Góðar áætlanir fara oft í vaskinn en ekki að þessu sinni. Ég setti mér það áramótaheit að birta eina mynd á instagram (allar myndirnar hér) á dag allt árið 2014. Ákvað svo að breyta því og gera eitt á dag á einhverjum samfélagsmiðli og nota mismunandi aðferðir hvern mánuð. Svo hér eru 35 myndir frá janúar, enginn sagði að ég mætti ekki birta meira en eina mynd á dag.
Ef við byrjum neðst þá eru bara rólegheit, Kristín með nýja kærastanum á nýjarsnótt, Gunnar í ipadinum, hrökkbrauð í nesti og rúsínur í Blóðbankanum, svo lóð úr leikfiminni. Glöggir taka kannski eftir að það eru engar myndir af strákunum mínum og það verður að viðurkennast að ég hitti þá bara einu sinni í janúar, þá fórum við að borða á Langbest því Pétur varð 24 ára og fórum svo að skoða hann Einar Inga, son Maríu systurdóttur minnar, svo það er bara mynd af honum og kortinu sem ég föndraði.
Gunnar, Lilja og Kristín fóru til Danmerkur á EM í handbolta, engar myndir af því ég var ekki þar. Þá tókum við Magga systir Star Wars maraþon og horfðum á þær þrjár eldri í einni beit. Gabríel var hjá mér meðan liðið var í Danmörku og við höfðum það mjög notalegt, spiluðum Mario Bros og mér fannst ég hoppa 20 ár aftur í tímann að vera bundin af því að sækja á leikskólann og þurfa að rjúka úr vinnunni.
Matarmyndirnar tengjast allar fólki. Ég var glöð að endurheimta Gunnar frá Danmörku og bakaði lummur og steikti bacon. Pönnukökurnar fengu Rhona og Kristján frændi Gunnars, hálfkláruðu tertuna bakaði ég fyrir pabba sem varð 69.
Þarna eru líka fullt af vinnumyndum, tveir áttu afmæli og komu með köku, annar hann Birgir, þessi sem er eins klæddur og ég. Ester Ýr er þarna að tala á námskeiði sem við stýrum um náttúruvísindi á 21. öld og það eru myndir úr heimsóknum og kennslu tengdu því. Rosalega gaman að vinna með þeim svona ungum og snöggum.
Mánuðurinn endaði á viku flensu sem ég lá heima í ullarsokkum, spilaði tölvuleiki og horfði á Greys Anatomy. Fann líka nýtt app til að vinna myndir þess vegna eru þessar unnu myndir af Pétri og Gunnari. Bergþóra kom í heimsókn, fórum að sjá Mary Poppins, alveg rosalega flott sýning og skemmtileg. Við ætluðum upp í sumarbústað en erum of slappar svo erum heima að spila RISK og hafa það notalegt.
Í lokin eru hefbundnir liðir þarna, göngutúr að hitta gæsirnar, saumaklúbbur með Fríðunum, blaðabunkinn sem bíður á hverjum morgni, nótur af kóræfingu, fór reyndar að syngja líka með Kirkjukór Víðistaðakirku, var fyrir að syngja með Samkór Kópavogs.
Ágætisleið að halda utanum hvað gerist hvenær með instagram, ætti samt að taka meiri myndir af fólki en það bara gleymdist stundum.
Mjög skemmtileg skýrsla, fínn mánuður.
SvaraEyðaGaman af þessu, mikið ertu dugleg :)
SvaraEyðaMP