mánudagur, mars 25, 2013

Menning í mars

Við keyptum ekki nein áskriftarkort í vetur og erum þar af leiðandi ekki búin að fara á mikið af tónleikum né leikhúsum. Í gegnum miðavaktina á midi.is datt samt inn tvennt sem ég hefði alls ekki viljað missa af núna í mars.
Fyrst fórum við á "Af fingrum fram-Diddú" þetta voru alveg meiriháttar tónleikar. Á sviðinu voru Jón Ólafsson við flygilinn, Diddú í meiri háttar "mussu" ábyggilega til að undirstrika Spilverks tengingunni sem lofað var í dagskrá og Róbert Þórhallsson bassaleikari. Jón sagði strax að þeir sem byggjust við einhverri óperu skyldu bara fara strax. Við sátum sem fastast enda var von á góðu, þó aðeins öðruvísi en síðast þegar við sáum Diddú, þá í óperunni í hlutverki Næturdrottningarinnar. Þetta kvöld söng hún með "popp" röddinni í micrafón og var hreint yndisleg. Dynamíkin á sviðinu var skemmtileg og afslöppuð, eina að ég hefði viljað að Diddú hefði horft meira fram í sal þegar hún söng en ekki svona mikið til Jóns, ekki það að ég skilji hana ekki, það er unaðslegt að horfa á flotta stráka spila á píanó ;)
Ég vakna núna flesta morgna með eitthvað úr prógraminu syngjandi í hausnum.  Í morgun var það " Little things mean a lot", þau Jón spjölluðu á milli laga líkt og í sjónvarpsþáttunum og á undan því talaði hún um að hafa límt eyrað að útvarpinu til að hlusta á Guðrúnu Á. Símonar.
Svo tók hún nokkur af mínum uppáhöldum Vikivakan hans Valgeirs Guðjónssonar sem var svo gaman að syngja með Kirkjukórnum. Sveitina milli sanda, fullt af spilverkinu, og endaði á Stellu í orlofi.

 Svo á laugardaginn fórum við að sjá Fyrirheitna landið - Jerúsalem um eilífaðunglinginn Johnny Byron sem bjó í rútu úti í skógi, alltaf í partíinu. Ég hafði heyrt að verkið væri langt og jafnvel að fólk hefði farið út í seinna hléi en líka að Hilmir Snær sýndi snilldartakta sem reyndist alveg rétt. Við veltum fyrir okkur hvort hann hafi farið á bari borgarinnar til að horfa á þá sem eru fastir í partíinu og jafnvel hitt fyrir gamlan vin Gunnars sem Hilmir Snær í gerfi Johnny Byrons ber bara ótrúlegan keim af, útlit taktar og orðfar.



Annars var stykkið frábært, sviðsmyndin flott, og hringsviðið nýtt vel, leikararnir stóðu sig allir mjög vel. Mér finnst svona partýsenur oft svo fáránlegar í leikhúsi, og það að leika einhvern drukkinn og dópaðan ekki alltaf heppnast en ég keypti þau öll í þetta skiptið og framsetningin hafði einhvernveginn yfir sér óþægilegan raunveruleikablæ. Ég er samt ekki viss um að alvöru drykkjufólk myndi hella og sketta veigunum svona frjálslega út um allt, líklega rata þær frekar á réttan stað niður kokið á þeim. Ég hafði nú líka gaman af leikritinu sjálfu, sem er enskt og fullt af enskum tilvísunum, pöpp haldarinn kominn í einhvern "Beefeater"  skrúða fyrir afmæli drottningarinnar.

Svo skelltum við okkur í kef í gær og ætluðum á Jesus Christ Superstar messu en fullt var út úr dyrum og rúmlega það svo við ætlum bara að reyna aftur í Grindavík á þriðjudaginn.

1 ummæli:

Gerður Pétursdóttir sagði...

skemmtilegt blogg, er einmitt búin að sjá Fyrirheitna landið, fannst það allt of langt en magnað fyrir því : )