þriðjudagur, ágúst 22, 2006
Ferðasaga 6. hluti
13.-15. ágúst: Beijing
Við dveljum síðustu tvær nætur ferðarinnar á Marriott-hótelinu í Beijing.
14. ágúst, leyfðum okkur að hvíla okkur til 11:30, Í dag er frídagur svo hópurinn skiptist, við röltum 5 af stað með það í huga að sjá borgina fótgangandi, heimsækja Torg hins himneska friðar og verslunargötu eina mikla. Fljótlega eftir að við lögðum af stað steðjaði að okkur flokkur leiguhjólamanna sem vildu fara með okkur í und erground city, við þáðum það ekki og löppuðum áfram, ekki hefði túrinn orðið langur því örfáum mínútum seinna vorum við komin að innganginum. Þó ferðinni hefði ekki verið heitið þangað þótti okkur tilvalið að skoða fyrirbærið. Á árunum 1969- 1979 lét Maó byggja neðanjarðarborg, sprengjuskýli undir Beijing sem rúmað getur 360 þúsund manns ef til hernaðar kæmi. Við vorum leidd þarna um kerfi ganga flísalögð upp á miðja veggi en hvítmálað í loftið ég náði nokkurn veginn upp í loft með því að teygja mig. Við innganginn voru veggirnir klæddir með camouflage efni. Mikill raki var í göngunum og í gólfunum oft, mottur eða plankar til að ganga á, þessi hluti var vel upplýstur og rakaskemmdar ljósmyndir og listaverk á veggjunum.
Göngin liggja um alla borg, undir Forboðnu borgina, sumarhöllina, hof himinsins, og alla leið að múrunum 50 km leið auk þess sem sum liggja að heimilum. Útskot voru þarna merkt, lesherbergi unga fólksins, föndurrými eldri borgar og svo auðvitað silkiverksmiðja og sala fyrir túrista, við erum nú samt orðin svo ónæm að við gengum þar í gegn án þess að kaupa eitt einasta stykki. Í göngunum mátti hvergi taka myndir og ekki tókst að hnika unga leiðsögumanninum í því þó hann fengi Bubbadisk í gjöf og spjall um Björk. Á þessari vefsíðu fann ég þó myndir úr göngunum. http://www.china.org.cn/english/travel/125961.htm
Þegar við komum aftur upp á sama stað gengum við áfram eftir einni hrörlegustu götu sem ég hef séð, líklega er tímaspursmál hvenær húsin við hana verða rifin, allavega var verið að rífa mikið í nágrenninu og agalegt að sjá fólkið vinna í rústunum, ég gat ekki betur séð en að eftir að væri búið að rífa kæmi fólk og leitaði að málmhlutum, allavega sá ég á nokkrum stöðum konur með kerrur fullar af málmrusli, kannski er það bara hluti af niðurrifinu. Við þessa götu voru hótel, við sáum inn í heimili, tannbursta á hillu og þvott á snúru og fólk að elda og borða sem reyndar er ekki óalgegnt í Beijing. Við enda niðurrifsins vorum við komin að hringiðu borgarlífsins, stelpa sat í undirgöngum og spilaði á kínverska fiðlu, allskyns sölumenn og betlarar. Við litum við í fatarbúð sem minnti að rúmfatalagerinn, þar voru kjólar á 10 yuan eða 100 iskr. og bolir á 8 yuan. Kjólar í New world mall kostuðu allt í 3000 yuan. Næst lá leiðin í verslun sem seld allt mögulegt fólk þurfti að bæta við töskum undir innkaup undanfarinna daga, silki, koparstyttur, kistla og málverk. Meira að segja þar þurfti að prútta, og ég segi þurfti því verðið sem nefnt er í upphafi er svo fáheyrilega hátt, hærra en nokkursstaðar þyrfti að borga á Íslandi en svo sýndist mér fólk borga 25 – 40 % af því þegar upp var staðið. Og ég segi það aftur að þessi verslunarháttur hefur þau áhrif á mig að ég eiginlega keypti sem minnst.
Uppi á þriðju hæð í verslunarhúsi fundum við netkaffi og fengum okkur kalda drykki og lásum um árásirnar í Líbanon. Skrýtið að í þessari mannmergð var hæðin eiginlega tóm örfáir kúnnar og kaffið leit fyrst út fyrir að vera lokað. Eftir kaffið var farið að rigna svo við keyptum regnhlífar á 10 yuan og spókuðum okkur með þær.
Jæja undir tvö undirgöng enn og vorum þá komin að grafhúsi Maós og söfnunum við torgið, þar hittum við háskólastúdenta sem sögðust vera að læra ensku og okkur fannst bráðsniðugt að fara svona út og spjalla við túrista, svo kom reyndar í ljós að þau vildu fá okkur á myndlistasýningu nemenda sem auðvitað var líka sölusýning.
Loksins Torg hins himneska friðar, hvílíkt nafna því þetta torg minnir mig bara á þegar barið var á stúdentum þar í júni 1989, þá var ég með öðrum nýútskrifuðum kennurum í Búlgaríu og einhvernveginn fengu þessar fréttir mikið við mann, líklega þar sem þetta var fólk á okkar reki sem ekki hafði unnið annan glæp en að vera ósátt við gang mála. Torgið er risastórt, á að taka milljón manns og tilkomumiklar byggirnar allt um kring, Forboðna borgin, söfn, alþýðuhöllin og grafhýsið.
Í þessari gönguferð sá maður í návígi það sem Carmen hafði sagt að í Kína vantar aldrei fólk, allir vinnuflokkar sem við sáum voru a.m.k. 9 manns, margir með skóflur, haka og kerrur til að brjóta niður smá veggstubb, eða eins og þegar Silla hélt að þeir sem voru við vegarkanntin að hirða um hann væru kantsteinar því þeir dreifðust svo reglulega.
Við fundum fljótt verslunargötuna Wangfujing daije sem er eins og í öðrum stórborgum að hluta til göngugata, risastórar byggingar á báða vegu með stórum verslunarmiðstöðum, við heimsóttum nokkrar og keyptir voru leðurjakkar, skór og jaðeskartgripir. Svo svarf hungrið að og fyrir mikla gæfu römbuðuð við inn á þennan líka frábæra andarveitingastað Quanjude í hliðargötu, mér sýndist þetta nú fyrst vera banki en við nánari skoðun kom í ljós að á hverri hæð var veitingahús. Okkur var vísað upp á 5. hæð, eitthvað þótt peningaleg eða því við báðum um roast duck eins og einhver hafði séð vísað á utan á húsinu þó ég sæi bara Construction bank of China. Þetta var hvílíkur klassastaður, hreinn, flott klósett, heit þvottastykki, sæt þjónustustelpa sem talaði allt í lagi ensku, og himneskar endur sem fylgdu skírteini að væru nr. 149323 og 4 frá því árið 1864. Á undan var huggulegur grænmetisréttur með sellerí, valhnetum og rauðum baunum, svo skar kokkurinn öndina niður fyrir framan okkur, húðina fyrst í alveg listræna bita sem runnu í munni, svo kjötið. Stelpan sýndi hvernig átti að koma herlegheitunum saman en hver og einn fékk smá ílát með sósunni, lauknum, gúrkum, hvítlauk og sykri og mörðum hvítlauk, þessu er öllu raðar saman í örþunnar hvítar pönnukökur og svo borðað með bestu lyst. Með þessu drukkum við Great Wall rauðvín, mjög gott, Evian vatn, ekki mjög gott, og svo kom á eftir heill fiskur djúpsteiktur og með súrsætri sósu.
Næst gat ég ekki á mér setið og dró þau inn í bókabúð, meðan þau skoðuðu cd og dvd lá ég i bókunum, því miður var þetta ekki venjuleg bókabúð heldur Foreign language store, með lestrarbókum á ensku með ýmsum þyngdarstigum einskonar graded readers um allt á milli himins og jarðar. Líka stór deild með kennsluefni í kínversku, ég reyndi nú að lesa smá en kínverska er greinilega stórt fjall að klífa, enda til einhver þúsundir tákna og orðin þýða mismunandi eftir áherslum. Áherslurnar eru fjórar, upp í endann, niður í endann, flöt og upp og niður, svo sama orðið getur haft fjórar mismunandi þýðingar. Við keyptum öll töluvert af cd og dvd sem voru hræbilleg en Gunnar bætti um betur og fékk sér kennslubók í kínversku.
Dagur 15: Beijing-Kaupmannahöfn-Keflavík
Flug með SAS frá Beijing (kl. 14:45) til Kaupmannahafnar þar sem lent er um kvöldmatarleytið (kl. 18:30). Framhaldsflug til Íslands um kvöldið. Þeir sem það kjósa geta framlengt dvöl í Kaupmannahöfn.
Síðasti morgunmaturinn á Mariott, ferlega góður, eftir Tíbet kunnum við svo sannarlega að meta að fá allskonar brauð, kokk sem eldaði eggin eftir okkar óskum, margar gerðir af safa, fínt smjör, ost ofl ofl. Veit ég ekki hvort einhver nýtti sér austurlenska morgunverðinn sem líka var boðið uppá alls konar dumplings, súrtsætt grænmeti, súpur og núðlur.
Flugið heima var mikið auðveldara, kannski bara auðveldara að fara á þessum tíma sólarhrings en við vorum ekki frá því að örlítið víðara væri milli sæta. Á Kastrup fór tíminn allur í að standa í röð og hafa áhyggjur af yfirvigt en eftir örstutt flug með Iceland Express, vorum við komin heim.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli