Síður

mánudagur, júní 24, 2013

EDEN Oslo

Annar hluti ferðar minnar í Júní var að fara á EDEN ráðstefnuna Joy of Learning í Oslo EDEN stendur fyrir European Distance and E-Learning Network svo ráðstefnan var um allskonar notkun á upplýsingatækni við kennslu, mest samt á háskóla og framhaldsskólastigi. Ég var þarna að kynna þetta veggspjald frá Menntamiðju Ég kynnti veggspjaldið fyrir öfráum því miður, kynningunni var illa stýrt, ég fékk ekki spurningar sem myndu gagnast okkur við rannsóknina sem við erum að vinna í kringum Torg og Menntamiðlu. Áheyrendur höfðu miklu meiri áhuga á starfsemi torgana og nokkrar spurningar um frumkvæði og fjármögnun þeirra.
Þetta er risaráðstefna og ég fór á marga fróðlega fyrirlestra og vinnustofur. Annars var ráðstefnan skemmtileg, stóru málefnin virðast vera: Mooc, hvað eru þau, til hvers eru þau, eru þau kannski bara upprennandi peningavélar, hver verður framtíð háskólagráða, mun verða þörf á þeim, ungt fólk er í auknum mæli að afla sér sjálft þekkingar eftir óhefðbundnum leiðum heyrði ég sagt en ekki fært fyrir því nein gögn. Upplýsingatækni og kennsluhættir: kennarar hafa ekki TPCK, eru ekki þjálfaðir, .... en ég var að verða svolítið pirruð á þessu, var ekki þarna saman komin hópurinn sem ætti að vera að safna saman tækni-kennslufræði og koma henni á framfæri við vettvang ?? Mér er spurn en engin svör. Svo var svona rokkstjörnufílingur þegar aðalfyrirlesararnir voru Sir Ken Robinson í gegnum fjarfundarbúnað og Sugata Mitra. Fyndið samt að eftir allt klappið sem þeir fengu voru spurningarnar sem þeir fengu beittar og svo heyrði maður allskonar gagnrýni á hugmyndir þeirra. Ráðstefnan var haldin í Háskólanum í Oslo í Blindern kampusnum, í nýlegu og fínu húsi en svo fyndið að rétt fyrir utan það var bjalkakofi og bæði kvöldin voru þar stúdentar að grilla boragara fá sér bjór og ábyggilega að halda upp á próflok. Oslo er skemmtileg og ráðstefnukvöldverðurinn var í herklúbb, Oslo Militære Samfunds Selskaps- og Konferanselokaler þar sem maturinn var frábær og þjónustan með hernaðarlegri nákvæmni, þjónarnir stilltu sér upp við borðsendana með vínflöskur eða mat og fóru svo saman af stað til að skenkja eins og marserandi herdeild. Maturinn á diskum með gyllingu og silfurhnífapor á hvítum damaskdúkum. Gerist ekki flottara enda kóngurinn í klúbbnum og málverk af kóngum upp um alla veggi. Hér eru myndirnar mínar frá Oslo.
EDEN Oslo
Ég var hagsýn í þessari ferð og í Oslo gisti ég hjá henni Bergþóru sem er dýralæknir, fyrrverandi nemandi minn og dóttir vinkonu minnar. Mikið gaman að hitta hana og spjalla eina kvöldstund en hún er búin að búa í Oslo frá því hún hóf nám þar 2007 sem nú er lokið og daginn eftir að ég fór flutti hún sunnar til að hefja störf á stofu. Takk fyrir mig Bergþóra.

laugardagur, júní 15, 2013

ISSE 2103 Helsinki

Núna er ég nýkomin frá Helsinki, fyrsta ferðin mín þangað. Ég var á samkomu sem heitir International symposium on science education ISSE ég fór þangað með veggspjald um starfssamfélagið Náttúrutorg


Þessi ráðstefna er meira sniðin að kennurum en rannsakendum. Þemað var menntun til sjálfbærni og velt upp mörgum hliðum af fólki úr ýmsum áttum. Hún hefði eflaust nýst mér betur ef ég væri að kenna slíkt en það sem ég allavega lærði þarna var hvernig mætti skipuleggja svona námsskeið um ýmis aðkallandi þemu fyrir kennara, kannski ekki ósvipað og fræðslan sem við sóttum um 2006 í tengslum við verkefnið "Virkjum vísindin og hugvitið hjá unga fólkinu". Þá einmitt fengu skólarnir á Suðurnesjum vetnisbíla eins og voru kynntir þarna í vinnustofu sem ég fór í.
Annað sem ég þarf að skoða betur eftir þessa ferð er verkefnið Scientix, Evrópusambandsverkefni um ef ég skil rétt að safna saman upplýsingum um námsefni, rannsóknir sem kostuð hafa verið af EU, samt skildist mér á verkefnastjóranum sem ég ræddi við að hvaða verkefni sem er gætu verið með en sá samt ekki alveg ávinningin af því.

Isse 2013 Helsinki

Ég var nú svo óheppin í þessari ferð að ná mér í hundleiðinlegt kvef og gerði lítið annað en það sem var fyrirfram ákveðið.
Ég gisti á Hotel AVA, ósköp þægilegt og einfalt, og 16 mínútur að ganga að Kumpala kampusinn þar sem ráðstefnan var. Til stendur að fara aftur til Finnlands næsta vor  á NFSUN norræna ráðstefnu um náttúrufræðimenntun og ég veit ekki hvort ætti að vega þyngra að gista niður í bæ og geta sérð og gert eitthvað spennandi eða að geta gengið á ráðstefnuna? Þetta hótel er reyndar ábyggilega eitthvað ungmennafélagsdæmi, ekki bar, ekki opið allan sólarhringinn en annað fínt. Það tekur 30 mín að fara með sporvagni eða strætó á milli og en um 40 mínútur með strætó á flugvöllin.
Eins og sést á myndunum heimsóttum við Helsinki Observatorio fínasta skemmtun og svo dinner cruise, þar sem við sigldum um fjörðinn og fengum fínan kvöldmat. Kvöldverðurinn var í gamalli víraverksmiðju og bara fínn, en ekki meira en það.