Síður

föstudagur, desember 12, 2008



Minningargrein Sigrún Guðný Guðmundsdóttir
(Birtist í Morgunblaðinu 7. desember)

Stundum á lífsleiðinni á maður því láni að fagna að kynnast fólki sem bæði reynist manni vel og kennir manni nýja sýn á lífið. Sigrún var ein af þessum manneskjum, ég var svo lánsöm að búa á heimili hennar um stund sem ung kona. Þó margt væri í heimili og átti eftir að fjölga þá fann ég aldrei annað en að ég væri velkomin og var það ómetanlegt.

Í mannmörgu heimili var nóg að gera, við bökuðum flatbrauð og kleinur og úrbeinuðum folöld, tókum slátur og suðum sultu og eyddum við það mörgum góðum stundum í eldhúsinu. Þá ræddum við heima og geima, við skiptumst á skoðunum og ég fann þá stuðning hennar á þægilegan hátt því hún var ekki að skipta sér af að óþörfu. Við áttum líka sameiginleg áhugamál, Sigrún hafði gaman af tónlist og spilaði á gítar og söng svo hún kenndi mér vinnukonugripin og við sungum saman. Hún las mikið og hafði bæði gaman af því að ræða við mig um krimma og rómana og svo að lesa Rasmus Klump fyrir barnabörnin. Það var því frábært þegar hún fór að vinna í bókasafninu og vera í miðri hringiðu bókanna.

Strákunum mínum var hún besta amma, þeim þótti alltaf gott að koma til Sillu ömmu, vissir um að þar væri alltaf tekið hlýlega á móti þeim, svo vel að Jón minn bauð vinunum líka í kaffi, vitandi að þeir fengju allir eitthvað gott í gogginn. Þegar strákarnir fengu að gista mátti panta pizzu en oftar en ekki völdu þeir frekar hafragraut, ekta ömmugraut með hunangi. Hún var ávallt stolt af barnabörnunum en ég fór nú samt hjá mér þegar hún reif Pétur minn úr sokkunum til að sýna gestum hvað hann væri nú með stóra og myndarlegar fætur.

Sigrún hafði skoðanir á flestum hlutum og lét til sín taka ef með þurfti, starfaði bæði með Verkalýðsfélaginu og í bæjarpólitíkinni. Hún vildi veg kvenna sem mestan og hvatti mig óspart að standa fast á mínu, hvað sem ég tók mér fyrir hendur. Dýrmætasti lærdómurinn sem hún gaf mér var að gefast ekki upp sama hvað á móti blési, heldur takast á við erfiðleika með jafnaðargeði og þrautseigju . Hún glímdi alltaf við slæma fótinn sinn en lét það ekki stoppa sig í neinu og það var aðdáunarvert hversu samviskusamlega hún gerði æfingarnar sínar, enda gátu þau Guðmundur notið lífsins lengi við ferðalög og að sinna garðinum og fjölskyldunni.

Ég kveð Sigrúnu með söknuði og þakklæti fyrir að hafa átt hana að og vinskap hennar.
Kæri Guðmundur, börn, barnabörn og tengdabörn bestu samúðaróskir, megi Guð vera með ykkur .

Svava Pétursdóttir
Leeds

Engin ummæli:

Skrifa ummæli