Síður

föstudagur, ágúst 10, 2012

Rifsber- sulta og saft

Ég týndi af rifsberjarunnunum um síðustu helgi og sauð sultu.




Þetta urðu allt 5 kg sem komu af þessum 3 runnum og dugðu ekki til dollurnar sem ég hélt ég þyrfti !


Leitaði vel og lengi að uppskrift af rifsberja chilli sultu en gekk ekki.

skáldaði bara og þetta varð niðurstaðan:

2,5 kg rifsber með laufum og stilkum skoluð og svo soðin í 2 dl vatn í 20 mínútur og berin kramin vel

öllu skutlað í sigti og saftin mæld, úr þessum 2,5 kg kom 1200 gr saft,


sett í pott og bætt við 12 smátt söxuðum rauðum chilli belgjum ég sauð þetta eins og vitleysingur í 10 mínútur og allt freyddi sem varð svona ljót ljós skán í þessari annars ágætu sultu, myndi næst sjóða minna og oftar, eða allavega fleyta froðuna strax af.



Þessi tilraun mín gaf 7 krukkur, smakkast mjög vel en hljóp lítið sem ekkert. Ég gerði án fræja en eftir að lesa þessa uppskrift getur verið að ég seti fræ næst eða noti þessa sem er með engiferi og appelsínum líka hún er héðan.

úr hinum 2.5 kílóunum sauð ég venjulegt hlaup og studdist við þessa uppskrift, það hljóp flott og var sæmilega tært, nennti ekki að sía í gegnum grisju það er svo mikið sull. Urðu 9 krukkur.



Þetta er ekki holt með öllum þessum sykri en vonandi í lagi svona spari ;)


Ég nota sjaldnast rotvarnarefni eins og betamon og sé heldur ekki tilgagninn með að vera að troða einhverjum smjörpappír í krukkurnar, málið er að halda sultunni myglu og gerla lausri og mér hefur tekist það með því að velja krukkur sem lokast vel.  Þegar sultan er tilbúin og ennþá sjóðandi heit, set ég krukkurnar í stóran pott með sjóðandi vatni og læt þær hitna vel.  Set svo sultuna heita í krukkurnar, sýð lokin aðeins styttra því í þeim er oft einhver gúmmírönd sem ég held að þoli ekki suðuna og loka öllu meðan það er heitt, þá er það gró og gerlalaust heita loftið skreppur saman og dregur lokið vel fast á og allt geymist í áraraðir.

Svo tók ég allt hratið frá báðum uppskriftum aftur í pott, svona 1,5 lítra vatn og kannski 2 dl sykur og hleypti aðeins upp á því og sigtaði. Þannig fæst þessi fína saft sem bæði má drekka, setja á ís, nota í sósur og ábyggilega eitthvað fleira.

Spurningin  næst er hvort ekki sé hægt að búa til líkjör eða vín, veit samt ekki hvenær næst verður því runnarnir eru svo skrambi ljótir að ég held við neyðumst til að farga þeim og koma til nýjum.

Gunnar tók sig svo líka til og sauð úr 350 gr af jarðarberjum, í þau fóru minnir mig 160 gr sykur, látið bíða í 10 tíma í sykrinum svo soðið frekar stutt. Ein flott krukka þar.

Svona var niðurstaðan :)





3 ummæli:

  1. Flottur sjálfsþurftarbúskapur :)
    kv.
    Magga

    SvaraEyða
  2. Ekki farga runnum sem gefa svona góða uppskeru, grisja þá í vetur, klippa gamlar og ljótar greinar í burtu en skilja eftir fallegar nýlegar greinar.
    Kveðja Ólöf

    SvaraEyða
  3. Gaman að sjá skemmtilegar saft uppskriftir. Mæli með því að þú/þið skoðir "Áhugafólk um íslenska saftmenningu" facebook. Þar finnið þið flottar uppskriftir og skemmtilega umræðu um saft.

    SvaraEyða