Síður

laugardagur, janúar 03, 2015

Nú eru áramót 2014-2015

Já nú árið er liðið í áranna skaut og allt það.  Sá skemmtilegi siður að skrifa jólakort er því miður að hverfa smám saman, en annað kemur í staðinn. T.d. þetta blogg og allar myndirnar og kveðjurnar á Facebook. Google+ setti saman myndband fyrir mig sem er svona, 

Þar sjást helstu viðburðir þessa árs sem eru vel dokumentaðir á þessum miðli. Tvær frábærar utanlandsferðir sem við Gunnar fórum í, sú fyrri til Helsinki og Ítalíu í maí/júní og svo til Parísar um þær báðar má lesa hér á blogginu. Einnig frábæra ferð á Norðurlandið í sumar sem einnig er skráð hér. Þá má ekki gleyma að Gunnar, Kristín Hrönn og Lilja Björg byrjuðu árið á að elta handboltalandsliðið til Danmerkur á Evrópumót, en ferðin var útskriftargjöfin þeirra.

Það eru samt tveir viðburðir sem við eigum eftir að minnast helst frá þessu ári. Við vorum rækilega minnt á það bæði að lífið er dásamlegt og hverfult.


Í mai kvöddum við mömmu hans Gunnars. Guðbjörg Þorsteinsdóttir lést 23. maí og Gunnar skrifaði minningarorð sem lesa má á mbl.is. Hún var á 96. aldursári en full af lífi og fjöri. Um hver jól og tímamót fór hún alltaf að tala um hvernig við myndum hafa þetta næst eins og það væri gefið mál að við myndum koma saman og að ári liðnu og fá okkur hangikjöt, segja sögur og hlægja. Svo varð ekki að þessu sinni heldur geymum við dýrmætar minningar í hjarta okkar og hlægjum áfram eins og hún hefði viljað.

Hin hliðin á peningnum er nýja og fallega lífið sem kviknaði á árinu. 24. október fæddist litla dásamlega krílið hann Guðmundur Pálmi. Foreldrar hans eru Jón sonur minn og Ágústa Ólsen sambýliskona hans.
Ég er því orðin löggilt amma og brosi út í annað þegar ég heyri Svava amma, en ég er skírð eftir Svövu ömmu minni sem við kölluðum stundum ömmu glans, í seinni tíð því hún varð æ glysgjarnari með aldrinum og gekk í peysum með gullþráðum og fagurgyllt selskapsgleraugu. Nú get ég það líka :)
Litla fjölskyldan býr í Innri Njarðvík og þó það sé ekki mjög langt þá er maður ekkert að æða á hverjum degi en nýti hvert tækifæri til að koma við og kíkja á þau. Guðmundur Pálmi sem er skírður eftir báðum öfum sínum dafnar vel og er vær og góður.

Af krökkunum er flest gott að frétta, Pétur vinnur í Héðni og býr með sínum félögum á Ásbrú. Kristín Hrönn var í hjúkrunarfræðinámi svo Gabríel fékk oft að koma að gista meðan mamma lærði eða vann í heimahjúkruninni. Við krossum enn fingur að hún hafi komist áfram í gegnum samkeppnisprófin,en það kemur í ljós næstu daga. Lilja Björg stúderar sálfræði og vinnur á sambýli og býr í fínni stúdentaíbúð á Akureyri. Hún kemur oft suður og er eins og hvirfilvindur að hitta vinkonur og kíkja út á lífið. Bergþóra Sól er búin með eina önn í VMA, vann í Lindex en hefur nú hætt því bakið er eitthvað að trufla hana, svo fær hún bílpróf núna á næstu dögum.

Við Gunnar vinnum enn á sömu stöðum en ráðningar okkar beggja renna út á komandi ári, Ekki er útlit fyrir að framhald verði á tilraunaverkefninu Starf ehf.  Mín ráðning sem nýdoktor rennur út 1. des, hvað gerist þá veit enginn enn, en ég hef allavega í nógu að snúast og mörg spennandi verkefni í gangi sem finna þarf leiðir til að halda áfram að vinna.

Annað hversdagslegt frá árinu er að við fórum á tangónámskeið og gekk bara bærilega, ég allavega vona að þar verði framhald á. Ég syng enn með Samkór Kópavogs og við héldum flotta tónleika í vor og fórum í frábærar æfingabúðir í Skálholti. Það er ekki nóg svo ég syng líka með Kirkjukórnum í Víðistaðakirkju, þar er auðvitað sungið reglulega, messur, tónlistarviðburðir aðrir og aðventukvöld. Gunnar kemur oft í kirkjuna og er líka farinn að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi þar við helgihaldið.
Gunnar þurfi að heimsækja lækna aðeins vegna hjartsláttaróreglu og fór í rafvendingu og virðist kominn í takt og allur að hressast. Við berum enn út blaðið , komið eitt og hálft ár af því sem heldur okkur í gönguformi og gefur nokkra aura í ferðasjóð.

Annars var þetta bara gott og gleðiríkt ár, garðrækt gekk vel, metuppskera af jarðarberjum, fínt af rabarbara og rifsi, mikið af kartöflum sem springa samt við suðu.  Við erum alsæl og glöð með lífið hér á Klettahrauninu. Við tókum á móti fjölda Couchsurfera, héldum skrilljón matarboð og hittum góða vini og ættingja. Verið öll alltaf velkomin á til okkar.




Við óskum ykkur árs og friðar kv. Svava og Gunnar Halldór

/SP