Síður
▼
mánudagur, september 17, 2018
Með Frú Láru í Týrol
Í september fórum við langa helgi til Týrol með starfsmannafélaginu Frú Láru.
Bækistöðvar okkar voru í Seefeld, sem er í um 1180 m hæð, með enn hærri fjöll allt um krings, svo það er þema þessa árs, að vera hátt uppi
Við flugum út á fimmtudegi og vorum lent rétt uppúr hádegi. Byrjuðum á bjór og pylsum í Enska garðinum í Munich eftir fínt flug.
Svo uppí fjöll með rútunni á þetta lika fína hótel Hótel Krumers Alpin Resort & Spa, sem er bara rétt við skíðalyfturnar og ábyggilega fínt að vera þar að vetri, en við vourm á rólegum tíma og fátt um manninn. Það var notalegt í lok dags að fara í sundlaugina og svo heimsótti fólk líka Nude Sauna. Morgunmaturinn var stórkostlegur, kannski það besta við hótelið, mjög fjölbreytt úrval, allt frá hafragraut til eggja elduðum eftir pöntun og lýsi í ofanálag.
Það fór vel um okkur og mikið grínast frá svölunum, bæði milli hæða og við þá sem voru í sundlauginni.
Á föstudeginum heimsóttum við Swarovski safnið sem kom skemmtilega á óvart, við bjuggumst við að fá vísindalega umfjöllun um hvernig kristallarnir eru búnir til, en það var eiginlega ekkert um það en aftur á móti salur eftir sal af stórfenglegum listaverkum unnum með kristöllunum.
Svo lá leiðin til Innsbruck, við röltum um og fengum okkur snarl með skemmtilegum félögum.
Á laugardeginum var ekkert sameiginlegt prógram. Ég skellti mér í yoga og fór svo í fótsnyrtingu. Eftir heimsókn á kökuhlaðborðið fórum við uppá fjall með fyrst lest og svo klár, nutum útsýnisins og náttúrunnar. Þegar maður er kominn svona hátt upp minnir gróðurfarið mikið á Íslenska flóru.
Um kvöldið var svo árshátíðarkvöldverður, reyndar var eins og það væri árshátíð öll kvöldin því við vorum alltaf í mat á hótelinu í fjórréttuðu, forréttur, súpa, aðalréttur og eftirréttur. Reyndar voru súpurnar fyndnar, alltaf í boði heit og köld súpa og við pöntuðum alltaf bæði, kalda súpan var stundum eins og þykkur ávaxta þeytingur en sítónu"súpan" var bara 7up með myntulaufi! Annars var maturinn mjög góður en skyggði óneitanlega á að salurinn sem við sátum í öll kvöldin er með hræðilega hljóðvist svo maður var hálf ærður eftir kvöldið.
Á sunnudeginum fórum við í enn hærri hæðir þega við fórum til Garmisch-Partenkirchen og uppá Zugspize em er hæsta fjall Þýskalands. Fyrst er farið með lest um sveitir sem fer svo inní göng og barasta beint upp fjallið. Svo er skipt yfir í kláf til að komast uppá hæsta topp. Þarna var stórfenglegt útsýni og við heppin með veðrið. Maður fann samt óneitanlega fyrir hvað loftið er létt í háloftunum.
Á bakaleiðinni var stoppað fyrst i bænum Mittenwald og á næsta veitingahús, en óhætt er að mæla með að taka amk 1,5 tíma uppi á toppnum, en við rétt náðum að njóta útsýnis en ekki veitinga.
Mittenwald er svo krúttilegur bær, mikið af skreyttum húsum og göngugata full af veitingahúsum. Reyndar voru skreytt hús allstaðar þar sem við komum.
Þessi mynd er frá næsta stoppi þar sem skipuleggjendur fengu gistiheimiliseignanda til að skipuleggja vínsmökkun. Þar smökkuðum við mjög fín Austurísk vín og góða osta.
Í heild var þetta bráðskemmtileg ferð og við mælum alveg með að heimsækja þessar slóðir. Hópurinn var skemmtilegur eins og alltaf, veðrið gott og vel heppnað í alla staði.
Hér eru svo allar myndirnar, nóg af fjöllum, skreyttum húsum og Swarowsky kristalslistaverkum.