mánudagur, júní 30, 2014

Komin til Ítalíu :)

Laugardagur 7. júní
Við lentum í Milano í sitthvoru lagi, ég var að koma frá Helsinki af ráðstefnu og flaug í gegnum Kaupmannahöfn með Norwegian og svo EasyJet, en Gunnar kom beint frá KEF með WOW air.  Við sóttum bílinn og Gunnar hitti þá fyrsta ítalan sem var ekki stereotypa, hann sagðist ekki horfa á fótbolta og ekki drekka vín því hann væri intelligent!
Í Mílanó var steikjandi hiti og við því drullufegin að litli bílinn væri með þrusugóða loftkælingu. Satnavið virkaði fínt o fór með okkur til gestgjafanna í Pavia, reyndar ekki beint því þau búa við svo nýtt heimilisfang að þau gáfu okkur næstu götu . Þau eru frábært fólk, hann frá Pavia og hún frá Indonesíu. https://www.couchsurfing.org/people/davide.vecchio/

Við gistum þar í hálfkláraði en notalegri íbúð með góðu rúmi. Þau buðu okkur í góðan kvöldmat, ítalskt bruschetta og svo grjónarétt frá Indonesiu.

Pavia

Sunnudagur 8, júní Pavia með Maicol

Svo áttum við góðan dag með Maicol sem deildi um stund með mér skrifstofu í Leeds og fór með mér á kórtónleika því hann syngur líka í kór.

Hann hitti okkur í bænum og leiðsagði okkur um allt í Pavia um kirkjur og ...kastala, þröngar götur með steinum. 
Svo var einhver keppni með róðri, bogaskyttum og fálkum sem var gaman að fylgjast með og fólkinu. Fullt af myndum hér.

Hann fór með okkur í lunch, sem í okkar huga er kannski salat eða samloka en nei það var fimm rétta með antipasti, primo, secondo, dolce og kaffi. 

Veðrið er rosalega heitt og ég spæni upp tissjú pökkum við að þurrka af mér svitann, leita að skugga við hvert tækifæri og Gunnar bara hlær að mér.

Pó og Pilgrim Hótel

Mánudagur 9. júní Pavia til Cremona
Við kvöddum gestgjafan okkar í Pavia og keyrðum til Cremona, þar fengum við okkur göngutúr niður við Po í rosalegum hita.  Það átti stóran þátt í hvert við fórum þessa fyrri viku að Gunnar man alltaf eftir því að hafa lesið og lært um það 12 ára í landafræðinni um landbúnaðinn á Pó slettunni, svo við vorum í svoleiðis Pílagrímaför, kíkja á Pó og landbúnaðinn.

Hér eru allar myndirnar

Annað sem Gunnar hefur áhuga á í útlöndum er að skoða kirkjugarða og þarna komst hann í feitt, keyrðum fram á nokkra svona grafreiti. Ég er aðeins búin að skoða um dauða, jarðarfarir og grafreiti í Ítalíu og sá á einum stað að ekki er algengt að brenna fólk, kaþólska kirkjan er víst á móti því. Svo þá skil ég ekki þessa litlu ramma. Þessi segir í bloggi frá öllu ferlinu svolítið með gestsauga því hún er frá USA þar segirhún "buried the cheap way – in a vault. These vaults are very common in cemeteries in some parts of Italy, where space is at a premium and being buried in the ground therefore very expensive. " okkur fannst þetta nú ekki líta neitt fátæklega út en líklega útskýra jarðargæðin þessa siði þarna, fermetrunum er betur varið í maíisrækt en undir kirkjugarða. Allavega við sáum þónokkuð af svona grafhýsum.

Svo fundum við gistinguna okkar Pilgrim Hotel við Strada di Provincale, tók smá stund að átta sig á að það er auðvitað bara þjóðvegur ;) Allavega hótelið er í smá þorpi Cicognolo, sem er bara nokkrar götur 961 íbúi og ég get ekki betur séð að þar sé bara einn veitingastaður, allavega á google kortum . Það var ótrúleg upplifun, hótel fullt af marmara og kristalljósakrónum, skjannahvítum handklæðum, en..... engum gestum nema okkur ! Alveg satt, við sáum enga aðra gesti meðan við vorum þarna en 4 starfsmenn. Risastórt bílastæði og bara okkar bíll þar og þrír aðrir líklega frá starfsmönnum.

Við dressuðum okkur upp til að fara í kvöldmat og báðum dömuna í móttökunni til að benda á eitthvað, hún sagði einn veitingastað vera opinn og teiknaði fyrir okkur uppdrátt og fór með okkur út til að vísa okkur til vegar.
 Við fórum á Osteria de l'Umbrelèer. (fær flottar umsagnir á Tripadvisor) og hvílík upplifun, alvöru borðbúnaður, tauservéttur og dúkar og eigandin sjálfur í salnum.
Við fengum frábært antipasti, Tortelli di zucca al burro e salvia,Það var uppáhaldið okkar, pasta sem við þekkjum sem ravioli fyllt með graskeri, kryddað með sinnepssultu og borið með bræddu smjöri með salvíu og parmasean osti.
Hér er uppskrift sem ég ætla að prófa við tækifæri  Við fengum líka í secundo asna, hægeldaðan í brúnni sósu mjög góðri og svo bauð hann okkur dásemlega osta og dessertvín og kökur, torrone.... einskonar þykkur marengs með pistasíuhnetum, ég fann nokkrar uppskriftir hér (sjá neðar) og mun prófa við tækifæri, kannski líka láta fljóta með að hann Diego varð bara hálfmóðgaður þegar ég bar þetta saman við Turkish delights og sagði þetta sko ekki vera líkt!
http://italianfood.about.com/od/tastysweettreats/r/blr1119.htm
http://candy.about.com/od/nougatmarzipancandy/r/honeynougat.htm
http://www.delallo.com/recipes/torrone-italian-nougat-candy
.

Cremona til Mantova,

Þriðjudagur  10. júni Cremona til Mantova.

Við fengum fyrirtaks morgunverð á marmarahótelinu, reyndar skrýtið að sitja tvö í risastórum sal og með þrjá starfsmennt til taks.

Drifum okkur svo af stað. Keyrðum sveitavegi og útidúra og skoðuðum akra og grafhýsi. Akrarnir eru aðallega maíis og hveiti og eitthvað annaðsem við erum nú að giska á að séu grasker.

Við stoppuðum í Grazie einhverjum 10 k, fyrir utan Mantova þar sem meiningin var að fara í siglingu og skoða fugla og náttúru, fórum niður að ánni og þóttumst fá upplýsingar um að báturinn færði 14:30 svo við skelltum okkur í hádegismat í bænum, athyglisvert þar að þar voru ekki matseðlar, þjónustan ruddi uppúr sér hvað væri í boði á hraðri ítölsku og við þóttumst geta bjargað okkur, en ég endaði með fullan disk af hrísgrjónum með smá brúnuðu hakki úti í og Gunnar fékk eitthvað álíka óspennandi. Þegar við komum aftur að ánni á réttum tíma var engan bát að sjá og nú þóttist sjoppueigandinn sem áður hafði gefið upplýsingar ekkert vita.
Þessi staður og þessi mynd mun þó líklega alltaf keikja á minningunni um hvað það var heitt!!


Við skunduðum því til Mantúa, eða Mantova eins og ítalir skrifa það. Þar gistum við á hóteli í miðbænum Hotel dei Ganzaga  og tókum langan heitan göngutúr eftir árbakkanum með ótrúlegum fjölda skokkara og hjólreiðafólks.

Eftir göngutúrinn vorum við þreytt og fengum okkur bara ávexti og snakk og horfðum á bíómynd í tölvunni.

Mantova til Vicenza

Miðvikudagur 11. júní  Mantova til Vicenza
Byrjuðum daginn á að þramma um og skoða allan kastalann í Mantova heilmikið mannvirki með 500 herbergjum og fullt af freskum og listaverkum úr kirkjum úr nágrenninu sem hafði verið lokað fyrr á öldum.

Stoppuðum líka á torginu og fengum okkur fyrsta Spritzerinn af mörgum í þessari ferð, en það er drykkur út ítölskum bitter sem heitir Aperol , í hann fer svo freyðivín og sódavatn, rosalega appelsínugulur og flottur sumardrykkur.

Síðan ókum við gegnum vínakra og maísbreiðut til Vincenza. Þar gistum við í Hótel Viktoria  í útjaðri borgarinnar sem valið var vegna þess að þar var sundlaug, það var dásamlegt að skella sér í kalda laug og dorma svo á bakkanum. Borðuðum svo á hótelinu sem var ekkert sérstakt.


Meiri myndir

Vicenza til Verona

Fimmtudagur  12. júní

Fórum inn í borgina og skoðuðum  leikhús í Vicenza, Teatro Olimpico þar sem merkilegast var sviðsmynd í þrívídd, heil gata og látið líta svo út að maður horfi inn eftir henni, heilmikil pæling í fjarlægðum og sjónarhornum.

Síðan aðeins út í hitann aftur og þá á listasafn Museo Palladio með gömlum listaverkum og svo nýjum þar sem listamaðurinn Nicola Samori tekur gömul motív eða kannski bara gömul listaverk og afskræmir þau eða endurtúlkar. Mér SP fannst það stórmerkilegt því á Ítalíu sér maður ekki mikið af nútímalist, ekkert um að nýjir skúlptúrar leynist á götuhornum í bland við það gamla, nei það er greinilega ekki í tísku eins og t.d. ég hef séð víða í Englandi.  Bara haldið á fullu í allt það gamla, tókum lika eftir því að neonljós sjást hvergi, jú nema á apótekunum, einn hógvær grænn kross.

Röltum um borgina sem að miklum hluta er hannaður af Palladio enduðum á torgi Fylgdumst með þegar markaðurin var tekinn niður og fengum okkur svo hvítvínsglas og laxasamloku eins og "Turen går til NordItalien" mælir með.

Komum í seinni partinn til Verona gistum hjá Couchsurfing gestgjöfunum Mariagrazia og Pattista. Við höfum ekki mikla reynslu að vera gestir, bara gestgjafar, en þetta var bara ánægjuleg reynsla. Þau búa á tveim hæðum, ekki með loftkælingu en lánuðu okkur viftu svo ég gat sofið í steikjandi hitanum sem var. Við fengum herbergi heimasætunar til að gista í og notalegan skammt af samveru. Mariagrazia bauð uppá kvöldmat, bruchetta, stórt og mikið salat og heimagerðan ís úr heimagerðri jógurt, borin fram með sultuðum chetnuts, alveg dísaætar og góðar, mikð betri en ristaðar. Hún er með eldavél í bílskúrnum, sumareldhús svo að eldamennska bæti ekki við hitan inni sem nægur er fyrir á sumrin.

Hjá þeim þurfti að passa upp á köttinn Cai Lippi, kolsvartur ljúflingur að hann sleppi ekki út. Húsið er fullt af hlutum frá ferðalögum og meira segja tekið á móti manni við útidyrnar með íslenskri kveðju en þau heimsóttu Ísland fyrir nokkrum árum sem líklega hefur haft einhver áhrif á að þau samþykktu beiðnina okkar en kannski líka það að þau eru greinilega mjög dugleg að taka á móti gestum.



Verona á einum degi

Föstudagur 13. Júní
Við tókum strætó í bæinn, röltum svo af stað. keyptum okkur Veronakort sem gefur aðgang að flestu markverðu og í strætó, Skoðuðum hús Júlíu.

Fengum okkur svo morgunmat á torgi, ég pantaði eitthvað sem ég hélt að ætti að ver eitthvað fínerí, ristað brauð, sulta, smjör.... já það var það en hver einasti hlutur pakkaður í plast! Röltum svo í kirkju Santi Anastasíu þar sem ég sat lengi og hlustaði á fallegan orgelleik.

 Síðan var það, áin og brúin, Roman theater, Arena, dómkirkjuna að utan og svo lunch undir vínviði með litla fugla hoppandi í kringum okkur.  Gunnar er alveg ódrepandi í að skoða og skoðaði líka kastala fullan af listaverkjum meðan ég fann mér skuggsælt horn til að leggja mig áðuir en við tókum strætó til baka. Í Verona Arena var uppsett svið fyrir óperusýningu, rosa flott og ábyggilega geðveikt að koma þarna á sýningu. Ég skoðaði töluvert vefsíður að leita að sýningum, tónleikum eða óperu en það hentaði aldrei tímasetningin og í Verona arena byrjaði tímabilið 22. jún og við fórum heim 21. jún og vorum þá hvort sem er í Tuscany en ekki Verona.

Ég eldaði fyrir okkur eggjaköku svipað og við lærðum hjá dönsku stelpunum, úr 10 eggjum með púrrulauk, papriku og sveppum borið fram með fersku salati. Í desert hafði ég keypt kirsuber og jógúrt og Mariagrazia bætti við litlum gulum ávöxtum úr sínum garði og heimagerðum Limoncella með kryddjurtum úr garðinum.

Eftir matinn fóru þau með okkur í bíltúr uppfyrir borgina til að sjá borgina í myrkri að Ponte Pietra. Það var alveg dásamlegt, svalt og fullt af fólki að njóta útsýnisins og svala loftsins. Við fengum góðan rúnt út úr þessu líka þar sem það var lokuð leiðin sem þau fara venjulega og við þurftum að fara góðan hring. Líklega var lokað út af harmonikutónleikum í Roman Theater.

Meiri myndir hér.

Bologna og komið í Villa Doveri


Laugardagur 14. júní
Hádegisstoppið okkar var í Bologna og þá var eina skiptið sem við virkilega vorum afvegaleidd af satnavinu, við stefndum á bílastæði við lestarstöðina og til að nota park-and-ride, en græjan beindi okkur inn veg sem hætt var að nota og búið að klippa í sundur. Við fundum út úr þessu með hjálp ipadsins og fórum í bæinn.

Bologna virkar stærri á okkur en hinar borginar, við gengum þvert í gegnum miðbæinn meðfram kastalanum og torgi neptúnusar. Borðuðum "tagliatelle ragú al Bolognese" á Trattoria dell Orsa, eða Bjarnarborg :) (þá 258 á Tripadvisor) Gunnar hafði verið ákveðinn að prófa þennan rétt kenndan við borgina, hann líkist ekki mínu hakk og spaghetti mikið, það er lítið af sósu og lítið af hakki en gott pasta, þar fengum við líka tortelli með einhverri mjög góðrir rjómaostafyllingu og pastað er greinilega soðið mjög stutt því fyllingin var alveg stinn og mjög góð. Svo fengum við "cresentine" sem Mariagrazia hafði mælt með, það var greinilega einhverskonar steikt brauð, mitt á milli okkar steikta brauðs og laufabrauðs, og svo sett fylling milli tveggja kaka og hitað, okkar var með skinku,"crudo" og osti, ljúfengt en skinkan mjög sölt. Líklega hefðum við ekki ratað á þennan stað nema Mariagrazia og Battista mæltu með honum, hann er merktur á google maps svo það er aldrei að vita, við vorum samt einu túristarnir, aðrir vorum heimamenn, brjálað að gera og biðröð út á götu, enda verðið mjög gott og maturinn.

Næst löbbuðum við upp að háskólanum  sem er sá elsti í heimi, við vorum reyndar illa undirbúin og fundum ekki neina aðalbyggingu en lentum fyrst eiginlega bak við hann þar sem skuggakarakterar borgarinnar hafast við með stóru hundana sína og hroðalega mikið graffiti og auglýsingar þekja alla veggi. Fær því fundum við menntavísindasviðið eða "Dipartimento di Scienze dell Ecucazione" kíktum innfyrir og hittum kennara úr bókmenntadeildinni sem var að byrja tíma með starfandi kennurum á þessum sjóðheita laugardegi um "new applications". Þar var allt huggulegt og ítölsku kennararnir svona  eins og kennarar allstaðar, meirihlutin konur, og svo ein nunna.
Svo þvældumst við í 3 strætóa því það var ekki svo skírt hvert þeir væru að fara og náðum á endanum aftur á bílastæðið. Tókum ekki margar myndir en nokkrar hér.
Það er fallegt að keyra þarna frá Bologna til Tuskany en..... hraðbraut, beygjur, flutningabílar, brjálaður hraði, not my cup of tea, svo mér var frekar órótt og pínu geðvond. Gunnar bara keyrir og kemur okkur fljótt og vel á áfangastað.
Hér er kannski viðeigandi að minnast á vegatollana á hraðbrautunum við borguðum amk 20 evrur á þessari leið frá Verona til Suvereto. Nokkuð vel í lagt, en vegirnir eru góðir og fullt af jarðgöngum undir fjöll og brýr yfir dali og öflug vegrið þar sem þarf svo ég hefði bara átt að róa mig.

Við komum um átta leitið til  Villa Doveri, (Leigt hjá Tuscany Now) Hulda, Iðunn, Bjartur og co voru komin. Villan er æðisleg, tvær borðstofur, stofa, útistofa og útborðstofa, önnur útiaðstaða við grillið, þrjú baðherbegi, stórt eldhús og allt til staðar. Internetið reyndar á 3G pung og engin leið að tengjast en það er bara fínt svona í fríi. Það var dregið í herbergi, Bjartur og Ragga fengu fínt herbergi með baði uppi, Iðunn og stebbi, stórt herbergi niðri með aukarúmi, og Hulda og Les í lítilli íbúð með sérinngangi sem gengur hér undir ýmsum nöfnum; annexe segir hulda, dungeon, segir les og við hin ýmist, hjáleiga, útíhús, allavega þar er allt til alls en auðvitað svolítið sér á parti. Við hin erum í venjulegum herbergjum með tveim einföldum rúmum, fullt af skápum og allt með loftkælingu. Þær hafa reyndar ekkert verið notaðar nú á þriðja degi því hitinn er um 20-24 gráður og ösköp notalegur, það hefur rignt á næturnar og komu þrumur og eldingar þá fyrstu. Ekki veðrið sem var pantað en sjáum hvað gerist þegar líður á vikuna. Það var ekki búið að skipuleggja matarmálin mikið þannig að Hulda og Magga sóttu 11 pizzur,  sem munu duga fram á næstu daga. Svo voru sumir sem vöktu lengi og drukku mikið en aðrir voru ferðalúnir og sváfu mikið.

Heimadagur og grillpartý


Sunnudagur 15. júni
Morgunmatur, sundsprettir, skýjað, búðarferð, grilluð steik. Skrifuð dagbók. Við ákváðum að hafa  það þannig að við myndum skiptast á að elda og Gerður og Bjartur voru fyrst til að bjóða sig fram og það var mikill meirihluti fyrir því að grilla steikur. Það varð hvílík veisla með entrecote og fille, borið fram með nýjum aspas, svakalegu salati, frönskum kartöflum, chimchurri sósu og hvítlaukssósu. Við spiluðum svo eina umferð af Fíasko og það er svolítið erfitt þegar fjórir þáttakendur búa ekki á Íslandi og þekkja ekki alla dægurmálakaraktera, sjónvarpsþætti og bíómyndir sem koma fram í spilinu. Svo var auðvitað dansað og sungið, Abba, Bowie, Bubbi og allt hitt.

Annar heimadagur í villunni

Mánudagur 16. júní
Annar heimadagur vöknuðum eftir þrumur og eldingar og hellandi rigningu og fólk fór svolítið í sitthvora áttina, Gerður og Jón fóru út að keyra, aðrir reyndu við sundlaugabakkann en veðrið var ekkert sérstakt.
Farið var í Conad verslunina í Venturina að versla, Venturina er 8000 manna bær sem maður keyrir í gegnum á leiðinni til Suvereto og þangaðsóttum við aðföng, banka og bakarí. Nú höfðu Hulda og Magga boðist til að elda og gerðu tvo pastarétti, annað sjávaréttapasta með stórum rækjum og svo risastórum smokkfisk og kræklingi on the side, hún gekk erfiðlega því að illa gekk að ná upp hita á eldavélinni svo sjávarréttirnir frekar soðnuðu en stiknuðu. Árangurinn var samt flottur og girnilegur.
Við erum dugleg að nota öll rýmin í húsinu en samt mest úti. Við stelpurnar sátum úti nema Gerður sem lagði sig og tókum tvö hringi af nýja söguspilinu, gaman hvað kemur fram þó spurningarnar séu einfaldar, hjá okkur vildu allar segja sögu af því þegar þær urðu reiðar. Hvort sem það var við erfiða kúnna, mágkonur, samstarfsfólk eða stofnunina. Strákarnir voru eitthað að kík nú stendur yfir í Brasilíu. Það hefur samt truflað ótrúlega lítið. Internetið hér er slæmt, komumst eiginlega ekki í samband við routereinn, það er einna helst þeir sem eru með útlandadíl hjá vodafón kíki á netið.

Strandferð og allir út að borða

Þriðjudagur 17. júní
Við Magga, Bjartur og Ragga fórum í næsta bæ til San Vincenzo á ströndina, bara lítill bær með góðum ströndum. Veðrið var fínt næstum heiðskírt og stillt, þykknaði upp í seinnipartinn og himininn leit út eins og kynning á meðalgóðri hryllingsmynd. En það komu bara nokkrir dropar í seinni partinn sem betur fer ekki meir. Strandferðin var dásamleg, ég var sú eina sem fór í sjóinn og fór oft. Hin fóru í lunch og fengu ljúffengt antipasti og rauðvín með, ég hafði beðið um samloku eða eitthvað og var alsæl þegar Gunnar kom þrammandi með hamborgara, þó það væri hálfgerður kjötfarsborgari þá var á  honum laukur og salat og pickles og mayones, og bjór með. Sóluðum okkur hressilega og ég brann frekar illa á bakinu svo komið við í búðinni á heimleiðinni.
Mega rólegur dagur hjá hinum, Gerður, Iðunn og menn fóru í smá bíltúr niður í bæ, röltu um gamla daginn fundu sér bakarí og veitingastað og fengu sér létt að borða. Gamlibærinn er rosalega skemmtilegur lítill og krúttaður, með kastalavirki í honum miðjum. Villan stendur ca 2 km frá honum uppi í hlíðinni, við sjáum trjávaxnar hæðar allt í kring og líka út á miðjarðarhafið og engi fram að því.
Þetta þjóðhátíðarkvöld var ákveðið að fara út að borða, staður var valinn sem hentaði allra þörfum (minnir að það sé þessi la Pergola) og borð pantað í nafni Maríu fyrir 11. Í ljós kom að við vorum eiginlega einu gestrinir, það var bara til einn matseðill á ensku sem stemmdi ekki við þann ítalska, eftir langt þóf tókst öllum að panta. Pöntunin mín misfórst eitthvað, líklega fékk Magga það sem ég átti að fá það var samt ekki rétt, hún fékk tvisvar tortelli með spínat og ricotta en ég hafði pantað tortelli með crudo, skinku. Kom ekki að sök því þá fékk ég að smakka hjá öllum hinum, spaghetti carbonara, smá hráskinku, villisvín og fleirra, allt gott en misspennandi.
Svo var setið smá stund og tekin ein umferð af söguspilinu.

Ferð til Biombino


Miðvikudagur  18. júní, afmælisdagur Stebba.
Dagurinn hófst með frábærum brunch gerðum af Bjarti og Röggu, eggjahræra, reyktur lax, allskyns pulsur og skinkur, ostur, ávextir, ristað brauð og croissant ekkert smá dásamlegt og alfresco allir í kór.
Sundlaugarbakkin var svo vel nýttur, ég og Hulda í skugga, prickly heat og sólbruni. Sundlaugin er köld en ekki svo að notalegt sé að synda.
Eftir siestuna fórum við til Biombino, lítil bær út við ströndina með dásamlegum þröngum götum, góðri göngugötum með verslunum og veitingahúsum. Hópurinn skiptist í tvennt þegar kom að vali á kvöldverðarstað. Við vildum með Gerði, Möggu og Bjarti fara á veitingahúsið Da Balestra (þá  #3 á tripadvisor), við fundum það eftir töluverða leit, ekki mikið merkt og ekki fallegt að sjá. Þjónninn vildi varla hleypa okkur inn ef við töluðum ekki ítölsku, svo var ekki matseðill en hún var með handskrifað hvað væri í boði þann daginn. Við bara ákváðum að vera auðveld, pöntuðum antipasti og báðum hana að velja primo, Gunnar reyndar valdi svo og úr varð tvöfaldur pastaréttur, penne í karrý með líklega heitreiktum lax, mjög ljúffengt og svo tortelli með einhverri ricottafyllingu, og svo kanilsósu og velgdum litlum hálfum tómötum. Pöntuðum bara vín húsins, hvítt og rautt og dásamlega góð. Fórum svo í ævintýraferð með dolce og pöntuðum þá alla og létum diskana svo ganga. Allt jafn gott, pannecotta með karmellusósu, sítrónuís, rjómafrauð (semifreddo?) með súkkulaðisósu, eplakaka og súkkulaðiostakaka.

Rölt um Suvereto

Fimmtudagur 19. júní afmælisdagur Nonna
Sól og blíða, fólk tínist á sundlaugabakkann, ég skrifa, Gerður gefur bóndanum góðan morgunverð. Ég glími við þvottavélina og Nonni við uppþvottavélina. Vatnsbúskapur hér er svona og svona, kaldar sturtur stundum, ekkert vatn uppi ef einhver er í sturtu niðri. Maður kann sko að meta magn og gæði íslensks vatns á ferðalögum.
Núna og síðustu daga er sólin búin að skína og daganir byrja við sundlaugina í sólbaði og huggulegheitum. Við kvöddum Bjart og Röggu, seinni partinn. Gerður og Jón drifu sig fyrst af stað og fóru rúnt til maritme Campliga, Hulda og Magga stefndu í sömu átt en enduðu í Massa Martimia, langt uppi í fjöllunum og keyrðu zikzak upp allt fjallið fram hjá mörgum vínekrum og voru ánægðar með ferðina í fjallið.
Ég, Iðunn og karlarnir löbbuðum niður í bæ eftir langt sólbað, bærinn Suvereto er dásamlegur, þröngar götur, ekki færar bílum, gengum upp að Rocco varðturn efst í bænum, svo niður langa göta, via dell difficili, eða erfiða gatan sem endar á bar með stólum á pöllum tvö sæti á hverjum. Svo niður að torgi þar sem verið var að teipa niður kapla til að horfa á HM. Hópurinn sameinaðist og fór á l´Ciocio (þá nr. 5 á  Tripadvisor) sátum úti í dásamlegu umhverfi  og fengum allskonar ítalskan mat. Gnocchi, rækjukokteil, steikur, við Gunnar með traditional taster menu. Við sátum úti við að borða, sátum lengi og nutum vel enda afmælisdagur Nonna Ben, fengum ekki að syngja afmælissönginn en ég og Gerður klifruðum upp tröppur í ráðhúsinu og tókum "nú andar suðrið". Í lokin gengum við Gunnar svo áleiðis heim í villu í kolniðamyrkri, Iðunn og Stebbi gengu líka en töluvert á undan okkur. Að ganga svona ein í myrkrinu var ein af skemmtilegri upplifun ferðarinar því þá sá ég í fyrsta skipti eldflugur.  Þær eru alveg dásamlegar, líða um eins og blikkandi blá ævintýraljós. Þarna var gott að eiga góðan smartsíma með vasaljósi því þegar ekkert sást í veginn gátum við lýst smá og séð hann. Annars gátum við líka litið upp og séð á gatinu í trjánum upp í stjörnubjartan himininn að við vorum á veginum.

Tuscany day með frjálsri aðferð


Föstudagur 20. júní Tuscany day með frjálsri aðferð.
Ótrúlegt en satt en ég svaf til 10:30, höfðum ætlað að vakna tiltölulega snemma og fara á ströndina. Við drifum okkur af stað með Möggu og fundum fína strönd og sóluðum okkur í bak og fyrir. Hulda og Gerður skruppu á rúntinn og komu til baka kvartandi undan því að einu veitingar sem boðið er uppá í strandbæjum séu samlokur með skinku og osti. Gunnar hafði fengið sér fisk og var ósáttur en við Magga lifðum á snakki og bjór. Iðunn og Stebbi löbbuðu niður í bæ og settust á torgið að glápa á Ítala, löbbuðu kringum bæinn og til baka aftur og áttu svo góða stund ein í villunni.
Röðin var komin að mér og Iðunni að elda og ég fór í búðina og keypti hamborgara og dessert, tiramisú og sítrónutertu, ég er eigin lega komin með dellu fyrir sítrónu ísum og tertum, nammi namm,,,,
Það gekk nú ekki vel að grilla hamborgarana, lítill hiti náðist í þessi skrýtnu kol en þeir runnu samt vel niður í mannskapinn.
Nú er rólegheit yfir fólki, sumir að pakka og aðrir að varpa öndinni.

Flórens og ferðalok


Laugardagurinn 21. júní var ótrúlega langur og skemmtilegur. Við vöknuðum öll snemma til að leggja í hann. Hulda og Les stefndu til Dion, og skutluðu Iðunni og Stebba ´Malpensa flugvöll í Milan. Gerður og Jón fóru til Flórens þar sem þau byrja 9 daga ferðalag með vinum sínum Guðný og Júlla. Við fórum líka til Flórens í örskoðunarferð með Möggu, náðum að sjá torgið með öllum styttunum, Dómkirkjuna sem er gjörsamlega ógleymanleg og yfirbyggðu brúna Ponte Vecchio. Brúin er stórmerkileg en undarlegt að heimsækja hana núna þar sem þar eru svotil eingöngu skartgripaverslanir, og allt rándýrt. Við sáum litla uglu í búðarglugga og ákváðum að kíkja á hana, og jáhá, 147 evrur! handmáluð, emaleruð og með sterling silfur vængjum. en ekki þess virði, annað með veskið rauða og fína sem ég keypti mér, var verðmerkt 160 evrur, 50% útsala svo verðmerkt með 50 evrum en gunnar bauð 50 evrur og fékk það þannig. Við gengum líka götu með öllum fínu merkjunum Gucci, Prada, Tiffany, furðulegt að einhver vilji kaupa sér skó á 80þús krónur og þess meira. Enduðum svo á smá luns á torginu við dómkirkjuna og Gerður og Jón komu þangað líka. Þau höfðu lent í einhverju klúðri með bílinn, hótelafgreiðslukonan hringdi víst á lögreglu þar sem ferðamönnum er ekki heimilt að koma á bílum inn í miðbæinn. Við fórum í bílastæðahús í útjaðri miðborgarinnar og vorum alveg spök.
síðan var bara að bruna til Milan, gegnum Pó dalinn, göng og skóga, maís og hrísgrjónaakra. Lentum í smá útidúrum þar sem voru breytingar á vegum en ekkert sem kom að sök. Komum heim, seint og syfjuð, sólbrennd og bitin en alsæl með skemmtilegt frí. Við mælum alveg með öllu því sem við gerðum, Couchsurfing, leigja villur, og bóka hótel með litlum fyrirvara og láta koma sér skemmtilega á óvart. Arrivederci.