Síður

þriðjudagur, júlí 13, 2021

Útför pabba

 12. júlí var  útförin hans pabba, við vorum mjög ánægð með daginn. Athöfnin var í Kálfatjarnakirkju, presturinn heitir Arnór Blómsturberg, hann þjónar í Vogunum og hafði oft hitt pabba sem gerði minningarorðin sérstaklega góð. Hann lagði út af húsunum sem byggð voru á sandi og kletti, en húsin væru samfélögin okkar og hvað pabbi hefði verið duglegur að rækta þau. Svo þýðir Pétur líka Klettur. Kóngarnir sungu fallega en við spiluðum af bandi fyrir athöfn, og The last farewell var líka af bandi.  Barnabörnin báru kistuna sem er mikið puð í þessari litlu og hugguleg kirkju en gekk allt vel þar sem þetta er  stórt og myndaleg fólk.

Erfidrykkjan var svo í Tjarnarsal, við Stóru-vogaskóla sem er stór og bjartur. Veitingarnar voru frá Sigurjónsbakarí og um 100 gestir komu.  Myndir hér.


Gerður skrifaði ítarlega minningargrein, líka Magga og Svava Tanja birti ljóð.  sdf

mánudagur, júlí 12, 2021

Djúpivogur júlí 2021

 Við höfðum fyrir þetta sumar skipulagt mikla reisu um Austurland.  Hún varð styttri en á horfðist en samt dásamleg og skemmtileg.

Við gistum í Vík hjá Hildi Árna, borðuðum á Súpufélaginu og heimsóttum brugghúsið Smiðjuna ég mæli sko með því bæði mat og bjór.

Síðan lá leiðin á Djúpavog þar sem við gistum allan tímann síðan með verslunarstoppi á Höfn og nesti úti í móa. 

Steingrímur tók vel á mót okkur og við gistum í sérhæð sem hafði allt til alls. Gunnar og Daði fóru í veiði fyrstu dagana við lítinn afla. 



Ég hvíldi mig, heimsótti sundlaug, eldaði og hafði það huggulegt. Svo var ég með tölvuna og flokkaði myndirnar hans pabba í gríð og erg. Reynda kannski nóg að gera að fylgjast með Steingrími sem var alltaf að fá senda hluta af búslóð sinni enda ætlar hann aftur að hafa vetursetu á Djúpavogi í íbúðinni fínu sem hann leigir af tveim fullorðnum systrum.

Á myndunum má sjá að við höfðum það gott, elduðum góðan mat og fengum sundowner drykki hjá Steingrími, negroni og uppskrift hans af "light introduction to Guinnes" sem samanstendur af 2 hlutum dökkum bjór og 1 hluta freyðivín, hljómar ólíklega en er virkilega skemmtilegt.



Ég reyndar fékk forskot því Steingrímur bauð mér í drykk með Kristínu Dagmar sýningarstjóra sýningar Sigurðar Guðmundssonar listamanns, og stöllu hennar Hildi Rut. Sigurður er nágranni Steingríms og mjög skemmtilegur karl og umhugsunarverður listamaður.

Við tókum svo rúnt eftir að veiði lauk, keyrðum yfir Öxl yfir að Lagarfljóti þar sem við kíktum á Möggu sem var þar í útlegu, svo í kaffihlaðborðið fína á Skriðdalsklaustri. Þaðan meðfram fljótinu vestanmegin að Egilstöðum að heimsækja búðir og veitingahús í blíðunni sem var mikil meðan þoka lá niður á Djúpavogi.

Gunnar heimsótti svo Útnyrðingsstaði rétt utan við Egilsstaði og átti langt spjall við frænda sinn þar, en afi Gunnars bjó á sínum tíma þarna og bræður hans sendir þangað í sveit. 

Næst lá leiðin á Breiðdalsvík í annað brugghús Beljandi, þar fengum við Hrút, frábæran stout, lamba bláberjasnakk og þeir kíktu á fótboltaleik, eitthvað EM dæmi.

Daði kvaddi okkur svo og við tóku meiri rólegheit, tókum góðan göngurtúr og kíktum á helstu túristastaði, Löngubúð og Eggin í gleðivík sem eru eftir títtnefndan Sigurð. Við vorum að velta fyrir okkur stöplunum undir þeim, að þetta hefði nú verið mikil framkvæmd en í ljós kom að þeir voru þarna síðan færiband lá frá höfninni að Bræðslunni sem nú er nýtt í listsýningar en verður víst bráðum kassaverksmiðja, fyrir kassa fyrir lax sem er mikilvægur atvinnuvegur þarna á staðnum. 

Svo fylgdumst við með hinum atvinnuvegnum en það er að taka á móti skemmtiferðaskipum í löngum bunum, sumir rölta um plássið meðan aðrir skella sér í rútu á jökulsárlón.  Svo fór líka að Steingrímur yfirgaf okkur með einu slíku til að taka túra í kringum landið og leiðsegja ferðamönnum.

Við undirbúninga ferðarinnar var ég búin að sjá að góðar sandfjörur væru við Djúpavog og var ákveðin í að fara í sjóinn, þegar við loks fórum var komið brim og læti en ég lét það ekki stoppa mig, en fór stutt þar sem aldan var sterk.



Það var óvænt ánægja að Ásta Júlía og Ágúst áttu leið um og komu til okkar í mat á föstudagskvöldið og keyrðu svo áfram á suðurleið.



Steingrímur missti af laugardeginum þegar afhjúpað var minnismerki um Hans Jónatan, við fluttum upp til að víkja fyrir öðrum gestum sem höfðu flutt þingsályktunartillögu um minnismerkið.  Strax á eftir var svo opnuð sýningin The universe is a poem, með nokkrum gjörningum. Meira að segja einum sem ég tók þátt í og varð þar með lifandi ljóð.

Katrín Jakobsdóttir var á staðnum til að afhjúpa minnismerkið og opna sýninguna og Gunnar gaf sig á tal við hana og fékk mynd með uppáhaldsstjórnmálamanninum sínum þessa dagana.  Deginum lauk svo með heilmiklu samkvæmi hjá Sigurði.


Við ókum svo alla leið heim, stoppuðum á Þorberssafni, á Jökulsárlóni og svo aftur í smiðjuna á Vík. Með okkur í för var Inneke tengdadóttir Sigurðar og Inneke.

Þetta voru frábærir daga og ég held við hlökkum bæði til að heimsækja Djúpavog aftur og sjá meira af Austfjörðum.

Hér eru svo allar myndirnar

fimmtudagur, apríl 01, 2021

2021 Mars

 Mér finnst ástæða til að skrifa blogg um þennan mánuð, nú er ár síðan Covid byrjaði, ég er meira og minna búin að vinna heima í heild ár, fyrir utan smá tíma í sumar og Gunnar í sumar og fyrri hluta þessa árs.

En að skemmtilegri hlutum þá langaði mig mest að segja frá því að við fórum í Stykkishólm í 6 daga og gerðum alls konar skemmtilegt. Viktor Darri var með okkur fyrstu fjóra dagana spiluðum mikið slönguspil, teiknuðum, horfðum á teiknimyndir. Ég vann aðeins en þeir félagarnir skoðuðu Stykkishólm ,verslanir bæjarins og strandaðan Baldur. Veðrið var leiðinlegt, hávaða rok og leiðindi, þannig að við Viktor ætluðum í sund en hann missti móðinn í sturtuklefanum, líklega þegar kona í sturtunni talaði mikið um rok og kulda þarna úti.

Daði og Dísa komu svo á föstudeginum, við borðuðum góðan mat, allt keto að þessu sinni, fórum í góðan göngutúr með heimsóknum í keramikverkstæði. Ásta Júlía og Ágúst komu svo þegar aðein leið á daginn, Ágúst ólst upp í plássinu og fóru með okkur í bíltúr með leiðsögn og sögum áður en við elduðum nautalund með bernais og kjöftuðum langt fram á nótt.



Á sunnudeginum keyrðum við fyrir nesið í dásamlegu veðir og skyggni með viðkomu í kaffi hjá Helgu á Arnarstapa og kvöldmat í Food station í Borgarnesi.




Annað skemmtilegt í mánuðinum var að horfa á Hrafnihildi í sýningunni Unglingar, mikið fjör og skemmtileg sýning. 

Við keyptum húsgögn á pallinn í Rúmfatalagernum. Jón og Ingvar settu þau saman. Stóru strákarnir komu með og hreinsuðu laufin af þaki nágrannans og aðstoðuðu við samsetninguna.  Ingvar kom næsta dag
og við fylltum gróðurkassana af mold svo nú eru þeir tilbúnir fyrir plönturnar.




Við fórum í mat til Kristjáns og Rhonu sem eru búin að vera hér síðan um jól vegna Covid-19.  Hulda, Birgir og Vigdís voru í mat hjá okkur þegar eldgosið í Geldingadal byrjaði. Ég fór í saumaklúbb til Erlu í nýja húsið þeirra. Síðast en ekki síst komu pabbi og Þórunn til okkar í svið en myndavélin fór ekkert upp í þessum boðum því miður.


 Annars eru allir hraustir, Kristófer og Viktoría fengu RS vírus en eru orðin hressari og kíktu í pottinn en engar myndir voru teknar. Kór Víðistaðakirkju var byrjaður að æfa og búinn að syngja eina fermingu og tvær messur en svo var öllu skellt í lás þann 25. þegar strangari reglur voru settar og meðal annars öllum skólum lokað til 15. apríl.  Bergþóra er að skrifa BS ritgerðina og klára síðustu námskeiðin og Jón hamast í háskólabrú.