þriðjudagur, ágúst 22, 2006
Ferðasaga 1. hluti
1.-2 ágúst Ísland-Beijing
Morgunflug frá Keflavík til Kaupmannahafnar. Framhaldsflug með SAS skömmu eftir kvöldmat (kl. 20:55) til Beijing þar sem lent verður næsta dag (kl. 11:50). Ekið frá flugvelli að Marriott New World Courtyard hótelinu þar sem dvalið verður næstu 4 næturnar. Eftir komu á hótelið verður haldinn kynningarfundur.
Flogið var með Iceland express, stutt og fínt flug, í Kaupmannahöfn vorum við að ná áttum þegar Gunnar segir átt þú ekki þennan bróðir, við vissum að Bjartur bróðir væri þarna einhversstaðar til að taka á móti Svövu Tönju, en það var frábært að hitta hann og stelpurnar svona óvænt. Þau voru á leið í Tívolí en við ákváðum að taka lestina inn á Strik og spóka okkur þar, þar var vel heitt en alltaf jafn huggulegt, komum okkur fyrir á veitingastað undir sólhlíf og kíktum í búðir þar til tími var kominn til að skella sér i lestina í 15 mín ferð á völlinn.
Flugið til Beijing með SAS var frekar slæmt, langt og þröngt svo við vorum mjög þreytt við komuna til Beijing. Hótelið var flott hluti af risastórri samstæðu sem í var ein Kringla á 5 hæðum fullt af veitingastöðum og sundlaug ofl. Supermarket í kjallaranum og íbúðaturn.
Í Beijing var allan tíman mikið mistur og hitinn á bilinu 30 - 35 °C, okkur leið þó bara vel.
Beijing er undarleg borg, með óhemjumikið af fólki, háum háhýsum og mikil umferð. Við vorum mest inni í miðborg Beijing og sáum lítið af gamla tímanum þar. Allstaðar er verið að byggja og endurbæta, þeir eru á fullu í undirbúningi fyrir ólympíuleikana 2008, kínverjar klára framkvæmdir yfirleitt á undan áætlun, t.d. Átti að opna lestina Beijing Lhasa 2007 en hún var opnuð núna fyrr í sumar.
Maturinn í Beijing oftast er margir smáréttir í boði, allir settir á snúandi miðju borðsins og svo fær sér hver á sinn disk og oftast þurftum við að biðja sér um hnífapör, margir í hópnum eru samt greinilega vanir að handleika matprjóna og nota þá. Sem hluti af kynnisferðunum var alltaf hádegismatur. Algengustu réttirnir eru , gúrkur í súrum legi, soðið kál, kál í súrum legi, kjúklingur með jarðhnetum og sæt sósa, svínakjöt í strimlum, nautakjöt í strimlum, núðlur stundum, vorrúllur oftast með einhverju kjöti, einu sinni þó með einhverju dökku sætu undir tönn eins og kartöflumjöl, heilir fiskar með roð og sporði, og alltaf vatnsmelónur í eftirrétt. Svo fórum við á veitingahús í kringum hótelið og þá var aðeins meiri fjölbreytni, á einum staðnum létum við einu stelpuna sem gat talað hrafl í ensku velja fyrir okkur matinn, þá var komið með heilan spriklandi fisk, einhverskonar kola í poka og spurt hvort hann væri nógu góður, svo voru flottar heilar rækjur í skel bæði steiktar og soðnar. Annað kvöld fórum við á undarlegan stað og Gunnar pantaði andatungur ! þær voru bornar fram á djúpsteiktum kartöfluþráðum og voru líklega djúpsteiktar líka, þær voru áfastar beini og sinum lítill matur og bragðlítill en mikil upplifun. Á frjálsa deginum vorum við Silla snöggar að lauma okkur yfir götuna og fá okkur pizzu og kók, enda alveg hægt að fá nóg af hringborðhaldi.
Leiðsögumaðurinn okkar í Beijing kallaði sig Carmen, sagði að þau veldu sér yfirleitt vestrænt nafn og hún hefði sem stelpa séð svo fallega leikkonu leika Carmen. Hún var pínulítil og snaggarleg eins og kínverjar eru gjarnan, hún var alltaf með sólgleraugu og hatt og talaði um að ljós húð væri meira fashionable heldur en sólbrún. Enskan hennar var sæmileg en ekki meira en það hún virtist vita af því og endurtók sig oft og jafnvel stafaði orðin ef hún vildi vera viss um að við skildum. Hún sagði ja og ok í tíma og ótíma og wait me here þegar hún vildi að við biðum. Hún var dugleg að fræða okkur um keisara og hjákonur þeirra sérlega Xici sem varð svo drottning og stjórnaði ríkinu í gegnum son sin og systkinabörn. Því miður fór minna fyrir að hún fræddi okkur um land og þjóð, eitt sinn kom hún með langan fyrirlestur um ágæti Tailands sem ferðamannastaðar og frelsi og fjölbreytin í kynferðismálum, mátti helst halda að hún væri að reyna að selja körlunum ferð þangað. Svo brá auðvitað fyrir áróðri um ágæti kínverskra stjórnvalda og ómöguleg afskipti bandaríkjamanna t.d. af Taiwan.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli