Síður

föstudagur, ágúst 24, 2018

Fjögur ríki USA

Þetta ferðalag einkenndist af miklum akstri og stórfengilegri náttúru.

15. Miðvikudagur

Flugum við til Denver og skutluðum okkur beint í bílaleigubíl og keyrðum til  Econo Lodge Pueblo West , https://www.booking.com/hotel/us/hotel-south-radnor-dr-pueblo-west.is.html
Komum við í Wall Mart og birgðum okkur upp af vatn og nesti fyrir akstursdaga. Aksturinn var í myrkri og mest lítið að sjá. 202 km  

Manni verður illt í endurvinslubeininu í USA

16. Fimmtudagur

Nú var ferðinni heitið í mikla lestarferð. Við ókum til Canon City í gegnum landslag sem minnti mig á kúrekamyndir, kannski mest á þáttin The Ranch sem er á Netflix.  Við höfðum tímann fyrir okkur svo við Gunnar röltum eftir Main Street, Canon City í steikjandi hitanum. Bærinn er lítill, mikill vestrafílingur og skemmtilegar bygginar.  Skrýtið samt að sjá þarna fangelsi rétt við miðbæinn en fangelsisrekstur er víst mikill iðnaður þarna um slóðir. Svo var kominn tími til að fara í lestina, við fengum sérþjónustu fyrir Sillu og fengum öll rúnt með golfbíl að lestinni.  www.royalgorgeroute.com fer eftir djúpu og fallegu gljúfri. Við höfðum pantað lúxus pakkann og fengum 3ja rétta máltíð, sem var bara fín. Ég er samt ekki viss um að ég mæli með því, það er kannsi mikið betra að geta bara verið úti og notið útsýnisins almennilega.  Í gilinu má sjá mikið af fólki í rafting, risastóra kaktusa, stórmerkilega vatnslögn og gullgrafarasvæði. Meðal annars var okkur bent á svæði sem einhver fjölskylda á og kemur árlega og grefur upp gull um 2500 dollara virði. Síðan ókum við uppa gilbarminn en þar er þjóðgarður og aðstaða til að fara í kláf yfir gljúfrið og á zip línu til baka.  Ég lét samt duga að ganga út á brúna enda hressilegt rok og þrumuveður í nánd sem elti okkur til baka til að gista áfram í Econo Lodge Pueblo West.
2x35 mínútur





Takið eftir skýjastróknum bak við mig.

17. Föstudagur

Farið frá Pueblo, keyrt til Gunnison, og svo Montrose
Nú fór leikurinn að æsast og keyrt nær fjöllum og gilum. Yfir Monarch Pass, þar sem vegurinn liggur í yfir 3400 m hæð, karlarnir bættu um betur og fóru upp með kláf til að fá meira útsýni.  Við Silla létum þetta gott heita, sóluðum okkur og sjússuðum á súrefni í þrýstibrúsa. Gunnison er lítill og skemmtilegur bær. Samferðafólkið vildi heimsækja búð með upptoppuð kvikindi, það var svosem í lagi, en svo var allt fullt af hundum þarna inni svo ég lenti næstum í sjálfheldu og var farin að fá ofnæmi fyrir öllu þessu loðna liði.  Þá var gott að koma sér út í ferskt loftið, sem var reyndar ekki ferskt lengi því þar sem við komum okkur fyrir á bar við aðalgötuna streymdu að kaggar af öllum stærðum og gerðum sem voru að koma sér fyrir í bílasýningu sem var hluti af mikilli bæjarhátíð sem stóð fyrir dyrum. Þarna hefði ég viljað stoppa lengur.
Gistum næst í  Red Arrow Inn and Suites, í Montrose. https://www.booking.com/hotel/us/red-arrow-inn-suites.is.html Við Gunnar áttum brúðkaupsafmæli og skelltum okkur í Mexíkóskan mat til að halda uppá það,
346 km






18. Laugardagur

Keyrt frá Montrose til Durango, gegnum Silverton.

Við Gunnar vorum árrisul og fórum á Ute indjánasafn, mjög áhugavert að lesa um sögu þeirra og sjá muni.
Frá Montrose keyrðum við til Durango, gegnum Silverton og mikil fjallaskörð. Milli Durango og Silverton gengur lest, alvöru eimreið sem gengur fyrir kolum. Við vorum þarna í hádeginu og sáum hana koma og fara, lestar starfsmanninn moka kolum og lyktina og hljóðin beint í æð. Silverton er ekta vestra bær, við borðuðum í Shady Lady Saloon, mörg húsin virðast upprunaleg og önnur aðalgatan er ekki malbikuð!
í Durango gistum við á Best Western hóteli með sundlaug og komum  nógu snemma til að geta dóla í henni góða stund og notið sólarinnar, það var best.  175 km



Sunnudagur

Þá keyrðum við frá Durango til Page Arizona.  Á leiðinni stoppuðum við líka við Mesa Verde, þjóðgarð  með miklum hellaborgum indíána uppi á mikilli sléttu. Við gengum þar um í brakandi hitunum. Næsta stopp var á Four corners þar sem mætast fjögur ríki! Colorado, New Mexico, Utah og Arizona. Þar hefur verið reistur skúlptúr þar sem vinsælt er að taka myndir, en annars er ekkert þar nema eyðimörkin og sölubásar indíána.
418 km


20. Mánudagur

Þennan dag tókum við Gunnar snemma.  Hörður skutlaði okkur út að Horseshoe Bend, þar er hægt að ganga frá veginum að því þar sem Colorado River er búin að grafa skeifulega leið með miklum drangi í miðju skeifunnar. Mjög flott, og gott að ganga að meðan sólin er ekki orðin of sterk.  Áhugaverð skiltin þarna við sem leggja hart að fólki að bera með sér nóg af vatni og að vera með hatt. Við klikkuðum ekki á því og tókum flottar myndir. Annars var verkefni dagsins að akoða Grand Canyon, við North Rim.  Leiðin þangað var mjög áhugaverð, ekið er uppá mikla sléttu þar sem gróðurfarið verður allt annað en niðri í hitanum. Á sléttunni er allt grasi vaxið og vísindahjörð reikar um og ein sjoppukona vildi endilega að við færum að leita að sveppum, sem við létum þó vera.
Okkur hafði verið ráðlagt að heimsækja Grand Canyon Norðan megin, það væri less touristy.  Það var alveg rétt, en þarna hefði líka mátt vera heilan dag eða tvo, við brúnina og á leiðinni er gisting.  Gljúfrið sjálft er engu líkt, stórt og mikilfenglegt eins og nafnið gefur til kynna. Nauðsynlegt að vera með nóg pláss á minniskortinu, hatt og vatn.
Við keyrðum aðra leið til baka gegnum Kanab, kannski of langt því þá varð heimleiðin í lokin í myrkri. 444 km  Gista áfram í Page
Við Page er Antelope Canyon, við þurftum að sleppa því en það er alveg ástæða til að taka amk 1 dag enn í Page og heimsækja það. https://en.m.wikipedia.org/wiki/Antelope_Canyon


21. Þriðjudagur

Næst á dagskrá var að keyra frá Page til Moab gegnum Monument Valley og útsýni að Mexican hat.
Nú var ekið í gegnum rauðar eyðimerkur, fjöll og hæðir sorfið af vindi og vatni svo eftir standa flottar steinmyndir,  Þarna hefði mátt stoppa og vera lengur, kannski ekki besti dagurinn því það var gustur sem þýddi töluvert sandrok. Landslagið þarna er frægt úr bíómyndum, m.a. Þar  sem Forrest Gump hættir að hlaupa.  Óvænt ánægja var að detta inn á safn landnema í Utah í Fort Bluff.  Safnið er í kofum eins og landnemarnir bjuggu og sýnir líf þeirra vel.  Mér fannst gaman að sjá þetta, sérlega eftir að hafa lesið sögur Mitchener og Dana Fuller Ross um landnemana í Wagons West seríunni og meðan við ferðuðumst las ég Colorado og rifjaði upp þá sögu.
439 km  Gisting: Cozy Moab Home


22. Miðvikudagur

Núna lá leiðin bara til baka þar sem við keyrðum frá Moab til Denver, mikill akstur og við meira að segja lentum í umferðateppu!
553km

23. Fimmtudagur

Versla í Colorado Mills, Gunnar fataði sig upp með jakkaföt, buxur, skyrtur og skó. Fullt af jólagjöfum á litla og stóra stráka.  http://www.simon.com/mall/colorado-mills


24. föstudagur

Last minute shopping, skila bíl og fljúga heim.
58 km

Þetta var fín ferð, við sáum margt og nutum þess að aka og sjá allt útsýnið sem var síbreytilegt, miklir skógar, sléttur, eyðimerkur, litlir og stórir bæir, vinalegt og áhugavert fólk. Þjóðgarðaverðir, marjuanaræktandi og trukkeigandi.

Takk fyrir samveruna, aksturinn og goða ferð. Hér eru meiri myndir.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli