Þessi Verslunarmannahelgi útheimtir blogg, þó það væri ekki nema til að muna seinna hvert við fórum..
Við áttum frábæra helgi með Daða og Dísu, vorum í bústað í Úthlíð frá FIT við Djáknaveg, alveg fyrsta flokks hús rúmt og gott með þrem svefnherbergjum og rosaleg heitum heita pott. Svo var rúntað á hverjum degi um hálendi og teknar þúsundir mynda en ekki margar af okkur, aðallega hinu frábæra íslenska landslagi.
En fyrst um hversdagslegri hluti. Við vorum með fína verkaskiptingu, ég sá um innkaup og að tína eitthvað fram, Dísa um bakkelsið, Daði um barinn og laxinn og Gunnar grillmeistari.
Matseðillinn var svona:
Kvöld 1: 170 gr Hamborgarar með gráðosti og salati úr garðinum auk guacamole.
Morgunn1: Lummur, harðsoðin egg og reyktur lax frá Daða og salat úr garðinum
Kvöld 2: Grillaður lax úr síðustu veiðiferð Daða með sætkartöflumús og brokkoli. Amy Winehouse á spilaranum og fullt tungl, það annað í mánuðinum á himinunum og þá kallast það víst Blue Moon, sést hér að neðan yfir Heklu. Spiluðum svo Besserwisser og Dísa vann (leiðrétting, samferðafólkið segir að ég hafi unnið, en það var allavega mjótt á mununum).
Morgunn2: Heimabakað brauð, meiri lax og salat og harðsoðin egg
Kvöld 3: Eitt og annað snætt með puttunum í súrdeigspönnukökum á Minilik á Flúðum
Morgun3: Bakarísbrauð, lax og ýmislegt
Kvöld 4: Heilgrilluð nautalund, bakaðar kartöflur, grilluð paprika og brokkoli og bernais sósa from scratch. Þá urðu 4 eggjahvítur munaðarlausar sem umbreyttust í marengsklatta með jarðaberjum og sýrðum rjóma.
Alla ökudaga voru svo með í för samlokur, bakkelsi, bananamuffins og heimilissæla, kaffi og kakó á brúsa. Verður ekki betra :) Mjög glaðir magar og bragðkirtlar í þessari ferð.
Dagur 1 var mikil keyrsla um 200 km, með mörgum stoppum, keyrðum upp Kjalveg F35, sáum mestallan tímann Bláfell og Jarlhettur.
Skálpanes - þar sem Mountaineers of Iceland eru með bækistöð og yfir 100 vélsleða, minnti mig eiginlega á James Bond mynd að sjá þá þarna í röð.
Keyrðum svo hliðarveg að skála ferðafélagsins í Hvítárnesi.
Kerlingarfjöll, keyrðum alveg innfyrir uppí fjöllinn og inn í Hveradali þar sem er mikið og fallegt hverasvæði þó veðrið hafi ekki leikið við okkur þar.
Tókum líka örstutt stopp við Gullfoss á bakaleiðinni.
Dagur 2 var svo minni akstur en meira labb. Stoppuðum fyrst við Brúarhlöð sem eru stórfengleg gil í Hvítá, þau sjást vel frá veginu en við gengum innfyrir og sáum enn betur.
Stefnan var svo tekin á austurbakka Gullfoss, þá þarf að ganga um 3 km spotta til að koma að fossinum en það er sko alveg þess virði.
Fossinn virkar mikið stærri frá þeirri hlið þar sem maður sér meira af honum og engir túrhestar, þeir sjást reyndar hinum megin þar sem maður kemst nær fossinum.
Svo renndum við á Flúðir eftir nestisstopp í grænni lautu, ókum hjá Hruna, að Stóru Laxá og komum við í Stuðlabergsnámu. Snæddum á Minilik og svo stystu leið heim því liðið var ansi lúið.
Dagur 3 var stórfenglegur, þá fórum við af Kjalvegi yfir á línuveg F338 sem liggur þvert í vestur milli jöklana og fjallana sem eru norðan Laugarvatns. þetta var bjartur og góður dagur með mörgum myndastoppum. (merkt með rauðum doppum á korti og svarta línan er göngutúr).
Við fórum svo útaf línuveginum á ómerkta leið til norðurs sem leiddi okkur upp að Hagavatni undan Langjökli, þar sem við gengum góðan spotta að útfalli vatnsins.
Síðan fórum við meðfram Hlöðufelli til suðurs og komum niður hjá Miðdalsfjalli.
Við fórum svo útaf línuveginum á ómerkta leið til norðurs sem leiddi okkur upp að Hagavatni undan Langjökli, þar sem við gengum góðan spotta að útfalli vatnsins.
Síðan fórum við meðfram Hlöðufelli til suðurs og komum niður hjá Miðdalsfjalli.
Það er ævintýralegt að horfa á allt þetta landslag hraunbreiður, eyðisanda, móberg, mig langar allaf að læra meira í jarðfræði eftir svona ferðir. Ekki fer mikið fyrir gróðri á þessum slóðum, blóðberg, lambagras, holurt og geldingahnappur mest áberandi en víða er samt búið að sá lúpínu og melgresi á stöku stað.
Þó þetta hljómi sem strembin ferð náðum við að sofa vel og dreyma mikið. Umfjöllunin verður ssvo að ljúka á lagi ferðarinnar en Dísa fór að segja okkur frá gönguferðum með vinkonum sem syngja gjarnan sjóaralög og nefndi langlegu valsinn sem við reynum í sameiningu að rifja upp með aðstoð internetsins með þeim afleiðingum að ég var raulandi hann allann tímann.
Hér eru svo allar myndirnar sem ég tók á símann minn. Þær fölna náttúrulega í samanburði við þessar frá Daða
ps. notaði þessa kortasjá Landmælinga við að gera kortin en sá það ekki fyrr en eftirá að hægt er að stilla á að örnefnin sjáist.
ps. notaði þessa kortasjá Landmælinga við að gera kortin en sá það ekki fyrr en eftirá að hægt er að stilla á að örnefnin sjáist.