minn, Sollu vinkonu og Möggu systir sem segist ekki munu neitt sakna okkar því hún er alltaf að tala við okkur :) Bara gaman. Nýja msn er betra en það gamla og gengur vel að nota bæði hljóð og mynd þar. Svo er skype líka frábært.

Svava

laugardagur, september 15, 2007

Allir slappir og kerfin á móti mér

Sumir dagar eru verri en aðrir, við erum öll enn hálfslöpp. Bergþóra veiktist í gær og fór ekki í skólann. Ég fór og var fram eftir degi, stór hluti dagskráinnar var um allskonar aðstoð sem er í boði, námsráðgjöf, heilsugæsla, viðtalsaðstoð. Líka um bókasafnið, tölvukerfið, tungumálamiðstöðina, og skills center. Þannig að það er alveg sama hvort maður stendur á gati í málfræði, ritgerðasmíð, sálarlífinu eða fær kynsjúkdóm, þá er hægt að fá aðstoð.

Annars var allt á móti mér í fyrradag, heimbankinn hjá Barkleys sagði að lykilorðin væru vitlaus, gat ekki borgað leiguna, síðan hjá TV licence (afnotagjaldi sjónvarps) virkaði ekki og svo þegar ég ætlaði að hringja eftir aðstoð virkaði síminn ekki.

Talaði við ennþá fleirra fólk, meiri kínverja, Lýbíu, stelpu frá Íran, einn frá Þýskalandi, merkilegt hvað lítið af þýskunni úr FS situr eftir, eða réttara sagt, ég skil ekki talað mál en skil meira og minna þýsku textana sem ég hef verið að syngja undanfarin ár.

Múslimarnir eru frekar áberandi hérna, sátu ábyggilega 20 í gær í salnum með slæður yfir hárinu og svo fengum við bréf heim með Bergþóru frá skólanum að margir nemendur segðust ætla að fasta núna en að skólanum þætti það helst ungt fyrir 6 ára börn að vera án matar og drykks heilan dag. Held ég geti nú alveg tekið undir það, þau dugðu rétt fram að frímínútum krílin þegar ég var að kenna sex ára.
Í háskólanum er samfélag múslima og aðstaða fyrir þá til bæna en líka kirkja og prestur sem sinnir öllum kirkjum og vinnur í samstarfi við kirkjunar sem eru mýmargar og af öllum gerðum.

Erum búin að taka lífinu með ró í dag og vonum að verða hressari eftir helgi, Bergþóra er drullufúl því það stóð til að fara í bíó en verður að bíða þar til heilsan leyfir.
Svava

fimmtudagur, september 13, 2007

Fór í skólann í morgun, bara fram að hádegi er alveg drulluslöpp og Gunnar líka. Það voru líklega svona 300 manns í hópnum hjá mér, þetta eru svona undirbúningsdagar fyrir alþjóðlega nemendur og tveir hópar svo líklega eru um 600 alþjóðlegir nemendur að byrja í skólanum núna. Að líta yfir hópinn voru 90 % svart hár, fleiri karlar og ég gat í fljótu bragði ekki séð neinn sem bar það utan á sér að vera komin á fimmtugsaldurinn svo ég upplifði mig í öllu samhengi verandi í minnihlutahóp. Ég sat með stelpun frá Ástralíu, Kína og Tælandi, fyrir framan mig heyrði ég portúgölsku, aftan spænsku og fyrir utan voru greinilega kanar svo þetta er ansi breiður hópur. Stóð mig að því að spá í því hverjir gætu svo verið með mér í kúrs og ætli ég sé ekki svona fordómafull að nördalegu strákarnir fannst mér líklegastir, kemur í ljós.

Setti annað myndband af Bergþóru á youtube og einhvað dót hér við hliðina, þarf að læra meira html til að þetta verði flott, en ef þið klikkið á þetta kemur opnast annar gluggi með youtube og allt myndbandið sést.

kv. Svava

miðvikudagur, september 12, 2007

Frábært, við missum ekki af ljósanótt, hún er hér í Leeds 12. oktober :)

Er búin að snýta af mér nefið og hnerra með látum.

Fer í skólann á morgun, þá eru dagar fyrir alþjóðlega nemendur, vona að ég hafi eitthvað gagn af þeim en það er stór munur á mér, eldgömul og búin að koma mér fyrir á flestan hátt og 19 ára stelpu frá Kína sem hefur aldrei farið að heiman og þarf að læra að lifa í allt öðruvísi samfélagi. Sum bréfin sem ég hef fengið hafa verið ansi fyndin, gleymdi reyndar alltaf að láta pabba hafa eitt sem var svona til að fullvissa foreldra að það yrði í lagi með ungana þeirra. Og svo fékk ég lykilorð ef foreldrar eða aðrir styrktaraðilar vilja borga skólagjöldin mín !

Svava

þriðjudagur, september 11, 2007

Helgin í Grimsby




Fórum um helgina til Grismby, pabbi og Iðunn systir með Stebba sinn og Nonna og Svövu voru þar í heimsókn. Við skruppum til Cleethorpe sem er nú eiginlega samvaxið Grimsby fórum þar á pöbbinn í leikjasali og á austulenskt hlaðborð, svakalega fínt. Um kvöldið var kjaftað ógurlega, og dansað við Gypsy kings, svo á einhvern óskiljanlegan hátt endaði allt í vatnsslag og það á að vera mér að kenna en getur ekki staðist því ég geri aldrei neitt sem ekki má, kannski betra að tala við þann sem vissi hvar slangan var geymd ;)
Á sunnudaginn dröslaði Iðunn Stebba í búðir og fataði hann upp fyrir veturinn en ég og Gunnar aðstoðuðum litlu hjónin við að útbúa hvílíka veislu ala Jamie Oliver. Lamb og rif og kjúklingur ( aldrei lítill matur þegar Hulda er við stjórn) fór í frábæra marineringu og allt á grillið. Meiri myndir á picasa). Pabbi og systkini Les mættu með sitt fólk í herlegheitin.

Núna er ég heima með hálsbólgu og beinverki oj bara, held að pabbi og Iðunn hafi borið þetta í mig, sendi Gunnar í búðina eftir c-vítamíni og sólhatti. hóst hóst kv. Svava

föstudagur, september 07, 2007

Setti inn myndir á picasa úr gönguferðum, tveimur af mörgum. Fór aftur í skólann í dag er að reyna að komast hjá því að borga dýrara skólagjaldið, vona að það takist en býst ekki við því, nú væri gott ef Ísland væri í evrópusambandinu, þá væri það enginn vafi. Gengum um skólasvæðið og er alltaf að komast að því betur hvað þetta er svakalega stór skóli. Þurfti í dag að fara í risabyggingu en það eru margar margar byggingar þarna, gamlar og nýjar. Svolítið skemmtilegt að hafa þetta svona ólíkt. Aðalbækistöðvar kennaraskólans eru í gömlu múrsteinshúsi en raunvísinda deildirnar og þar með talin kennslufræði þeirra eru í þessu risahúsi eða eins og einn sem vísaði mér til vegar í gær sagði ,, you cant miss it it´s that massive slab of concrete" Því miður varð myndavélin rafmagnslaus en tek hana bara með næst.

Veðrið er búið að vera geðveikt í dag og í gær, alveg heiðskýrt og smá gola. Vonandi verður það svona áfram þegar Iðunn og co með pabba koma í heimsókn, þau fara reyndar beint til Grimsby en við förum líka á morgun og hittum þau.

Bergþóra er alsæl í dag, ein bekkjarsystirin býr í götunni og nú er sko verið að leika þrátt fyrir skort á sameiginlegu tungumáli.

Svava

fimmtudagur, september 06, 2007

Leeds United
Hér sit ég út í garði og blogga, 23 gráðu hiti, logni og glampandi sól. Það er 6. september og veðrið hefur verið alveg dásamlegt undanfarna daga. Við keyptum okkur nokkra garðstóla og borð fyrir nokkrum dögum og það kemur sér aldeilis vel núna. Bergþóra Sól er byrjuð í skólanum á fullu og líkar vel, ég hitti skólasystir hennar í dag sem tjáði mér að hún sæti við hliðina á Bergþóru, ansi skemmtileg stelpa með stríðniglampa í augunum og ansi örugg með sig, áreiðanlega góður félagsskapur þar á ferð. Eins er BS mjög ánægð með hádegismatinn sem henni stendur til boða, sem er mikil breyting frá því að hún kvartaði yfir vondum mat í Heiðaskóla þann tíma sem hún var þar.


Svava fór hjólandi í skólan sinn til að ræða málin við skrifstofuliðið og fl. Þannig að ég sit hér einn út í garði og fæ mér te. Er nokkuð betra í heimi hér en að hugleiða um lífið og tilveruna, og hvað skal gert við slíkar kringumstæður.

Ég fór síðasta laugardag á minn fyrsta heimaleik Leeds United fc. á Elland Road.. Svava og Bergþóra Sól ákváðu að skutla mér, einum og hálfum tíma fyrir leik, sem átti að hefjast klukkan fjögur. Það tók ekki langan tíma fyrir mig að átta mig á því að ég hefði átt að fara um hádegi af stað þegar við sátum föst í umferðaröngþveiti þegar við nálguðumst leikvanginn. En allt gekk þetta vel og eftir að ég hafði keypt miða á dýrasta stað (28 pund), ekki fáanlegir aðrir miðar, þá var það einstök tilfinning að koma inn á leikfanginn nokkrum mínútum áður en flautað var til leiks og að heyra 26.800 manns syngja stuðningsöngva Leeds-áhangenda. Það fór um mig unaðshrollur og ætli maður sé ekki orðinn smá Leedsari eftir þessa heimsókn, það er nú ekki hægt annað. Að vísu voru þarna nokkuð hundruð stuðningsmenn Hattaranna, Luton Town fc. sem voru í heimsókn og þeir létu líka heyra í sér þegar tækifæri gafst. Það er í raun alveg ótrúlegt að koma á leik í 3 deildinni gömlu og það eru tæplega 27. þús. áhorfendur, þetta gæti ekki gerst annarstaðar í heiminum nema hér í heimalandi fótboltans. Leikurinn lauk með sigri “minna manna” og þetta er besta byrjun Leedsara síðan ´84, því miður var búið að draga af þeim 15 stig í byrjun, sem var einnig gert í fyrra þegar var dregið af þeim 10 stig og þess vegna féllu þeir. Enda eru stuðningsmenn Leeds alveg brjálaðir út í Deildarsamtökin og syngja háðsöngva þeim til heiðurs. Jæja ætli þetta sé ekki gott í bili, ég verð kannski eins og mér skilst að Jón Ben var orðinn þegar hann var í Danmörku, að fylgjast jafnvel með Finnsku 2 deildinni og fleira því umlíkt áður en yfirlíkur, svo segir sagan allaveganna. Nonni verðu þá bara að sverja þetta af sér.
Fótboltakveðjur
Gunnar Halldór

sunnudagur, september 02, 2007

Díana prinsessa og Babtistakirkjan
Lítið að frétta hér út rólegheitunum. Er búin að lesa og horfa á sjónvarp. Í fyrradag var sýnt á mörgum stöðvum frá minningarathöfninni um Díönu prinsessu og líka sjónvarpsmyndin sem ég sá að var á dagskrá líka á rúv. Ég veit ekki hvað það er með Díönu prinsessu en ég man að ég grét þegar hún dó og þá var ég ekki alltaf skælandi eins og í dag, í dag þarf ég bara að hugsa um ræðuna hans Harry prins þegar hann talar um mömmu sína til að fara að tárast. Meira hvað maður getur verið meir.
Við fórum í kirkju í morgun, völdum aftur að fara í baptistakirkju South Parade Baptist Church veit ekki hvers vegna en hún er önnur af tveim sem við göngum fram hjá og virðist vera líflegt starf í henni. Messan var löng með bæði söng leiddum af orgeli og svo líka með forsöngvurum með mikrafóna og gítar, trommur og píanó. Samt svona hógvær og róleg athöfn. Margir taka þátt ein las og sýndi brot úr Shrek og talaði um að skammast sín ekki fyrir trúna, eða eins og stendur í rómverjabréfinu 1:16 eg fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið; því það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, presturinn lagði síðan út frá sama versi og talaði lengi og vel og notaði powerpoint. Það var líka altarisganga en þar er aðstoðarfólk sem gengur með brauðið og vínið í litlum staupum til safnaðarins svo maður bara situr og fer ekki til altaris eins og við þekkjum. Svolítið öðruvísi en auðveldar gestum eins og okkur að taka þátt. Annars saknað ég í þessum messum að byrja hana ekki á signingu og í þessar var ekki Faðir vor og ekki trúarjátning. Samt falleg og nærandi athöfn.
Ekki má gleyma því að fólk gaf sig að máli við okkur ung kona og gamall karl sitt í hvoru lagi tilbúin að bjóða okkur velkomin og segja okkur frá hvernig kirkjan starfar, svo við komumst aftur að því að kirkjur eru góðir staðir til að kynnast fólki.
Annars er ég líklega búin að velja mér kór, Leeds Festival Chorus en fyrsta æfingin er ekki fyrr en 19. september og þá á að æfa Messias eftir Handel, ekki slæmt það. Flutningurinn verður svo 8. des í Leeds Town Hall. Kórinn telur eitthvað um 150 manns svo líklega kynnist maður einhverjum þar.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007


Þessir síðustu dagar hafa verið dálítið spes, við hérna á Stanmore Grove númer 17 erum farin að bíða eftir því að fara á fullt og Svava er orðin svo óþolinmóð að ég bíð bara eftir því að hún reyni að ráðast til inngöngu í skólann sinn og öskri; "Hleypið mér inn, ég vil fá að byrja að vinna og læra og hafa fullt að gera".
Annars höfum við nú verið að gera ýmislegt eins og sést á skrifum okkar hér að neðan. Í dag fórum við í langan og góðan göngutúr um hverfið okkar. Það er mjög skemmtilegt að uppgötva smá samann nærumhverfi sitt, maður fær þá á tilfinninguna að maður sé svona landkönnuður og sem slíkur uppgötvar maður smátt og smátt tengingar vega og göngustíga og nýjar verslanir og nýtt fólk. Einn daginn hittir maður einn skeggjaðan karl á bekk í einum garðinum og segir við hann "Doctor Livingstone, I presume?"
Í dag fundum við t.d gamalt kvikmyndahús; http://www.hydeparkpicturehouse.co.uk/ sem vel má vera að ég komi til með að heimsækja nokkuð oft, þeir sýna svona litstrænar myndir -iðekki þetta endalausa ameríska bull sem okkur er boðið upp á og skríllinn elskar að horfa á án þess að þurfa að hugsa, bara verið mataður endalaust, hvað sagði einhver góður maður "ópíum fólksins" en þar sem færrri og færri fara í kirkjur þá eru það amerískar myndir sem koma í staðin sem ópíum. Hyde park bíó bíður meira að segja upp baranasýningar á laugadögum og kostar bara 1 pund fyrir börnin.
Við urðum einnig vitni að glæp, og hefðum getað kært viðkomandi (EF ÞAÐ HEFÐI VERIÐ EINHVER MANNDÓMUR Í OKKUR) og þá hefði hann fengið 100 punda sekt. En semsagt það var ungur maður "-indverja-blendingur" í göngutúr með hundinn sinn sem einnig var einhverskonar bastarður, og semsagt þegar við gengum þarna á eftir þeim félögum þá stoppaði annar þeirra og skeit á miðja gangstéttina stórum og vellyktandi og af því loknu þá var bara haldið áfram eins og ekkert hafi gerst. Við þurftum að taka STÓRAN sveig en samt fundum við vel ILMINN í loftinu. Þessi gaur var ekki einn af þessum sem hafa poka með sér til að þrífa eftir félaga sinn, heldur frekar svona gaur sem "don´t give a shit".
Kv. Gunnar Halldór


Hérna er svo nýja myndasíðan okkar;


þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Skólaundirbúningur

Nú fer að líða að skólabyrjun hjá Bergþóru Sól svo við drifum okkur af stað að kaupa skólafötin. Eins og sjá má á gekk það ljómandi vel, svo eiga eftir að bætast við fagurbláar peysur sem við kaupum í skólanum.

Skokkur og pólóbolur og svaka bros :)
Stelpuleg og sæt í blússu og pilsi.

Þægilegi gallinn joggingbuxur og pólóbolur.


Pæjufötin, aðsniðin skyrta og sniðnar buxur.
Eins og athugulir taka eftir er blaðrið mitt orðið blaðrið okkar og við getum farið að bíða spennt eftir að Gunnar láti móðan mása í netheimum.
kv. Svava

laugardagur, ágúst 25, 2007

Bókapöntun

Ég er búin að panta á Amazon flestar bækurnar sem ég kem til með að lesa í vetur. Það er bækurnar fyrir skyldukúrsana tvo en svo á ég eftir að velja einn. Listinn er hér fyrir neðan og nöfn bókanna gefa hugmynd um það sem ég er að fara að stúdera en svo er eftir að tengja þetta íslenskum veruleika í verkefnum og ritgerðum. Svo sit ég bara við póstlúguna spennt eins og barn sem bíður eftir jólagjöfunum :) . Hér fáum við póst líka á laugardögum og sú fyrsta datt inn í morgun.

EDUC 5146M: SCIENCE EDUCATION: TEACHING AND LEARNING

Gilbert, J. (Ed.) (2004) The Routledge Falmer Reader in Science Education.

Millar, R. Leach, J. and Osborne, J. (Eds.), (2000) Improving science education: The contribution of research.

Mortimer, E.F. and Scott, P.H. (2003) Meaning Making in Secondary Science Classrooms.

EDUC 5147M: SCIENCE EDUCATION: PURPOSES, POLICY & PROFESSIONAL DEVELOPMENT

Bell, B. and Gilbert, J. (1996) Teacher development: a model from science education.

CHALMERS, A.F. (1999) What is this thing called science?

Cobern, W.W. (ed.) (1998) Socio-cultural perspectives on science education: an international dialogue .

Donnelly, J. & Jenkins, E.W. (2001) Science Education: Policy Professionalism and Change

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Hjóladagur

Ég þurfti að fara á pósthúsið í morgun 3 km leið og ákvað að skella mér á hjólinu, ekkert mál var 10 mínútur að rúlla þangað. Ætlaði svo í skoðunarferð og leita að Tesco búð sem er þar á næstu slóðum. Það var orðið frekar lint í afturdekkinu svo ég var kát að sjá Essostöð, hendi pening í vélina sem selur manni loft, já það er ekki gefins hér í Uk. Ekki fór betur en svo að ég losaði allt loftið úr dekkinu og tóks engan vegin að koma í það aftur. Ok þá dreif ég mig inn á stöðina finn þar huggulegan afgreiðslumann í hvítri skyrtu og bið hann að koma og aðstoða mig, reyndi að setja upp damsel in distress svipinn, hélt að það gegni ekki nógu vel því eitthvað var hann tregur að koma út og aðstoða mig. Þegar ég sýndi honum í hverju vandinn lægi og bað hann um að redda málunum fórnaði hann bara höndum, I´m not allowed to do that for you, if I burst the tire I´l be responisble, og engu tauti var við hann komandi hann mátti ekki pumpa fyrir mig en hann gat sýnt mér hvernig vélin ynni, það reddaðist málið því með því að ýta á takka fyrir flatt dekk tókst að koma lofti í tuðruna. En mikið er lífið einfaldara þar sem ekki þarf alltaf að vera að spá í öryggi og ábyrgð, já ég gleymdi að segja að til að fara´þarna út á planið fór hann í neongult öryggisvesti !
Eftir þessar ófarir gafst ég upp á skoðunarferðinni og fór beint í hjólabúðina að kaupa pumpu, búin að gefast upp á þessum peningagleypandi loftvélum sem tæma bara dekkin hjá mér. Með því var ferðin orðin heilir 11 km skv. Google Earth sem ég nota óspart þessa dagana.
Ekki má svo gleyma að á leiðinni stoppaði ég ekki á rauðu ljósi klessti á strák á hjóli og datt á bossann á götuna, sem betur fer á engum hraða og er óslösuð en meðvituðum það að það þarf líka að gegna ljósum á hjóli.

Gunnar og Bergþóra fóru svo hring áðan upp á 8 km svo nú eru allir bara þreyttir.
Tenerife 2007 Ferðasaga
Við byrjuðum á því að vakna snemma (0500) til að taka taxa niður á járnbrautarstöðina í Leeds þar sem við tókum lestina til Peterbourgh og skiptum um lest til Norwich og tókum síðan taxa á flugvöllinn. Flugið var ágætt, full vél að Bretum og svo við. Síðan þegar við lentum tók við rútuferð á hótelið. Semsagt 2 taxar, 2 lestar, flugvél og rúta til að komast á áfangastað.
Gistum á Oasis Golf Resort, voðalega fínt fjögurra stjörnu hótel. Tenerife er eldfjallaeyja og mjög brött, lítið sem ekkert undirlendi svo að það er byggt upp í hæðir og hótelið okkar stendur frekar hátt við hliðina á stórum golfvelli og er líka byggt sem raðhúsalengjur sem liggja hver upp af annari og við í þeirri efstu svo einhverjar 50 tröppur þarf að klífa þangað, sem við höfðum nú bara gott af ;) Íbúðin er á tveim hæðum, eldhús og stofa uppi með bedda í skáp þar sem Bergþóra Sól sefur. Niðri er baðherbergi og svefnherbergi allt snyrtilegt og mjög rúmt. Svakalega fínt hótel en svolítið langt frá ströndinni en það kom ekki að sök því við gátum notað ókeypis strætó til að komast á ströndina og til Möggu sem var niðri í bæ á Hótel La Siesta.

Við fórum þrisvar á ströndina, í rennibrautagarð, og vorum tvo daga í garðinum hjá okkur. Gaman að vera með fólki sem vill vera á ströndinni, mig klígjar við sandi á tánum en elska sjóinn svo ég læt mig hafa sandinn og þau gera óspart grín að mér. Magga og Gunnar tóku bæði langar sundferðir með mér og Óðinn og Bergþóra voru meira og minna allan tíman að leika sér í briminu og komu svo heim með fullar buxur af sandi. Hans Þór lá flatur alla daga að reyna að ná í lit á kroppinn en fór svo á kvöldin að spila pool og horfa á fótbolta.
Það mætti halda að ég væri létt heimsk, gleymi alltaf að láta bera sólarvörn á bakið á mér og svo er það ein brunarúst.

Við skelltum okkur í óperuna, eða þannig, svakalega flott hús með styttum eftir öllum veggjum og alvöru klassísk tónlist spiluð fyrir utan, auglýst Ástarelexsírinn eftir Donizetti og við förum, þá var þetta meira eins og flamingósýning en mikil gæði bæði á dansi og tónlistarflutningi, sem var svona blanda af ýmsu. Ekki spillti fyrir að maturinn á undan var mjög góður ólíkt því sem annars gerist á Tenerife, svo á eftir skelltum við fullorðna fólkið okkur á írskan bar á smá skrall.

Hefðbundið notalegt sólarfrí, erum núna komin heim- myndir á http://www.picturetrail.com/svavap

mánudagur, ágúst 13, 2007

Krakkarnir farnir - Adiós estamos a la sol

Fórum í dag í bæinn og keyptum síðustu hlutina á tossalistanum. Allir keyptu eitthvað nema ég og Jón fór hamförum í sportbúðinni sem er alltaf með útsölu keyptum:

3 gallabuxur
6boli
2 nærbuxur
2 stuttbuxur
1 hjólavesti
2 úlpur
1 fótboltahanska
1 joggingbuxur
1 sundpoka
og allt fyrir 178 pund = á alltofháugengi 24.030 kr meðalverð 1264

Þá tekur við hjá þeim að undirbúa skólabyrjun og okkur þremur að skreppa til Kanaríeyja og hætta að borða McDonalds og Burger King, erum búin að fá overdose af því.

Heyrumst líklega ekki fyrr enn að viku liðinni Adiós estamos a la sol

laugardagur, ágúst 11, 2007


Bara rólegheit- og fótboltinn alveg að byrja-youtube-Skype


Takk fyrir kveðjuna Nonni, nei Gunnar er ekki búinn að kaupa ársmiðann og ekki risastóra flatskjáinn svo hann ætlar á pubinn í dag til sjá boltann sem byrjar loksins í dag. Blöðin hafa verið full hér af hrakförum Leeds United sem byrjar með mínusstöðu 15 stig svo það verður gaman að fylgjast með (ég kemst víst ekki hjá því nema verða bæði blind og heyrarlaus) hvernig gengur. Ætli það endi ekki með því að ég verði farin að svara íþróttaspurningum eins og herforingi í Trivial Pursuit og geti þá verið ein í liði.

Ég var ein í nokka klukkutíma í gær það hefur ekki gerst í langan tíma. Gunnar og krakkarnir fóru í keilu, en unglingarnir eru reyndar alltaf í keilu og strákarnir komu mjög kátir heim því þeim gengur alltaf betur og betur, náðu þrem fellum í röð og 170 í skor.
-o-
Vinkona mín ein minnti mig á tilveru Skype og ég talaði við hana þar svo þið sem eruð með Skype getið bætt okkur við þar hef nafnið svavapeturs , hlakka til að heyra í einhverjum þar.

-o-



Við höfum ákveðið að myndir eru ekki nóg til að sýna myndir í Bretlandi svo lifandi myndir eru að gubbast núna inn á netið. Fyrsta prufan er af prinsessunni á bænum prófa hjólabrettið hans Jóns í götunni hennar Huldu. Slóðin er http://youtube.com/profile?user=SPogGHG held ég allavega er að læra á þetta.

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Kærar kveðjur til allra sem lesa bloggið mitt, sérlega þeirra sem skilja eftir athugasemdir

Ég er að komast að því þessa dagana hvað margir eru að lesa kom til dæmis vel í ljós þegar ég skellti símanúmerinu inn og fólk bara farið að hringja því Gunnar er búinn að kaupa símtæki á heilar £ 2.95.
.
Gerður spurði hvað væri að frétta af myndasíðunni minni, plássið á henni var orðið fullt en það er á dagskránni að taka út eldri myndir og skella inn nýrri. Læt ykkur vita hvernig það gengur.
.
Er komin heim til Leeds það er orðið þrælauðvelt að keyra hérna á milli flóknast að komast inn í borgina en þá er ég orðin vön að finna leiðina heim þó ég taki nokkrar vitlausar beygjur.
.
Bíladagurinn m ikli





Þarna sjáið þið okkur öll sælleg og nýbúin í Go Kart
Einbeitti bílstjórinn með rauða hjálminn er enginn annar en Bergþóra.
Mér var nú um og ó að hleypa henni af stað en hún keyrði eins og hún hefði aldrei gert annað, óhikandi og einbeitt. Les, Jón og Pétur keyrðu af öllum krafti, Luke og Jessica eftir bestu getu en Hulda sagði að ég hefði litið út fyrir að vera á sunnudagsrúntinum :) Svakalega skemmtilegt en ég var alveg sátt við að stoppa eftir 30 mínútur en unglingarnir hefðu viljað meira.
...........
Svo borðuðum við á yndslegri krá, þurftum að keyra yfir ,, á " til að komast að henni, gátum borðað undir berum himni og horft á fuglana.
.........
Svo lá leiðin í Skegness, ég er búin að skemmta mér mikið á öllum þessum akstri að lesa nöfnin á þorpunum það sniðugasta hingað til er Kexby :) í Skegness fórum við á Stock Car racing, kappakstur á stuttir braut á litlum bílum og svo var líka klessubílaakstur og fallhlífastökk.
Í lokin voru flugeldar nokkrar svona heimilstertur á íslenskan mælikvarða. Gaman að sjá þennan kappakstur þó við skildum ekkert í reglunum og hvað væri í raun að gerast.

þriðjudagur, ágúst 07, 2007

Staða síðustu seiðatalningar - æi nei meina bitatalningar

Svava 35 víðsvegar (4 bólgin og slæm, ber mig samt karlmannlega eða þannig)

Jón 2 mjöðm og bak (svo hann er í herferð að drepa allar moskító í Englandi, vopnaður sprayi)

Pétur 20 á baki

Gunnar - State secret

Bergþóra 0 Heppna gellan

Lilja 0 (samt sáum við eina sjúga úr henni en Lilja sýnir engin við brögð, líka heppna gellan)

Hulda þó nokkur aðallega fætur

Les 2 mæti halda 20 miðað við hvað þau pirra hann mikið (karlmenn)

Jessica 2 á fæti slæm og bólgin

Luke - classified information
Grillpartý og Flamingoland

Vorum öll boðin í grillpartý hjá Mark bróður Les og Trinu konunar hans á sunnudag. Þar voru 3 systkini Les, með mökum og börnum sem eru flest hálffullorðið fólk svona á bilinu 13 - 24. Jón og Pétur skemmtu sér vel við að segja tröllasögur frá Íslandi um verðlag ógeðslegan mat og þess háttar. Fyrir utan það að njóta þess að líta út eins og tröll við hliðina á litlu ensku mönnunum. Allir komu með sitt kjöt og svo borðuðu allir þegar þeim best hentaði en meiri bjór og breezerar fóru ofan í fólkið en matur. Mikið fjör- myndir síðar.

Fórum öll í Flamingóland sem er tívolí og dýragarður í einum garði. Stóru krakkarnir fóru í allskonar manndrápstæki og tókst meira að segja að hafa Jessicu með sér sem venjulega fer ekki í tívolítæki. Við röltum um dýragarðin og fórum i nokkur rólegheitatæki og nutum sólarinnar sem skín mikið þessa dagana. Tókum með okkkur nesti sem við kældum með frosnum 2 l flöskum eins og Gerður kenndi mér að gera í DK.

Erum núna á leiðinn í gokart.

sunnudagur, ágúst 05, 2007

Skegness og kirkja

í gær ætluðum við í sundlaugagarð rétt utan við Skegness en af óviðráðanlegum ástæðum (vinna, kaupa sundfö, umferðarteppa) komum við svo seint að það tók því ekki að borga sig inn. Fórum þá í tívolí/markað krakkarnir fóru í rússibana og hringavitleysuekjur en ég og Hulda keyptum handklæði.
:::::::::::::::::::::::::::::(((((((((((((((((((())))))))))))))))))):::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::::

Við Gunnar fórum í messu í morgun . Hulda var alveg gapandi hissa þegar við komum prúðbúin niður, hún hélt við værum að djóka í gær þegar við sögðumst ætla. Church of England kirkjan hér næst var með messu 9:30 svo við náðum henni ekki en nokkrum húsum frá er Babtistakirkja sem við fórum í fjölskyldumessu. Minnti á hvítsunnusöfnuð sungið í micrafóna en var svartur talaði með einherjum karabískum hreim en svakalega góður ræðumaður.

laugardagur, ágúst 04, 2007

Týnd og villt, en komin með símanúmer

Miðað við að við erum nýgræðingar í umferðinni hér í UK hefur okkur gegnið vel að komast á milli staða. Í gær samt tókst mér að týna Gunnari og stelpunum með því að missa af einn beygju, svo gekk illa með síma sem voru til skiptis rafmagnslausir og innistæðulausir að ná saman aftur en hafðist svo bara fyrri heppni.
Erum komin til Huldu til að vera hér a.m.k. fram á mánudag. Er komin með símanúmer en hér í UK er umferðin öfug, rafmagnsinnstungurnar öðruvísi og símatengin líka svo ég þarf að kaupa mér símtæki áður en númerið fer að nýtast mér læt það samt hér.
Númerið mitt er 0044 113 2160191 hlakka til að heyra í ykkur :)

föstudagur, ágúst 03, 2007

Krakkaskemmtanir

Fórum í keilu í fyrradag og á pizza hut.
Í gær fórum við til York, fórum í Jorvik vikingasafnið það er mjög skemmtilegt, gestir fara í svona kláf sem fer með mann í gegnum endurgert víkingaþorp þar sem vaxbrúðurnar tala íslensku, slæma íslensku sem krakkarnir hlógu að. Vikingar voru í York í 100 ár og mikið verið grafið upp af minjum um veru þeirra þar.
Svo gegnum við um miðbæinn sem er alveg sérstaklega skemmtilegur þröngar gamlar götur, lentum á skemmtilegum útmarkaði og keyptum þýskar pylsur. Gengum a[ York Minster sem er eina af elstu dómkirkjum í Evrópu, núna kostar £9 að skoða hana en þegar ég kom fyrir fjórum árum var eitthvað smá gjald svo við slepptum því að fara inn enda krakkarnir ekki spenntir fyrir kirkjum.
Næst lá leiðin í York Dungeons sem er safn með lifandi leikurum sem leiða okkur í gegnum allt það ógeðslegasta sem ensk saga hefur upp á að bjóða, pláguna, galdraofsóknir, hengingar, pyntingar og drauga . Ég var kölluð fyrir réttinn og dæmd sek fyrir að dansa nakin á St. Georges Heath og fara með særingar til að særa til mín mann :) Hvernig haldið þið að ég hafi náð í Gunnar. Hann greyið var dæmdur sekur fyrir það eitt að vera íslendingur. Mér var um ó og ó þarna inni en mæli samt með safninu fyrir þá sem þora ;).
Við notuðum park and ride, þá leggur maður bílnum á stæði fyrir utan borgina og tekur strætó inn og losnar við að þvælast í þröngri ókunnri miðborg við að leita að stæði og getur í staðinn notið ferðarinnar og útsýnisins.
Enduðum svo daginn á Burger King.
Gleymdi við leigðum bíl, konan tvítókað þetta væri "real tiny car" og horfði á okkur Gunnar, alminnsta gerð af peguot 107 en virkar vel.

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Ætlum í sólarfrí

Jæja við erum búin að hafa það bak við eyrað að skella okkur kannski í alvöru spánarsól og nú er það ákveðið við förum til Tenerife 14. ágúst í viku. Magga verður þar með sína stráka á sama tíma. Við verðum á Oasis resort sem er fjögurra stjörnu gisting en við fengum þetta samt á fínu verði og förum með First Choice . Við verðum reyndar einhverja 1,5 km frá Möggu en ættum að ná saman samt og geta sólað okkur, hlökkum mikið til.

þriðjudagur, júlí 31, 2007

Má til að skella hér tveim myndum af Bergþóru




Með pabba sínum í tveggja hæða strætó.
Á leið í fyrstu alvöru lestarferðina.

Krakkar í heimsókn - Svava ökuþór og personal shopper

Krakkar í heimsókn - akstur og versla

Jæja nú er smá róleg stund, ekki mikið um það á meðan við erum 6 manna fjölskylda svo nú get ég sýnt ykkur mynd af fína bílnum sem Les fann fyrir okkur, takið eftir sóllúga, geislaspilari og spoiler!

Ég er orðin svakalega flink að keyra hér spyrjið bara krakkana en ég fór með þau á laugardag í Tesco, á sunnudag í risastórt mall White Rose Shopping Center og í bæinn í gær. Ég sá mér ekki annað fært með fullt hús af unglingum að kaupa sjónvarp, bara smá kettling ekkert eins og breiðskjáinn sem Gunnar dreymir um.

Lilja er alsæl og búin að versla frá sér allt vit og aðeins búin að smita mig, ég var nú ekkert döpur að sjá að hér í NEXT og Monsoon er til í minni stærð svo ég keypti smá. Það var nú bara smá miðað við the Queen of Shopping sem er búin að kaupa 30 hluti, kannski ekki annað hægt þegar maður fer á clearance sale hjá NEXT. Strákanir og Bergþóra létu sig hafa að bíða og fundu sér eitthvað að dunda á meðan, Jón keypti sér skateboard en það virðist vera fastur liður í útlöndum.
Allt liðið skellti sér í sund, gott mál, en ekki spurning að það hefði nú verið betra að vera í íslenskri útilaug í þeirri sól og blíðu sem búin að vera hér í dag.

laugardagur, júlí 28, 2007

Krakkar í heimsókn og akstur

Það gekk ljómandi vel að keyra frá Grimsby til Leeds, vorum með útprentun úr auto-route en það reyndist okkur best að fara eftir skiltum og vegmerkingum, tókum þrjár smáslaufur. Krakkarnir komu í gærkvöldi og Gunnar sótti þau. Þeim finnst agalegt að við skulum vera sjónvarpslaus.

fimmtudagur, júlí 26, 2007

Bloggað hjá Huldu- bílakaup

Jæja við lýsum okkur sigruð í bílastríðinu og erum nú í Grimsby að kaupa bíl. Pabbi sagðist fyrst myndu gefa okkur viku og svo 10 daga en nú eru liðnir 14 og við erum sigruð. Þetta var í sjálfu sér ekki flókið reikningsdæmi, strætó dagpassi fyrir okkur þrjú £6,5, bílaleigubíll meðan krakkarnir eru hér £ 400- 500 , lest til Grimsby fram og til baka fyrir okkur £ 61. Svo þegar Les hringir og segist vera með fínan Ford Escort Estate 1998 station fyrir £500 létum við slag standa. Auðvitað segir það sig líka sjálft að það er meira frelsi í að hafa bíl og auðveldara að draga björg í bú.
Ég fór í gær og gekkst í bankamálin og fæ reikning hjá Barkleys og debetkort þegar póstverkfalli lýkur. Fór á hjólinu og komst að því að með smá krók kemst ég hjá lífshættulega bröttum brekkum og er ekki nema 10 - 15 mínútur á leiðinni.
Enn rignir............
Skráðum okkur hjá lækni og það var ekkert mál. Pantaði síma, hann kemur 3. ágúst þá hringi ég í ykkur öll og læt ykkur vita númerið.

þriðjudagur, júlí 24, 2007

bækur- flóð- banki- bíó.

Mikið er gaman að fá svona mikið af kveðjum hér á blogginu, maður færist allur í aukana og vill bara skrifa og skrifa. Annars er ég búin að vera niðursokkin í bókina ,,Viltu vinna milljarð", óborganleg bók sem ég hvet alla til að lesa, ein af þessum sem staldra við í huga mans og vekja mann til umhugsunar. Takk kærlega fyrir lánið Inga, Gunnar er byrjaður á henni núna en ef hann verður eins niðursokkinn verður hann búin með hana áður en krakkarnir fara heim aftur. Þau koma núna á föstudaginn og verða í hálfan mánuð.

Það hefur líka vakið mann til umhugsunar umræðurnar í útvarpinu hér í morgun, en fólk hringir inn eða sendir þáttastjórnandanum línu og er að tjá sig um málefni líðandi stundar sem þessa stundina eru flóðin í suður Englandi, þar er vatnslaust og skemmdir vegna þeirra. Sumir áheyrendur skammast yfir yfirvöldum og litlum vatnsskömtum meðan aðrir skammast yfir að englendingar skuli vera að kvarta hafandi það eins gott og þeir hafa, að þeir ættu að líta til annara sem líða meiri skort og hafa jafnvel aldrei aðgang að hreinu rennandi vatni.
-----oooo---

Við erum hálfgerðir kálfar stundum. Þegar Hulda kom á föstudaginn var voða huggulegt hjá okkur blóm og kerti, kaffi og vöfflur en hún varð hálf kindarleg þegar við sögðumst bara hafa fundið blómin úti á götu , auðvitað hefðum við getað sagt okkur að þau voru lögð þar til minningar um einhvern sem hafði látist þar en við bara hrósuðum happi og erum búin að hlægja mikið og vandræðalega að heimskunni í okkur og vonum bara að ekki hafi sést til okkar grafarræningjanna. Ætti kannski ekki að segja frá svona en þið getið kannski hlegið mér mér.

----------ooooo----------

Í gær fórum við í bæinn og í banka og það var eins og mig hafði grunað alveg agalega leiðinlegt og seinvirkt kerfi, mér finnst svona svo leiðinlegt að ég nenni ekki einu sinni að skrifa um það. Frekar vil ég bara segja frá því að við fórum á Harry Potter og ég keypti mér 2000 stykkja púsl :) Bergþóru fannst líka frábært að fara í tveggja hæða strætó.

sunnudagur, júlí 22, 2007

Hulda og Les í heimsókn

Þau komu í gær og við fórum í IKEA fylltum bílinn af einu og öðru og skoðuðum skápa en þá vantar hér í kotið hjá okkur. Um kvöldið fórum við niður fjallið eins og Hulda sagði niður á indverska veitingastaðinn sem við Gunnar vorum svo ánægð með hér um páskana. Hann heitir Sheesh Mahal og er ódýr en alveg frábærlega góður, persónuleg þjónusta, þjónninn sem við grunuðum um að vera eigandann snerist í kringum Bergþóru að láta hana fá mat sem hún myndi borða og gaf sér góðan tíma við að aðstoða okkur við að panta.
Þegar við vorum að labba heim var allt í sniglum bæði með húsið á bakinu og líka stórum hlussum sem Les kallar slugs, þeir skríða svona út um allt þegar það rignir og já það er ennþá rigning og ég heyrði í þrumum áðan, vona að þessu fari nú að ljúka allavega spáir góðu á morgun en svo á aftur að fara að rigna.
Í dag bakaði ég lummur en í gær vöfflur nóg tími í alls konar dútl þessa dagana, keypti svo eitthvað sem kallað er double cream og þeytti hann svo úr varð hnausþykkt krem, en á víst að kaupa whipping cream, þarf að læra á hvaða vörur henta manni en þó þetta séu lík lönd er sumt öðruvísi. Það sem við höfum rekist á er að ekki er til rúgbrauð, remúlaði og sætt sinnep en á móti er til sægur af öðru sem við vinnum hörðum höndum við að prufa :)
Eins gott að Huldu finnst gaman í búðum því í dag fór hún með okkur í Tesco sem er risastórmarkaður með öllu sem nöfnum tjáir að nefna keyptum örbylgjuofn, símanúmer, Harry Potter, hreingerningarvörur, mjólk, jarðaber, boltaleik, sherry, súkkulaði, lauk, og einhverja hundrað hluti í viðbót ;)
Takk fyrir heimsóknina Hulda og Les og Fudge.

föstudagur, júlí 20, 2007

Skóli og prjón

Bergþóra fór í skólann í gærmorgun og kom gífurlega ánægð til baka vildi helst ekki fara heim. Hún var í fótbolta með stelpunum sem eru mjög glaðar að fá nýja stelpu í bekkinn því það vantar frekar stelpur en stráka í bekkinn.

Skólinn sem hún fer í heitir Kirkstall Valley Primary School og er gamall og fastur í sessi. Þegar við heimsóttum skólann daginn áður og fórum með skólastjóranum um skólann. Hún er ein af þessum konum sem hafa greinilega verið kennari af lífi og sál og talar mikið um hvað börn séu frábær og klár og komi manni sífellt á óvart. Það var líka greinilegt af samskiptum hennar bæði við nemendur og starfsfólk að þessi sýn hennar smitar allt skólastarfið og við sáum ekkert nema ánægju í hverju horni svo við erum mjög sátt við að Bergþóra verði þarna næsta vetur. Skólinn er fyrir börn 3 - 12 ára, svo hann er líka leikskóli. Krakkarnir eru í skólabúningum svo það verður eitt af verkefnum okkar í sumar að kaupa svoleiðis.

Ég eyddi deginum í þrif á mili þess sem ég lagði mig, tókum líka upp úr nokkrum kössum en nú eru bara 5 með dóti í þurfum samt að kaupa eitthvað af hirslum og gerum það vonandi um helgina þegar Hulda kemur í heimsókn og við förum í IKEA, en Hulda er víst með lista frá samstarfsfólki sínu því sænska línan er það heitasta í uk í dag :)

Ekki má gleyma því að ég kenndi þeim feðginum að prjóna og svo erum við sjónvarp og útvarpslaus og spilum bara á kvöldin matador og manna.

miðvikudagur, júlí 18, 2007

Thunder and lightning

Bæði í gær og í fyrradag voru þrumur og eldingar og hvílíkar hellidembur en
svo kemur sól á milli. Ein fréttin í Leeds í dag er að það kviknaði í húsi hér vegna eldingar. Við Bergþóra Sól fórum svo á hjólunum fyrst að pumpa í dekkin það var á sjálfsala og þurfti að stilla inn loftþrýstinginn sem á að vera í dekkjunum . Svo að kaupa lás á hjólin og svo loksins í sund. Ekki má gleyma að segja frá því að við vorum rétt lagar af stað þegar það kom hvílík demba svo ég er núna miss wet T-shirt of the Year í Leeds.

Mikið er baðmenning mismunandi milli þjóða. Heima striplumst við svona mátulega um og ég vorkenndi alltaf svo túristunum í klefunum í gamal Bláalóninu þar sem maður rak ber brjóst og rass utan í næstu konu og þær voru greyin að reyna að klæða sig undir handklæðinu. Í Kína í sundlauginni gengu þær um alsnaktar eins og ekkert sé en hér eru tjöld fyrir sturtunum og allir skipta um föt í lokuðum klefum og... engin sápa í sturtunum. Annars var sundlaugin fín, löng og allt hreint og fínt.

Indverjakrúttið er búinn að slá garðinn og klippa runna, fínt að hafa svona einkagardner. Ég bjóst nú við að húsið yrði frekar óhreint en það kom mér á skemmtilega á óvart hversu snyrtilegt það er, samt greinilegt að það voru krakkar sem þrifu hér svo ég er aðeins að snurfusa í kringum mig.

þriðjudagur, júlí 17, 2007















Flutt
Vorum yfir helgina hjá HUldu systir í besta yfirlæti, rauðvín á herju kvöldi, grill, mexicanskt indian takeaway, hvað er hægt að hafa það betra.





Við fórum á laugardaginn í National fishing Heritage center sem er safn tileinkað fiskveiðum frá Hull og Grimsby það er mjög skemmtilega sett upp, þannig að maður fer í gegnum allt sjómannsferlið frá því að ráða sig svo á heimili sjómanns, svo um borð þar sem öll rýmin eru sýnd á raunverulegan hátt með vaxbrúðum. Lestin, matsalurinn, kyndiklefinn, káeturnar svo er landað og hýrunni eytt á pöbnum og við verlunargötu. Við munstruðum köttinn hennar Huldu um borð svo ég gæti hætt að taka ofnæmispillur. Hann heldur greyið að ég sé vinur sinn og stökk uppá mig þar sem ég svaf í sólstofunni. Annars er öllum kvikindum hér vel við mig allavega hljóta þær að vera alsælar mýflugurnar sem nöguðu á mé löppina svo hún er stokkbólgin.










Á sunnudeginum fórum við svo til Hull í sædýrasafn sem heitir The Deep http://www.thedeep.co.uk/ alveg frábært gengum svo um miðbæinn og höfnina.








Í gær keyrði Hulda okkur svo til Leeds. Það gekk ljómandi vel, sólin skein og og indverjakruttið var mættur á staðinn, að slá grasið og hreinsa út drasl frá síðustu leigjendum. Bíllinn með dótið kom fljótlega á eftir okkur við rusluðum því af bílnum og fljótlega inn sem betur fer því enskt veður er eins og á íslandi síbreytilegt.
Í morgun fórum við í viðtal við skólastjórann í Kirkstall Valley Primary School. Okkur leist mjög vel á skólann, þau virðast vera vön að hafa nemendur sem eru að læra ensku í fyrsta skipti. Í skólanum er einn bekkur í hverjum árgangi og hún verður 25 nemandinn í sínum bekk. Bergþóru leist vel á sig en mér fannst skrýtið að sjá bygginguna og hvað hún er full af dóti en skólinn virðist vel græjaður t.d. er smart board í stofunum hjá eldri árgöngunum en í skólanum eru börn frá 3 ára til 12 ára.
nú erum við í letikasti gott hjá okkur :)