laugardagur, desember 26, 2009

Flutt til Íslands

Það er gott að eiga góða að og sérlega þegar flutt er á milli landa. Meðan við biðum eftir að fá íbúð afhenta á Vallarheiði fengum við að búa fyrst hjá pabba og svo hjá Iðunni og Stebba meðan þau voru á Ólafsfirði og í sumarbústaðnum, mikill lúxus og yndislegt heimili að dvelja á. Myndir úr júlí .

Við áttum fyrst að fá íbúð á Grænásbraut 1216 4 herbergja en vildum endilega á 5 herbergja til að hafa auka herbergi fyrir Bergþóru Sól. Ég var ekkert smá kát þegar Keilir hringdi og ég fékk að skoða 5 herbergja íbúð og hún er HUGE, fullt af skápum, öll tæki, tvö baðherbergi og bara dásamlegt þótt í rokrassgati sé. Jón og Pétur fluttu líka inn um leið og voru alsælir, Jón að vinna á bílaleigu og Pétur í Dominos.

Gunnar datt líka aldeilis í lukkupottin, Bjössi vinur hans bauð honum að koma mér sér 2-3 túra á trillu en þegar Gunnar mætti var Bjössi búinn að ráða sig á stærri bát og Gunnar mátti bara taka við svo þarna fékk hann vinnu upp í hendurnar. Hann gerðist trillusjómaður fór snemma á morgnana og kom seint á kvöldinn, þreyttur og sólbrúnn með fulla poka af fiski. Í einum af fyrstu túrunum kom hann vélarvana bát til bjargar og Víkurfréttir sögðu frá þó þar væri sleppt hans þætti!

Ég var þess vegna mikið í húsmóðurgírnum, vaknaði með Gunnari og Jóni til skiptis og smurði handa þeim nesti, og flakaði svo, frysti og gerði fiskibollur fram á rauðar nætur. Naut líka lífsins að hreiðra um mig í stóru íbúðinni. Versta var að ég eiginlega gleymdi að ég var í námi og sinnti því of lítið en þurfti líka kannski bara smá frí.

Við festum kaup á Mitsubishi Outlander hjá Reyni pabba Gabríels Veigars og fengum þá feðga í heimsókn.

Meiri myndir hér frá ágúst og svo skruppum við á Gay Pride
Flutt frá Englandi

Síðustu dagarnir í Leeds voru svolítið nostalgískir við fórum mikið í bæinn og oftar á pöbbinn og drukkum í okkur þessa síðustu dropa þeirrar lífsreynslu af því að búa í Englandi. versluðum eitt og annað til að taka með heim eins og fimm ára birgðir af kanil og paprikudufti ;)
Svo leigðum við trukk eina ferðina enn pökkuðum saman og þrifum á Aston View og brunuðum
með dótið til Immingham, 21. júní. Svo eyddum við nokkrum góðum dögum með Huldu áður en flogið var heim 26. júní. Það var alveg ómetanlegt að hafa Huldu og Les þarna á næstu grösum geta skroppið til þeirra yfir helgi og fá ráð um allt mögulegt sem fávísir Íslendingar vissu ekki. (á myndinni komst Hulda í hárið á mér og klippti hressilega !)

Fólk spyr mig oft hvort ég vildi búa þar áfram og svarið er ekki einfalt. England er dásamlegt að mörgu leiti, veðrið, verðið, sveitirnar, fjölbreytileikinn í mannlífinu. Magga systir segir líka að ég sé borgarrotta og eigi að búa þar sem ég geti labbað í óperuna og á tónleika og líklega er smá sannleikskorn í því. Ég elskaði að labba eftir daginn í háskólanum niður í gegnum miðbæinn, koma við í Borders og glugga í nokkrar bækur og fá mér kaffi á leiðinni í tónlistarskólann. En á móti kemur að ég elska líka að ganga um Keflavík og þekkja hverja einustu þúfu, og sérlega alla víðáttuna á Íslandi. En það sem gerir líklega útslagið er fólkið, að geta hoppað upp í bíl og verið komin inn í eldhús hjá systrum mínum innan fimm mínútna og að vera í daglegum samskiptum við fjölskyldu og vini.

Svo má ekki gleyma að í Englandi var lífið með afskaplega einföldum brag, ég í námi og Gunnar heimavinnandi, ekkert vinnustress og mikil notalegheit og tími til að njóta lífsins, hver veit hvaða mynd hefði verið ef við hefðum bæði verið í botnlausri vinnu ?

Það mætti skrifa langan pistil annars með samanburðinum á lífinu í Leeds og á Íslandi og það skín líklega í gegn um fyrri pósta kannski kem ég til með að bæta við þennan lista en þetta við ég nefna nú:
  • húsin og húshiti, í Englandi eru húsin köld og rök en á Íslandi heit og hlý
  • bankakerfið í Englandi er þungt og leiðinlegt
  • England er STÓRT Ísland er lítið og þá meina ég fólksfjöldi, vegakerfi, framboð á vöru og þjónustu ofl.....
Risið úr bloggbindindi

sæl og blessuð kæru lesendur og takk fyrir síðast, en það er fyrir heillöngu eða nákvæmlega hálft ár. Það var engin meðvituð ákvörðun að hætta að blogga það bara gerðist einhvernveginn eftir að við fluttum heim. Nú er það aftur á móti meðvituð ákvörðun að byrja aftur. Hér er því smá blogg um blogg. Þegar við bjuggum úti notuðum við bloggið til að flytja vinum og vandamönnum fréttir af lífi okkar í Leeds svo veit ég ekki hvað en líklega þykir okkur líf okkar ekki eins merkilegt hér heima eins og það er nú mikil þvæla. Líklega hefur líka Facebook spilað hlutverk því þar uppfæri ég stöðu og fylgist með öðrum, en gallinn við það er að upplýsingarnar verða illaðgengilegar á stuttum tíma. Undanfarið höfum við Gunnar ætlað að rifja upp eitt og annað, ekki bara frá Leeds heldur frá fyrri árum og þá förum við í bloggið til að hressa upp á minnið svo við sjáum að bloggið er fínasta heimild. Svo nú skal risið úr bloggbindindi og skráð helstu viðburðir og pælingar, þó svo að líf okkar allt verði eins og opin bók fyrir hvern sem nennir að lesa þá verður bara að hafa það enda ekkert að fela og ef svo væri þá væri það hvort sem er ekki fest á blað. Vil ég bara biðja lesendur að kvitta kannski fyrir sig og skilja eftir smá comment.
kv. Svava